….eða það gæti alveg eins verið það, þar sem þessu var haldið leyndu fyrir þér ef þú varst eins og ég og kemur frá svipuðum stað og ég. En nú skal ég ljóstra upp leyndarmálinu!

Ég var einu sinni vinstrimaður, æ, verð ég ekki bara að viðurkenna það, næstum fucking kommi barasta. Það var ekki bara mér að kenna, ég var alinn upp í þessum fucking kommúnisma.

En svo sá ég hvað sumir stjórnmálamenn á vinstrivængnum sem ég hafði þekkt frá unga aldri voru vont fólk. Ég fór að efast. Meintu þessir hræsnarar ekki orð sem þeir sögðu. Þetta hérna er eitt af því fyrsta sem ég las um Sjálfstæðisflokkinn, en þar til ég las svona hluti hélt ég að Sjálfstæðisflokkurinn væri vondur flokkur.

Ég sé hins vegar að ég hélt það af vanþekkingu. Ég hélt ég hefði alist upp á upplýstu heimili, nóg af samræðum var um pólítík og foreldrar mínir þekktu vinstriráðherra og þannig pakk (Ég komst að því seinna að þeir voru sumir drullusokkar).

Ég hélt ég ætti upplýsta kunningja sem væru gáfaðir og hefðu vit á stjórnmálum, en í sannleika sagt var flest af þessu fólki heilaþvegið á sinn hátt, var bara vinstrimaður afþví það var meira töff og upppreisnargjarnara fannst þeim, þó þau væru flest af vinstriheimilum eins og ég, svona dót sem gekk í CheGuevara bolum og þannig bullshit. Flest af þessu fólki vissi ekki mikið um hægri stjórnmál.

Trúirðu bara orðum annara eins og ég gerði? Heldurðu ranglega að þú sérst upplýst manneksja eins og ég gerði? Þá bið ég þig að lesa þessi orð um Sjálfstæðisflokkinn og sjá hvort þau koma þér ekki á óvart. Ekki vera fáfróður og fljóta bara með straumnum! Heldur gerðu þér sjálfum þann greiða að lesa þau orð flokksins sem hvað best lýsa honum, orðin sem margir sem eru á móti honum hafa aldrei lesið og vilja ekki lesa því þeir elska fáfræðina og CheGuevara bolina sína. En ekki þú vera í þeim hópi fáfróðra, þú ert yfir það hafin(n), heldur lestu og njóttu:


“Sjálfstæðisstefnan
Sjálfstæðisflokkurin n hefur allan sinn aldur verið sterkt og þróttmikið þjóðfélagsafl á Íslandi, þótt aðstaða hans til að koma fram hugmyndum sínum og stefnumálum hafi verið misjöfn. Sterka stöðu flokksins með þjóðinni má að sjálfsögðu rekja til stefnu hans og hugsjóna flokksmanna fyrr eða síðar. Vegna sjálfstæðisstefnunnar hafa fleiri Íslendingar dregist að Sjálfstæðisflokknum en nokkurri annarri stjórnmálahreyfingu á Íslandi.

SAMEINAST UM SJÁLFSTÆÐISSTEFNU
Sjálfstæðisflokkurinn verður til þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn eru sameinaðir árið 1929. Þessir flokkar voru ekki gamlir og fastmótaðir og margt líkt með þeim. Þó má segja að til hins nýja Sjálfstæðisflokks hafi annars vegar runnið öfl sem vildu koma ríkisfjármálum á traustan grunn, m.a. með varfærinni fjármálastjórn, sem ekki tæki úr hófi fram fyrir hendur hvers einstaklings. Engu að síður vildu þessir aðilar beita sér fyrir umbótum í þessu hrjóstruga landi og leysa landkosti þess úr læðingi með rafvæðingu sveita og ýmsum öðrum verklegum framförum. Á hinn bóginn kom blóðgjöfin til þessa nýja flokks frá mönnum sem lögðu ekki síst áherslu á frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðernisvitund manna en ekki síður á frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna. Á stefnuskrá þeirra var jafnframt að tryggja afkomu þeirra, sem áttu undir högg að sækja í lífinu. Auðvitað voru skilin ekki hrein og glögg milli þessara framsæknu afla sem þá bundust böndum, en mismikill þungi var lagður á baráttumálin. En víst er að þær hugsjónir sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í sína vöggugjöf hafa dugað honum vel. Þær speglast skýrt í hinni knöppu og kjarnyrtu stefnu flokksins, sem enn er oft vitnað til. Annars vegar var því lýst yfir, að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt, þegar skilyrði væru til þess skv. sambandslögunum. Hins vegar sagði, í stefnuyfirlýsingunni frá 1929, að flokkurinn ætlaði: „Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

„SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR“ SKAL HANN HEITA
Þegar litið er til framangreindra stefnumiða og hugsjóna þeirra manna, sem nú höfðu sameinast í einum flokki er ljóst að menn hafa ekki lengi þurft að leita viðeigandi nafns fyrir hann. Annars vegar stefnir hann að fullu sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart öðrum eins fljótt og frekast var kostur og hins vegar er gert ráð fyrir að meginstefið í innanlandsstefnunni verði bundið við hlut einstaklingsins. Tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl, þótt hann hitti fyrir sér ofjarl í sjúkdómum eða fátækt. Slíkum aðilum á að hjálpa til sjálfshjálpar og er það í anda þess hugarfars samhjálpar, sem verið hefur samofið þjóðareðlinu frá öndverðu. Nafnið Sjálfstæðisflokkur hefur því ekki aðeins verið yfirskrift heldur alla tíð í senn heitstrenging og lýsing á stefnu flokksins í hnotskurn.

SJÁLFSTÆÐISSTEFNAN OG AÐRAR STJÓRNMÁLAKENNINGAR
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir flokkar, sem til voru í íslensku stjórnmálalífi á stofnári Sjálfstæðisflokksins, sóttu allir að meira eða minna leyti hugsjónir sínar og baráttumál til „móðurflokka“ eða stjórnmálakenninga erlendis. Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr í þessu. Tildrög hans og skírskotun til séríslenskra aðstæðna verða til þess, að hann fær óvenjulegan sess í íslensku flokkakerfi. Hann vísar á bug þeim tilburðum sem aðrir flokkar hafa haft til þess að greina þjóðina í stéttir, sem ota megi hverri gegn annarri. Félagshyggjuflokkarnir hafa jafnan haft uppi vígorð um hina eilífu stéttabaráttu, en svar Sjálfstæðisflokksins fékkst í kjörorðinu: „Stétt með stétt“. Honum var ljóst, að fámennri þjóð gat ekki verið til góðs, að stéttirnar bárust á banaspjótum.

Auðvitað er sitthvað í stefnu flokksins eins og í afstöðu hans til dægurmála á ýmsum tímum, sem átt hefur samnefnara í erlendum flokkum, og einstakar heimspeki- og stjórnmálakenningar hafa brugðið sínum blæ á stefnu hans. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið gæfu til þess að skapa sér sinn eigin farveg og sérstöðu. Þess vegna finnst spegilmynd hans hvergi í nálægum löndum. Flokkurinn gat því betur lagað sig að þeim breytingum, sem hið unga fullveldi og síðar lýðveldi tók. Þurfti hann ekki að setja stefnu sína sífellt undir mælistiku alþjóðlegrar stjórnmálastefnu. Má í þessu sambandi vitna til orða Birgis Kjaran hagfræðings, sem sagði: „Sjálfstæðisflokkurinn er hreinræktað íslenskt fyrirbæri, sprottinn úr íslenskum jarðvegi, skapaður af íslenskri hugsun, til orðinn vegna íslenskra nauðsynja og mótaður af íslenskum aðstæðum.“

SJÁLFSTÆÐISSTEFNAN OG NOKKUR LYKILHUGTÖK
Afstaða Sjálfstæðisflokksins til nokkurra lykilhugtaka þjóðmálabaráttunnar varpar ljósi á stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur. Hann setur traust sitt og trú á sérhvern borgara lýðveldisins í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram. Stefna flokksins miðast við það, að menn fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig alla fram. Þessi trú á manninn markar einnig ríkinu sinn bás.

