Undanfarið hef ég séð og heyrt mikið og slæmt rakk um kommúnista, vinstrimenn, og í framhaldi af því Samfylkinguna (sem er reyndar bara miðjuflokkur eins og allir vita sem hafa eitthvað vit á pólítik.)
Reyndar er það vægt til orða tekið því ég hef alla ævi þurft að díla við það að fólk sé að rakka niður, misskilja og hreinlega ljúga upp allt sem er til vinstri.

Ætla ég að hafa hér um það nokkur orð – því mér er gjörsamlega orðið misboðið hvernig fólk getur hagað sér og gert sig að fíflum.

KOMMÚNISMI V. NASISMI
Hér á Huga hafa til dæmis verið til raddir sem segja ítrekað að kommúnismi og nasismi séu nátengdir hlutir, á meðan þeir eiga ekkert skilt við hvorn annan, og í reynd eru frekar á öndverðu meiði.
Kommúnismi gengur út á það að allir eigi að vera jafnir (sama hvaða kyn, trú, kynstofn eða annað)og að að allir eigi að hafa sama rétt til auðlinda lands og þjóðar, menntunar og allrar þjónustu.
Nasismi gengur að stóru leyti út á það að sumir séu betri en aðrir og að þeir eigi að hafa meiri réttindi en allir aðrir.
Í reynd þá voru Nasistar Þýskalands svo aktívir í sínum þjóðernishreinsunum að þeir drápu ekki eingöngu milljónir Gyðinga eins og allir eiga að vita heldur einnig milljónir af Sígaunum og þúsundir af fólki sem ekki þóknaðist þeim á annan hátt. Þar voru kommúnistar hæst á blaði því þeirra skoðanir voru á andverðu meiði við skoðanir ríkisins.
Martin Niemoller var lúterskur prestur í Þýskalandi á seinni heimstyrjaldarárunum.
Hann var handtekin fyrir skoðanir sínar og dvaldi 7 ár í fangabúðum Nasista.
Hann orti eftirfarandi ljóð sem sýnir glögglega hvaða skoðun Nasistar höfðu á kommúnistum.

In Germany, they first came for the communists,
and I didn't speak up because I wasn't a communist.
Then they came for the Jews,
and I didn't speak up because I wasn't a Jew.
Then they came for the trade unionists,
and I didn't speak up because I wasn't a trade unionist.
Then they came for the Catholics,
and I didn't speak up because I wasn't a Catholic.
Then they came for me –
and by that time there was nobody left to speak up.

Hitt er annað mál að Hitler var það sem kallast Fasisti, en það kemur hinsvegar Nasismanum í raun ekkert við, og að Stalín sem kallaði sig Kommúnista var líka Fasisti en það kemur kommúnisma heldur ekkert við.
Málið er nefnilega það að pólítíkskar skoðanir nútímans má best skilgrina með grafi en ekki bara beinni línu.
Þar væri lárétti ásinn frá vinstri til hægri með Kommúnisma lengst til vinstri og Frjálshyggju lengst til hægri.
Á lóðrétta ásinum er svo Fasismi efst uppi og Anarkismi lengst niðri.

Því þykir mér skammarlegt og sorglegt að fólk skuli láta svo heimskulega hluti út úr sér að líkja kommúnisma við nasisma, en það virðist samt vera vinsæl rangfærsla hjá hægrisinnuðu fólki til þess gerð að grafa undir öllu sem vinsælt er að tengja við og kalla kommúnisma eins og sósíalisma og jafnvel miðjustefnur eins og Samfylkingarinnar.

