Nú er vitað um 5886 tilfelli bráðalungnabólgu (HABL)í heiminum í 29 löndum og 391 hafa dáið. Á sama tíma og Vesturlönd virðast hafa hemil á farsóttinni, þá berast skuggalegar fréttir frá Asíu. Tólf einstaklingar í Hong Kong sem virtust hafa náð fullum bata veiktust aftur. Kóróna-vírusar breyta sér stöðugt og kannski smitaðist þetta fólk aftur af nýju afbrigði hans. Eða kannski var það meðferðin sem kom í veg fyrir að nógu kröftug mótstaða myndaðist gegn HABL myndaðist í líkamanum (fólki eru gefnir sterar til að veikja mótstöðu líkamans vegna þess að ónæmiskerfið bregst of hart við þessum vírusum og getur sjálft drepið fólk). Sú staðreynd að dánartíðnin er að hækka úr 4-6% í 10% í Bejing, Hong Kong og Singapúr bendir óneitanlega til þess að vírusinn sé að breyta sér til hins verra.
Það er ljóst að SARS hefur alveg farið úr böndunum í Kína og það er ekkert að marka tölur sem þaðan berast. Tugþúsundir manna hafa þegar flúið höfuðborgina og borið vírusinn í öll héruð landsins. Síðan hinir svokölluðu berfættu læknar hurfu fyrir um 20 árum þá hafa flestir Kínverjar óverulegan aðgang að læknisþjónustu og þeir standa berskjaldaðir fyrir SARS. Meira að segja í svæðum þar sem mið- og yfirstétt Kína býr, aðalega í nokkrum borgunum landsins, þá eru sjúkrarúm þegar á þrotum.
HABL er á mörkum þess að vaða yfir Kína. Ef vírusinn eyðir sér ekki sjálfur þá er varla hægt að ímynda sér hvernig ástandið verðurí landi þar sem yfir milljarður manna býr við frumstætt heilsukerfi. Ef mikill fjöldi veikist þá verður landið fljótlega einangrað (Kínamúrinn upprisinn), en hve auðvelt verður það verk?