Lýðræði
Mörgum finnst sjálfsagt æði þunnur þrettándi að halda því á lofti, að lýðræði sé í efstu röð boðorða eins stjórnmálaflokks. Þeir spyrja, hvort ekki sé jafnnauðsynlegt að taka fram, að flokkurinn sé hlynntur dagsbirtunni. Eða þykjast ekki allir stjórnmálaflokkar, sem því nafni ná hér á landi, eiga jafnríkulegt tilkall til lýðræðishugsjónarinnar? Það er von að spurt sé. Því það er mála sannast, að skoði menn orðagjálfrið eitt og sér, þá ber ekki á öðru en að allir flokkar séu haldnir sannri lýðræðisást. En þar sem gjálfrinu lýkur, blasir annað við. Stefna félagshyggjuflokkanna, sem svo kalla sig, felur í sér hvern leynistíginn af öðrum úr braut lýðfrelsis og lýðræðis þegar vel er að gáð. Vissulega eru stígar þessir misbrattir og sumir æði krókóttir, en afleiðingar þess að fylgja þeim á enda eru ætíð hinar sömu. Frelsi, frumkvæði og þróttur fjara út og þegar lengst er komið verður spennitreyjan hinn raunverulegi þjóðbúningur. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til einstakra álitaefna og ýmis baráttumál flokksins fyrr og síðar sýna, að lýðræði er honum meira en til skrauts og skrafs. Nefna má mörg og mikil dæmi þessa.

Flokkurinn hefur þannig ætíð sýnt, að hann telur Íslendingum skylt að leggja nokkuð af mörkum til að tryggja eigið öryggi og um leið til að treysta varnir þess heimshluta, sem býr við lýðræði í heiminum. Fyrir honum er lýðræðið þess virði að varið sé. Þess vegna hefur enginn flokkur barist einarðlegar fyrir þátttöku þjóðarinnar í vestrænu samstarfi en Sjálfstæðisflokkurinn. Þessi mál, sem varða fjöregg íslensku þjóðarinnar hafa verið átakamál um langan aldur. Þau átök hafa leitt í ljós, að þegar í harðbakka slær, er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn, sem ekki er tilbúinn til að fórna þessum mikilvægu hagsmunum í pólitísku spili líðandi stundar.

Í innanlandsmálum hefur flokkurinn sett kosningajafnrétti landsmanna á oddinn hvað eftir annað. Þar átti hann löngum undir högg þeirra að sækja, sem nutu valda í krafti misréttarins, nærðust á honum og létu ekki sinn hlut í neinu fyrr en þeir máttu. Flokkurinn er fylgjandi valddreifingu í þjóðfélaginu og hefur fylgt því máli eftir. En fyrst og síðast segir sjálfstæðisstefnan okkur, að efnahagslegt frelsi einstaklinganna sé ein höfuðforsenda lýðræðisins og reyndar í sömu andrá mannsæmandi lífs nútíma þjóðar. Fram hjá því verður ekki litið, að það er pólitísk tvöfeldni að vinna að því öllum árum að auka hlut ríkisvaldsins á kostnað einstaklingsins og athafnafrelsis hans svo sem kostur er, en segjast á hinn bóginn vilja veg lýðfrelsis sem mestan. Öll rök og margvísleg reynsla hefur kennt mönnum, að færist efnahagslífið allt á eina hönd, hverfur lýðfrelsið von bráðar. Hvað þessi atriði snertir bera aðrir íslenskir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn kápuna á báðum öxlum, þótt leið þeirra til ánauðar miðstýringarinnar sé misjafnlega hraðskreið og opinskátt boðuð.

Frjáls einstaklingur – frjálst atvinnulíf
Stundum er haft á orði, að Íslendingum sé einstaklingshyggjan runnin í merg og bein. Slík kenning verður aldrei mæld né staðreynd þannig að vit sé í, en þarf þó ekki að vera algjörlega út í hött. Svo mikið er víst, að þeir menn, sem hingað komu fyrstir, vildu töluvert á sig leggja til að mega vera sjálfs sín herrar. Þessum pólitísku flóttamönnum var keppikefli, að þeirra ríki gæfi þegnum sínum ríkulegt sjálfdæmi og lögðu þeir stjórnskipunina m.a. eftir því. Var hún athyglisverð um margt, þótt á daginn kæmi, að m.a. skortur á ríkisvaldi varð þessu sérstæða þjóðskipulagi að fjörtjóni. En hitt vill gleymast, að einmitt þessir sjálfstæðu höfðingjar bundust samþykktum um að bæta skyldi mönnum tilteknar ófarir og erfiðleika. Slík viðlagatrygging miðaði að því að hjálpa mönnum til að koma fótum undir sig á nýjan leik og tryggja, að þeir færu ekki á vonarvöl. Hún var ekki þá, fremur en nú, ósamrýmanleg frelsi einstaklinganna, heldur nánast ein forsenda þess. Sjálfstæðisstefnan var í upphafi reist á grundvelli einstaklingsfrelsisins. Frá þeim grunni hefur stefnan aldrei vikið, þótt vissulega hafi á ýmsu gengið um framkvæmd hennar. Svigrúm einstaklinganna og ekki síst atvinnufrelsi þeirra hefur verið í þungamiðju pólitískra átaka hér á landi, allt frá því að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu lauk.