XDKYNSLODIN
Annað sem hefur komið upp hér á Huga nýlega eru skrif einhvers sem kallar sig xDkynslodin, þar sem hann gengur vel yfir öll velsæmismörk í rakki sínu á vinstri mönnum og alhæfir að þeir séu allir lygarar, svikarar og ógeð.
Nú má meira en vel vera að þetta sé bara svona rugludallur sem er að reyna að æsa sem flesta upp til að rífast við sig (“Troll”), hann hljómar allavegana þannig.
En það sem verra er, er að það er hér fólk sem les þessi skrif hans og hrósar honum og tekur undir þau, og sýnir þannig að fólk er tilbúið að hlusta á hvað sem er í þessum efnum.
Nú er misjafn sauður í hverjum flokki og ef þessi ungi piltur er að segja satt um sína reynslu af vinstrisinnuðum stjórnmálamönnum, þá er það að sjálfsögðu leiðinlegt að heyra. Hinsvegar eru margir þannig menn í öðrum flokkum og er t.d. með ólíkindum hvað mörg hneykslismál hafa borið upp upp á síðastliðin ár í flokki Sjálfstæðisflokksins, má þar efstan nefna Árna vin okkar Johnsen.
Spilltir og vondir og undirförlir geta leynst allstaðar eins og sjá má best á því að kaþólskir prestar sem eiga að vera að boða kærleiksboðorðið hafa um allan heim verið að misnota börn í skugga embætisins.
Að sjálfsögðu verða vinstri flokkar, (eða hægri, eða miðju) líka fyrir því að illgjarnt fólk smygli sér á toppinn með aðeins eigin hagsmuni í huga.
Nefni þar Stalín sem besta dæmi mannkynssögunnar um það.

ER KOMMÚNISMI VONDUR ?
Síðast en ekki síst langar mig að gráta aðeins yfir því að það virðist vera orðin lenska að nota orðið kommúnisti sem skammyrði, bögg, eitthvað ljótt og að fólk er orðið svo vitlaust að það fer í endalausa vörn og vill ekki vera kallaður kommúnisti.
Reyndar er það svo gjörsamlega ofnotað að það hálfa væri nóg, það er eins og Hægri menn sjái aldrei neitt annað en sig og sína og svo eru ALLIR aðrir kommar,
Nú verð ég að segja að ég skil ekki samt ekki hvernig hægt er að taka því sem mógðun að vera kallaður kommi. Allavegana ekki ef maður veit út á hvað það gengur og þekkir eitthvað til.
Alvöru kommúnismi segir að ALLIR eigi að vera jafnir. Hann spratt upp frá því að á síðustu öld og í byrjun þessarar aldar var rosalegt misrétti um alla Evrópu, örfáir aðalsmenn áttu og stjórnuðu öllu og milljónir voru nánast þrælar hinna ríku. Svona er þetta enn í mörgum löndum. Kommúnismi er hugsjón sem segir að það sé ósangjarnt að sumir séu heppnari en aðrir. Við ráðum ekki hvar við fæðumst og því ert hart að örfáir geti baðað sig í kampavíni og kavíar á meðan aðrir læra ekki einu sinni að lesa vegna þess að þeir þurfa að byrja að vinna í kolanámunni 5 ára. Sömuleiðis lítur kommúnisminn svo á að öll störf í samfélaginu séu jafn mikilvæg, allt eru þetta bara púsl í einu stóru efnahagskerfi og kolanámumaðurinn er jafn ómissandi og bankastjórinn og eiga því skilið sömu réttindi og tekjur.
Ég ætla ekki að rökræða hér um hvort þessi hugsjón gangi upp – það er efni í annan pistil.
En ég hlýt að spyrja : Hvað er svona slæmt við þetta ? Er þetta virkilega móðgun ?
Í mínum huga þá er þetta mikið frekar hrós, því þessi hugsjón sýnir meiri manngæsku og sanngirni en flestar aðrar hugsjónir.

