Hvernig dæmir maður fegurð ?
Í kvöld mun hópur af ljóshærðu lambakjöti sem er nývaxið úr grasi keppa í því hver þeirra er fegurst kvenna á landi hér.
Hver öðrum fegurri, eða hver öðrum líkari koma þær fram á undirfötum og í glamorkjólum, með allt of mikinn kinnalit fyrir stúlkur á þessum aldri. Eiginlega fyrir konur á hvaða aldri sem er.
Ég uppgvötaði fyrir nokkrum árum að allar Íslenskar stelpur eru eins. Þetta er eins og með kínverjana, maður þekkir þekkir þá ekki í sundur í bíómyndunum, eins er það með þessar ungu, fögru, ljóshærðu, grönnu, hávöxnu, bláeygðu stúlkur með smá frekjusvip og agaða framkomu.
Þessar stelpur sem eru allar svo líkar að maður þekkir þær ekki í sundur nema ef maður þekkir þær, flykkjast svo í keppni um hver þeirra sé fegurst.
Og í kvöld mun ég eins og alþjóð sitja fyrir framan sjónvarpið og hrópa of feit, of mjó, og ánægð með sig, of vaxtarlaus, of tilgerðarleg, of stórt nef, of útstæð eyru og ojjjjjj þessi er nú bara ljót ! En samt eru þær allar eins !
Ég kannast við nokkrar stelpur sem hafa tekið þátt í svona keppnum. Hér áður fyrr voru það skólasystur mínar og áttu þær það allar sameiginlegt að hafa orðið fyrir einhverju aðkasti í lífinu. Ein kom frá hræðilegu heimili og var lögð í rosalegt einelti í skólanum. Önnur var svo fallegt og hæfileikaríkt barn að hún var öfunduð og baktöluð af öllum öðrum stelpum í skólanum og átti enga vini eða kærasta nema í öðrum hverfum borgarinnar. Sú þriðja var músin sem skreið með veggjunum og engin vissi hver var.
Og svo mætti lengi telja.
Það er því synd og skömm að þessar stúlkur sem eiga það flestar sameiginlegt að hafa lélega sjálfsmynd og þörf fyrir að sanna sig skuli þurfa að sitja undir hrópum okkar og köllum og dómum um hvað þær séu nú ófullkomnar, en það er auðvitað hluti af leiknum, því hvernig dæmir maður fegurð ? Hvernig finnur maður fallegustu stúlkuna af hópi af stúlkum sem eru allar eins.
Nýlega er ég svo að verða fyrir því að keppendurnir sem ég kannast við eru börnin sem ég var að passa þegar ég var unglingur og ég horfi á þær með hryllingi spóka sig um á kynþokkafullum undirfötum og hrópa upp : “En hún er bara smábarn !”
Hér á það sama við um þegar keppt er um fallegasta karlmann landsins. Fyrir mér er þetta hópur af gelgjum og mér finnst þeir í mesta lagi það sætir að mig langar til að klipa í kinnina á þeim, breiða yfir þá sængina og kyssa þá góða nótt eins og ég geri við son minn. En að sjá þá reyna að vera sexý og karlmannlegir ojjjjjj.
En það segir kanski meira um minn aldur en þeirra.
En þá komum við að spurningunni. Hvernig dæmir maður fegurð ?
Mér finnst þessir herramenn í Herra Ísland allavegana ekki vera fegurstu menn landsins, því fyrir mér eru þetta bara sólbrenndar gelgjur.
Mér finnst maðurinn minn að sjálfsögðu vera sá fallegasti á landinu og mér finnst björgunarhringurinn hans sem tók að vaxa eftir 25 ára aldurinn vera það kynþokkafyllsta sem ég veit um. Mmmmmm, nammi namm.
Fallegasta kona sem ég veit um er mamma mín, hún hefur alltaf verið skvísa, en ekki of mikil til að þora að vera hún sjálf. Hún er falleg, skemmtileg, góð og gáfuð og það væru margir karlmenn sem myndu vilja stela henni frá pabba. Hún er einstök og þó að hún sé mjög myndarleg utanfrá, þá hefur hún líka þennan innri ljóma sem skiptir að mér finnst öllu máli þegar ég er að dæma um hverjir eru fallegir.
En maður sér ekki innri ljómann hjá stúlkum sem maður horfir á 1 kvöld hoppa um á sviðinu á Broadway. Svo hvernig dæmir maður þá hver þeirra er fegurst ?
Fallegasta kona sem ég hef á ævi minni séð ef ég á að meta bara skelina, er þrítug kona sem bjó einu sinni í sama húsi og ég. Hún er svona drop dead falleg, að meira að segja konur geta ekki hætt að horfa á hana, og þegar stráka vinir mínir komu í heimsókn og sáu hana í garðinum þá breyttust þeir allir í úlfinn góða í teiknimyndunum, þennan sem missir kjálkann og tunguna niður á gólf og augun stingast út og hringsnúast.
Þessi kona er hinsvegar 2 barna móðir og líklega einum 20 kg yfir kjörþyngd.
En hún samsvarar sér vel og andlitið er eins og á engli, ég veit ekki um neinn mann sem myndi ekki rifna af monnti að eiga hana sem konu (allavegana ef maður er bara að pæla í útlitinu).
Mér finnst að hún ætti að vera valin fegursta kona landsins, ár eftir ár 
En það er víst ekki í reglunum. Maður má víst ekki vera þybbinn og maður má ekki vera svona gamall og maður má ekki eiga börn. Því þá er maður ekki fallegur lengur….
Á mínum menntaskólaárum (fegurðardrottningaaldrinum) var ég hégómagjörn pæja sem var heltekin af útlitinu. Stundum fékk ég að heyra það frá fólki að ég ætti vel heima í fegurðarsamkeppni, en ég þvertók alltaf fyrir það, ég var nú of lítil og of feit og með of skakkar lappir. Samt leit ég bara út eins og allar hinar Íslensku steríótýpurnar sem enginn þekkir í sundur.
Með eilífum Photoshopuðum forsíðumyndum og myndböndum af frægu fólki, höfum við nefnilega ranga og staðlaða ímynd um hvernig við eigum að vera (á bæði við um konur og menn) og allir meira að segja hið fullkomnasta fólk er með minnimáttakennd yfir útlitinu. Stelpur vilja vera grennri og brjóstastærri (sem ættu að vera andstæður) og strákar vilja vera stæltari og skornari.
Og á meðan er fullt af fólki sem er nákvæmlega sama um fitumagn, vöfðamassa eða brjóstastærð og metur fegurð fólks frá einhverju allt öðru t.d. frá því að kunna að vera örðuvísi en vera samt fallegur.
Við erum öll misjöfn frá náttúrunnar hendi en getum samt verið falleg. Fegurð er nefnilega ekki stöðluð ímynd auglýsingarmáttsins, heldur eitthvað sem við gerum öll upp við okkur sjálf hvað okkur finnst vera fallegt.
Og á meðan við sitjum í kvöld og horfum á stöðluðu fegurðardrottingarnar okkar spóka sig um og við hrópum, of feit, of mjó, of stórt nef og allt það, skulum við muna að :
“Beauty lies in the eyes of the beholder !”