Staða og hlutverk Sjálfstæðisflokksins í þessum átökum hafa verið ljós. Hans var að standa vörð um rétt einstaklinganna og berjast fyrir auknu sjálfræði þeirra og efldum áhrifum í atvinnulífinu. Á fyrstu árum flokksins miðaði hægt í þessum efnum, enda var afl flokksins miklu minna en það atfylgi, sem hann hafði með þjóðinni. Framhjá því verður heldur ekki litið, að í samstarfi við aðra, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki ætíð náð því fram sem skyldi, og stundum ef til vill ekki fylgt baráttumálum sínum nægilega fast eftir. En hitt stendur eftir, að hann einn flokka hér á landi byggir grundvöll sinn og tilveru á þessum hugsjónum. Talsmenn flokksins hafa haldið því fram, að sá vinningur, sem athafnasamur einstaklingur geti haft af útsjónarsemi, atorku og framtaki, sé óviðjafnanlegur hvati fyrir allt atvinnulífið. Þessi orka sé óþrjótandi. Hana megi og eigi að beisla, en aldrei festa í fjötra. Þessu hafna ríkisforsjármenn og skipulagshyggjumenn, hver með sínu orðalaginu. Til skamms tíma reyndu þeir að benda á og tína til þá annmarka, sem því fylgdu að leyfa frjálsu efnahagskerfi að þrífast. Á hinn bóginn vitnuðu þeir um þær fyrirmyndir draumaríkis félagshyggjunnar, þar sem jákvæð markmið væru sett af fulltrúum fólksins og þeim síðan fylgt fram af ríkisvaldinu. Og víst er um það, að „lausnir“ þeirra bægja burtu sumu af því sem mönnum þykir miður fara þar sem markaðsbúskapurinn er hömlulítill. En hitt hefur margsannast, að sú lækning öll er miklu meiri áþján en „sjúkdómurinn“ sjálfur.

Sósíalisminn og ríkisbúskaparstefna hefur verið reynd af ýmsum þjóðum, sem flestar hafa reyndar tekið nauðugar þátt í þeim leik. Ranghverfa þess, sem að var stefnt, blasir hvarvetna við. Atvinnulífið hefur staðnað fljótt og framfarir og framþróun eru hægari en annars staðar gerist. Athygli hefur vakið, að launamismunur vex og forréttindi einstakra stétta gerast. Athyglisvert er einnig, að skipulagshyggja verður álappalegust þar sem kostir hennar áttu helst að njóta sín. Það hljómar ekki óglæsilega að menn finni fyrst nákvæmlega út með kerfisbundnum hætti hverjar séu hinar réttmætu og eðlilegu þarfir fólksins í landinu og framleiði síðan samkvæmt því. En reynslan af þessu fyrirkomulagi er harla bágborin. Framleiðslan hittir alls ekki fyrir þá, sem hennar eiga að njóta. Sú líftaug, sem verður að vera á milli framleiðslu og neyslu hefur rofnað, svo hvorugt nemur boð hins.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur í stefnu sinni út frá því, að famleiðandinn og neytandinn geti ekki án hvor annars verið. Hvor um sig sé til fyrir hinn. Framleiðslan geti ekki numið breytilegar óskir neytandans nema að fleiri en einn framleiðandi keppi um hylli hans. Af keppni þeirra um að gera neytandanum til hæfis um verð og gæði leiði óhjákvæmilega framþróun og sköpun. Ríkisrekstrarformið og skipulagshyggjan eru miklu ósveigjanlegri og þyngri í vöfum. Þau nema illa óskir neytendanna og hafa litla eða enga hvatningu til aðlaga sig að óskum þeirra.

