Ég var að lesa Fréttablaðið í dag og rakst á litla grein sem sat í mér. Hún er eftir Sigurð nokkurn Sigurðarson. Ekki það að efni þessarar klausu hafi, svo sem, komið mér mikið á óvart, en hún olli mér hugarangri, engu að síður.
Sigurður segir frá því að sjöunda apríl, síðastliðinn, hafi Gunnar í Krossinum sagt á sjónvarpsstöðinni Omega að George Walker Bush væri ekki kjörinn af þjóð sinni (það má reyndar til sanns vegar færa), heldur væri hann kjörinn af Drottni “almáttugum” sjálfum sem sagður er eiga heima “á himnum”. Þess vegna sé hann, þ.e.a.s. Bush, hinn “drottins smurði” og þar af leiðandi ÓSKEIKULL! Stefán hefur jafnframt eftir Gunnari að því eigi að styðja ALLT sem sá “mæti” forseti gjörir í guðs heilaga nafni! Svo sagði hann víst: “Halleljúje!” upp á amerísku!
Það veldur mér hugarangri að Bush, valdamesta manni kringlunnar, skuli vera réttur slíkur óútfylltur, undirskrifaður tékki sem hann getur síðan innleyst að vild án nokkurra spurninga eða efasemda af hálfu útgefanda! Allir sem vilja þá staðreynd sjá, geta áttað sig á því að milljónir manna á Vesturlöndum eru sammála Gunnari í Krossinum og taka allt gott og gilt sem “hinn smurði” Bandaríkjaforseti tekur sér fyrir hendur, enda trúir þessi mannfjöldi því að allar gjörðir hans séu almættinu þóknanlegar. Þessi kristna bókstafstrú (lesist ofstækistrú) er í örum vexti á Vesturlöndum og ég spyr sjálfan mig: Af hverju?
Hefur það áður komið fyrir að æðsta manni fullvalda ríkis hafi verið réttur slíkur tékki á silfurfati? Já er það ekki? Adolf Hitler fékk slíkan tékka frá obbanum af sinni verðbólgu-þjökuðu þjóð á síðustu öld. Hann innleysti tékkann á eigin forsendum án nokkurra mótmæla frá útgefandanum með ólýsanlegum afleiðingum fyrir þjóðir heims. Hvað veldur þessari geðveiki?
Í mínum huga hringja viðvörunarbjöllur og ég tel heiminum stafa veruleg hætta þegar valdamiklum mönnum er fylgt í algjörri blindni! Ég hef jafnframt áhyggjur af því hversu fylgispök Íslenska ríkisstjórnin er þessum meinta “drottins smurða” valdamanni!
Ég las merkilega grein á vefnum, á dögunum, sem ég mæli með (athugið að það slæðist trúlega inn bil “ ” í slóðina. Það er víst vaninn hér á Huga vefnum):
http://www.dissidentvoice.org/Articles2/Har tmann_DemocracyFailed.htm
Svo virðist sem að ótrúlega margar hliðstæður megi finna í lífshlaupi þessara tveggja manna, þ.e.a.s. Hitler og Bush. Ég vona svo sannanlega að Bush verði ekki jafn skeinuhættur mannlífinu og hinn hræðilegi Hitler! Vonandi hefur mannkynið lært að losa sig við öfgafulla og hættulega valdhafa áður en í óefnið er komið!
Hvaða vit er í því að fólk, á grundvelli blindrar trúar, framsali á slíkan hátt öllum völdum til tiltekins þjóðarleiðtoga? Er gagnrýnin hugsun á undanhaldi og blind hlýðni í sókn? Vonandi ekki!