AÐ LOKUM…
Að lokum langar mig að segja aðeins frá eina kommúnistanum sem ég hef nokkurntíman þekkt. Það var hann afi minn. Hann fæddist inn í ríka kaupmannsfjölskyldu. Pabbi hans var lengi vel í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og móðir hans var fínasta frúin í bænum. Bræður hans gengu allir sama veg og faðirinn og voru í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, stofnuðu fyrirtæki og græddu fullt af peningum. Afi hinsvegar fór ungur að vinna í verkastörfum og komst að því að ýmsu var misskipt í þessu samfélagi okkar. Hann varð mjög róttækur vinstri maður og fór meðal annars í háskólanám til Rússlands þar sem hann gerðist heiðursmeðlimur í Rússneska Kommúnistaflokkinum.
Meðan vinir hans úr háskólanum dreifðust um allan heim, t.d. fór einn að taka þátt í byltingu í Suður-Ameríku og lét þar lífið, kom afi aftur heim til Íslands og vildi gera eitthvað róttækt hér. Verandi friðarsinni þá kom bylting auðvitað ekki til greina, en hann hóf afskipti af pólítík með Alþýðubandalaginu og var í þeim málum alla sína ævi. Hann sat lengi í bæjarstjórn en meirihluta ævinnar vann hann að verkalýðsstörfum og var t.d. formaður eins Verkalýðsfélags í ein 20 ár eða svo.
Allan þann tíma sem hann vann fyrir þetta verkalýðsfélag þáði hann ekki krónu í laun.
Hann kom af stað miklum breytngum og hann var t.d. einn af þeim verkalýðsforingjum sem náðu að koma á lögum um hámarksvinnutíma, frí á sunnudögum, lögbundin sumarfrí og fleira sem við í dag teljum ekkert nema sjálfsögð mannréttindi.
Án þessara kommúnísku hugsanna fengju fyrirtækjaeigendur víst að níðast á verkamönnunum endalaust – en við sjáum það ekki því við erum svo vön því að hafa það gott.
Afi var alvöru kommi – eins og ég sagði áðan þá þáði hann ekki laun fyrir vinnu sína, hann var líka eindregið á móti auðævasöfnun að hverju tagi. Það var t.d. alltaf erfitt að finna handa honum jólagjafir, því hann vildi ekkert eiga. Bækur las hann mikið, en fannst rugl að eiga þær, bókasafnið hafði þær allar. Hann hjálpaði alltaf þeim sem þurftu hjálp, og oft gisti fólk heima hjá þeim ömmu sem minna máttu sín og hann gerði það sem hann gat til að koma undir þannig fólki fótinn.
Hann var mjög virtur í hinum Íslenska pólítíska heimi, því þó hann gæti verið þver og skapmikill þá var hann heiðarlegur, góður og samkvæmur sjálfum sér, en það gerði það að verkum að meira að segja heitrammir andstæðingar hans (sumir hverjir frægir) virtu hann mikils og tóku mark á orðum hans, oft fram yfir sinna eigin flokksbræðra.
Þegar hann dó var hann jarðaður með rauðum fána frá ASÍ yfir kistunni og kirkjan var stútfull af allavegana fólki, bæði vinstra og hægra fólki.

Ég veit að hann væri örugglega ekki sáttur við mig og mína miðjustefnu-tilhneyingu.
Ég safna tölvuleikjum og DVD myndum og bókum og á risa sjónvarp og margar tölvur og ég á eigið fyrirtæki sem ég vonast til að geta kanski grætt á einhverntímann, og er ég er t.d. hlynt frjálsri sölu á áfengi.
Ekki sannur kommúnisti þar… (þó að ég sé reyndar rétt hjá Gandhi á pólítískakvarðanum – takið endilega prófið : http://www.politicalcompass.org/)

EN ég sé ekki eftir einni einustu krónu sem ég hef þurft að borga í hátekjuskatt upp á síðastliðin ár !
Ég veit að það þarf að borga skatta til að halda uppi velferðarkerfinu og ég vill að það sé gott og öflug og að allir geti notað það ekki bara launahátt fólk eins og ég.
Fyrir utan að ég þarf ekki einu sinni að vera svona göfug í hugsunum mínum, því ef ég hugsaði bara um mig og hvað er mér fyrir bestu í dag þá vildi ég kanski öðruvísi kerfi, en ég er ekki það vitlaus að halda að allir dagar verði eins og í dag. Ég gæti orðið fyrir bíl á morgun og lamast….. hvar væri ég þá stödd ef ekkert væri velferðarkerfið ?
Og einn góðan veðurdag verð ég gömul og veik…. Og einn góðan veðurdag vaxa börnin mín úr grasi og fara í skóla og flytja að heiman. Þá þykir mér betra að það sé gott og öflugt velferðarkerfi sem gerir okkur öllum kleift að lifa mannsæmandi lífi, sama hvaðan við komum og hvernig við erum.
Sennilega er ég samt bara venjuleg miðjumanneskja eins og Samfylkingarfólk.

En ef einhver myndi kalla mig komma þá yrði ég bara ánægð – ekki slæmt að láta líkja sér við fólkið sem er tilbúið að vera ekki ríkt, til þess að enginn þurfi nú að vera fátækur !