Hlutverk ríkisins
En hvert er hlutverk ríkisins í því þjóðskipulagi sem sjálfstæðisstefnan vill móta? Geta menn án ríkisins verið og látið almennar samskiptareglur frjálsra einstaklinga og athafnalífs koma í stað þess. Nei. Traust ríkisvald er nauðsynlegt, en verksvið þess á að takmarka. Ríkisvaldið hlýtur að halda uppi allsherjarstjórn og lögum í landinu. Það kemur fram fyrir hönd íbúanna út á við og gætir hagsmuna þeirra gagnvart öðrum þjóðum. Það sinnir ýmsum sameiginlegum þörfum, sem einstaklingar geta ekki sinnt eða láta undir höfuð leggjast að sinna. En afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu eiga þó umfram allt að vera takmörkuð og heyra til undantekninga. Þó verður ekki fram hjá því gengið í einstaka tilvikum. Þannig er eðlilegt, að hið opinbera hafi með höndum rekstur, sem samkvæmt eðli sínu leiðir til einokunar. Þarna er þó margt takmarka tilvikið, sem huga þarf nákvæmlega að. Eins kemur til greina, að ríkisvaldið komi til skjalanna þar sem bolmagn einstaklinganna til framkvæmda og reksturs er ekki nægjanlegt eitt sér vegna stærðar verkefnisins. Þessi tvö skilyrði fara reyndar iðulega saman.

Það er í samræmi við jafnréttishugsjón sjálfstæðisstefnunnar, sem er forsenda kjörorðsins um „stétt með stétt“, að byggja á því, að öllum Íslendingum sé tryggður jafn réttur til menntunar og starfa og skilyrði til að þroska og fá notið hæfileika sinna. Ríkisvaldið getur verið tæki til þess að tryggja slíkt jafnrétti. En sjálfstæðisstefnan hafnar því, að sérstakt keppikefli sé að jafna svo hag manna með valdboði, að engu skipti hvort einstaklingurinn leggi meira á sig eða minna og einskis sé metið, að hann efli hæfileika sína sjálfum sér og þar með öðrum til vinnings. Sagan sýnir, að þegar saman fer jafnrétti manna og umbun til þeirra, sem fá notið hæfileika sinna og atorku, þá miðar þjóðfélaginu sem heild hraðast fram á veg. Það afl, sem í þessu tvennu felst, skilar öllum nokkru en jafnaðarstefnan ein dregur þrótt úr þjóðunum. Hún jafnar með því að draga alla niður.

Ríkisafskiptaflokkar og ríkisforsjármenn gleyma einatt þeim sannindum, að ríkið lifir ekki sjálfstæðu lífi. Það er til fyrir fólkið og vegna fólksins, en ekki hið gagnstæða. Lýðræðið var í öndverðu stefna, sem takmarka átti ríkisvaldið. Ná skyldi valdinu frá valdhöfum, hvort sem það voru kóngar eða keisarar, höldar eða hertogar, og koma því til fólksins. Það skýtur því skökku við, þegar svo er komið, að lýðræðislega kjörin stjórnvöld hafa jafnvel enn frekar ráð þegnanna í hendi sér, en einvaldarnir forðum. Þess vegna leggur sjálfstæðisstefnan áherslu á, að sjálfstæðisbaráttan getur aldrei tekið enda.

Lýðræði og lýðfrelsi er ekki tryggt, vegna þess að þingkosningar og sveitarstjórnarkosningar fara fram fjórða hvert ár. Ef t.d. þessar stofnanir fólksins, þing og sveitarstjórn, gleyma hvaðan vald þeirra er runnið og fara að haga sér eins og opinberar stofnanir hafi sjálfstæðar þarfir, þá þarf nýtt átak í lýðfrelsisbaráttunni. Frelsi verður aldrei tryggt í eitt skipti fyrir öll.

