Það eru hátt í 6000 manns á Íslandi í dag atvinnulausir, eða um 4% af mannafla landsins og fer því að síga í það ófremdarástand sem var hér fyrir 8 árum síðan eða svo þegar atvinnuleysi var það mikið að nær ómögulegt var t.d. fyrir skólafólk að fá sumarvinnu.
Munurinn nú og þá er hinsvegar sá að núna er óhuggulega stór hluti atvinnulausra vel eða jafnve mjög vel menntað fólk, með mikla reynslu, hæfileika og meðmæli. Það dugar bara ekki til.
Fyrir 3 árum ákvað ég að breyta til í starfi og ég fór á stúfana og hafði samband við einhver 12 fyrirtæki í tæknigeiranum sem mér leist vel á og sótti um vinnu hjá þeim.
Öll nema 2 buðu mér vinnu, með þrusugóðum launum og aðstöðu.
Nú hafa málin snúist við.
Upp á síðastliðin 2 ár eða svo hafa hundruðir manna í tæknigeiranum misst vinnuna vegna samdráttar og margir þeirra hafa átt erfitt með að finna sér sambærilega vinnu aftur. Ég þekki meira að segja dæmi um að fólki var sagt upp einfaldlega vegna þess að það var með hæstu launin á vinnustaðnum, ekkert litið til starfsaldurs eða hæfileika viðkomandi til að skila góðri vinnu, þessir aðilar hafa svo margir hverjir þurft að sætta sig að ráða sig í verr launað starf, vegna þess að fyrirtækin vita að nú geta þau boðið minna en áður. Sumir hafa meira að segja haldið á lofti þeirri skemmtilegu samsæriskenningu að öll þessi tæknifyrirtæki séu með eitt stórt samsaæri um að reka alla þá hæst launuðustu, til þess eins að geta skipts á starfsfólki en boðið þeim lægri laun !
Ég hef allavegana aldrei getað skilið rekstaraðferðir þessara fyrirtækja, finnst oftast að þeir beri ekkert skyn á hvað mannauðurinn er mikilvægur í svona þekkingarstarfsemi.
En það er kanski bara mín skoðun.
Eins og ég sagði áðan þá gengur illa fyrir tæknimenntað fólk að finna sér sambærilega vinnu aftur, þeir fjölmörgu sem ég þekki sem misst hafa vinnuna á síðustu mánuðum, voru lágmark 3-4 mánuði að finna sér nýja vinnu og voru samt með allar klær út.
Ein sem ég þekki sótti t.d. um á 90 stöðum (augljóslega ekki bara við hugbúnaðargerð) og var ekki kölluð í nema 2 viðtöl. Fékk starf eftir seinna viðtalið.
Ég veit meira að segja um tölvunarfræðing með 20 ára reynslu sem er búinn að vera atvinnulaus í meira en ár núna og fær ekkert að gera.
Ég þekki líka annan sem var atvinnulaus í 9 mánuði og þar sem konan hans er öryrkji og þau eiga 3 börn þá fór fjárhagurinn fljótt versnandi. Hann þurfti að selja bílinn sinn og var í eilífu strögli við bankann út af lánum sem hann gat ekki lengur greitt af.
Auk þess að það sé fátt um góða drætti í þessum geira er líka erfitt fyrir háskólamenntað fólk að fá aðrar vinnur. Hvað eftir annað fær það að heyra að það sé “over qualified” fyrir störfin, ef það fær á annað borð nokkur svör.
Í staðin fyrir að fá vinnu við að svara í símann eða afgreiða í BT verður þetta fólk að sætta sig við að vera “of sérhæft” og þarf að hanga heima með sínar lásí atvinnuleysisibætur þangað til það verður þunglynt, gjaldþrota eða flýr land.
Í dag voru svo 28 tæknimenn að bætast í þennan hóp atvinnulausra hámenntaðra einstaklinga, en Íslensk Erfðagreining var að segja upp 28 manns í hugbúnaðardeildinni, þar af nokkrum af bestu og færustu tölvunarfræðingum landsins. Sumir sem hafa unnið þar frá upphafi.
En í fyrra sögðu þeir upp yfir 200 manns, þar of mörgum góðum líffræðingum og tölvunarfræðingum eftir að hafa spreðað tugum ef ekki hundruðum milljóna í allvegana vitleysu, t.d. með því að egna saman 2 hópum í hugbúnaðardeildinni til að vinna að 2 útfærslum á sama verkefninu og velja svo betri lausnina en henda hinni, sem var ársverk 6 vel launaðra tölvunarfræðinga.
Þetta er erfiður tími vinnilega séð, og bitnar það auðvitað á öllum. Systir mín sem er enn í skóla, hefur verið með sömu sumarvinnuna í 3 sumur en í ár mátti ekki ráða afleysingarfólk þar svo hún hefur ekki fengið neitt að gera enn.
Samt er hún alla daga keyrandi út ferilskrám hingað og þangað.
Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en ég vona að þessu ófremdarástandi fari brátt að ljúka og að fólk fari að geta fengið vinnu aftur, og að þeir sem eru í vinnu þurfi ekki að lifa í endalausum ótta um hvort það sé þeirra rass sem verði látinn fjúka næst.
Heimildir : Vinnumálastofnun, mbl.is, vinir og vandamenn í tæknigeiranum