SJÁLFSTÆÐISSTEFNAN OG VERULEIKINN
Hugarleikfimi er mikil íþrótt, og kannski mest þeirra. Þar hefur margur farið á kostum. Til eru í bókum vitnisburðir um mikil afrek í greininni, ekki síst í gerð fyrirmyndarríkja. Í þeim ríkjum er tilveru manna einatt skipað í samfellt kerfi, þar sem allt gengur upp, svo að varla sést hnökri. Þegar best gegnir, víkur óréttlæti fyrir réttlæti, misrétti fyrir jafnrétti, og ójöfnuður fyrir jöfnuði. Þannig verða allar ófyrirséðar mannlífsuppákomur fyrir bý. Allt virðist því harla gott. Og það er ekki fimleikamönnunum að kenna, þótt jafnan hafi komið á daginn, þegar átti að herða, að mannlífinu verður hvorki með góðu eða illu sniðið eitt allsherjar staðfest aðalskipulag, sem ekki þurfi að breyta upp frá því. Þrátt fyrir þessi sannindi lifa margir enn pólitísku trúarlífi um teikniborðsparadís á jörð.

Sjálfstæðisstefnan er ekki nákvæm forskrift að fullkomnu ríki. Hún er ekki annað en leiðbeining um nokkur mikilvæg atriði, sem fylgjendur hennar telja nauðsynlegt að taka mið af, vilji menn tryggja frelsi og framþróun þjóðarinnar á breytilegum tímum. Sjálfstæðisstefnan hefur þannig aldrei orðið að fullmótaðri hugmyndafræði heldur eru sjálfstæðismenn í sífelldri leit að nýjum hugmyndum til að laga þjóðfélagið að breyttum aðstæðum.

Það sem öðru fremur einkennir skoðanir sjálfstæðisfólks er trú á frelsi einstaklingsins samfara ábyrgð á eigin gerðum, umburðarlyndi gagnvart mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum, áhersla á sameiginlega hagsmuni ólíkra þjóðfélagshópa og efasemdir um að ríkisvaldið geti leyst öll vandamál. Stefna flokksins miðast við það að einstaklingarnir fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig alla fram. Sjálfstæðismenn verða aldrei ,,sérfræðingar“ í að skipta gæðunum á milli einstaklinganna enda leiðir slíkt oftast til aukins óréttlætis í þjóðfélaginu. Sjálfstæðismenn leggja mesta áherslu á að auka það sem til skiptanna er því þannig eru sameiginlegir hagsmunir allra best tryggðir, ekki síst þeirra sem á aðstoð þurfa að halda frá samferðamönnum sínum.

En hvernig hafa kenningar sjálfstæðisstefnunnar reynst, þegar til kastanna kom? Þessu má svara á marga lund. Einfaldast virðist að benda á, að þessi stefna hefur átt meira fylgi með þjóðinni en nokkur ein stjórnmálastefna önnur frá stofnun flokksins. Það segir vissulega nokkra sögu, en þá alls ekki hana alla. Hitt er gleggri vitnisburður og varðar meiru að vekja athygli á, að framfarir hafa verið örar og markvissar hér á landi, þegar sjálfstæðisstefnan hefur mátt sín mest. Sjálfstæðisstefnan hefur þróast í nærri sjötíu ár og sú saga sýnir, að hún hefur dugað þjóðinni best, þegar tekist er á við mikilvæg og viðkvæm úrlausnarefni heima fyrir og gagvart öðrum þjóðum.

Stundum er spurt hverra manna Sjálfstæðisflokkurinn sé. Svarið fæst með vísun til orðanna „stétt með stétt“, sem lýsa betur en langt mál, hvert flokkurinn vill sækja fylgi sitt. Stefnuskrá flokksins, verk hans og ekki síst það fylgi sem hann hefur notið sýna glöggt að Sjálfstæðisflokkurinn einn hefur í reynd breytt eftir þessu kjörorði. Það er inntak sjálfstæðisstefnunnar, að í landinu sé ein þjóð, ekki aðeins í orði kveðnu, heldur í raun. Hún hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, þegar til lengri tíma er litið og framhjá dægurmálum líðandi stundar horft. Sjálfstæðisstefnan er umfram allt stefna markvissrar jákvæðrar þróunar til betri lífskjara og lífsfyllingar. Trúin á manninn er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar.

Stærstur hluti ritlings eftir Davíð Oddsson; útgefinn í Reykjavík 1981
auk viðbóta, t.d. úr öðru útgefnu efni um stefnu Sjálfstæðisflokkins ”


Flott ræða hjá Davíð ekki satt?
Og margt sem þú vissir ekki kannski ef þú ert eins og ég var.

Frelsið lifi!

xDkynslóðin!