Mannréttindi og mannréttindabrot eru mikið í umræðunni þessa dagana. En hvað eiga menn við? Ýmsir hlutir hafa verið uppnefndir mannréttindi í gegnum dagana, en mig langar til að athuga hvað eru raunveruleg mannréttindi, og hver ákveður hver þau eru.

Ég ætla að leyfa mér að verða svolítið harðorður hér á eftir. Það skal tekið fram að höfundur ber litla virðingu fyrir nokkrum máttarvöldum, hvorki þjóðlegum, alþjóðlegum, né guðlegum. Höfundur biður lesendur að sýna þolinmæði því það sem fer hér á eftir gæti reitt ýmsa til reiði, en hafa ber í huga að mergurinn liggur í lokaorðunum. Höfundur leggur því til að menn lesi þessa grein til enda eða lesi hana alls ekki.


Ein best þekktasta skilgreining mannréttinda er mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna. Þetta eru um 30 atriði sem SÞ kalla mannréttindi og um 100 ríkisstjórnir skrifuðu undir árið 1948 (þar með taldir tugir einræðisríkja). Það sem er ekki eins þekkt er að þessi yfirlýsing er full af mótsögnum. Við skulum fara í gegnum hana snöggvast til að vinsa mannréttindin frá mótsögnunum. Það er ýmislegt sem kemur á óvart.

Endilega opnið yfirlýsinguna í öðrum glugga og lesið með:
http://www.un.org/Overview/rights.html

Fyrstu 3 greinar yfirlýsingarinnar leggja góðan grunn. Númer eitt að allir menn séu jafnir, frjálsir og hugsandi, númer tvö að allir séu jafnir aftur, og númer þrjú, sem eru líklega grunnurinn að öllum mannréttindum, að allir hafi rétt á lífi og frelsi. Þriðja grein inniheldur einnig “security of person” sem mannréttindi. Þá er ekki skilgreint hvort átt sé við rétt til að vernda eigin persónu, eða rétt til að vera verndaður af öðrum. Hinir liðirnir hér gefa í skyn að raunveruleg mannréttindi séu hið fyrra, en yfirlýsingin gefur í skyn neðar að í raun sé átt við hið síðarnefnda. Meira um það síðar.

Flestir geta verið sammála yfirlýsingunni í allflestu í greinum 4 til 13. Grein 14 virðist hafa meira að gera með pólítískan tilgang Sameinuðu þjóðanna en með raunveruleg mannréttindi. Greinar 15 til 21 eru e.t.v. nokkuð sjálfsagðar og má draga af öðrum greinum (sérstaklega þá greinum 1-3).

Í grein 22 byrja svo mótsagnirnar. Þar er talað um eitthvað sem heitir samfélagsöryggi (“social security”), sem og efnahagsleg réttindi, samfélagsleg réttindi, og menningarleg réttindi. Við fyrstu sýn er varla leið til að vita hvað átt er við með þessum hugtökum, en þetta er smjörþefurinn af því sem koma skal í næstu greinum.

Með “efnahagsleg réttindi”, eða “fjárhagsleg réttindi” virðist í raun vera átt við að allir hafi rétt á því að vera ekki fátækir. Þetta er mótsögn, vegna þess að þessi réttur er ekki tryggjanlegur nema með því að veita fólki fjárhagslega aðstoð. Sú aðstoð verður að koma einhversstaðar frá, og er þá verið að brjóta á grein 17 sem segir að allir hafi rétt á eignum og að engum skuli vera neitað að halda eignum sínum. Rétturinn til að vera ekki fátækur er þess vegna réttur til að ræna aðra af rétti sínum. Fjárhagsleg réttindi af þessu tagi gefa ríkisstjórnum þar með “rétt” til að brjóta mannréttindi með því að hneppa einstaklinginn í ánauð í þjónustu við samfélagið. Þetta brýtur aftur í bága við 4. grein yfirlýsingarinnar.

Það er að sjálfsögðu æskilegt að enginn sé fátækur, en það geta ekki verið réttindi á meðan einstaklingurinn er frjáls. Það ber að gera greinarmun á því sem er æskilegt og því sem eru réttindi. Það er munur á því sem við viljum að allir menn hafi og því sem þeir hafa rétt á. Það er alls ekki það sama.

Þessi hugsjón um þjónustu einstaklingsins við heildina er síðan endurspegluð í 29. grein: “Everyone has duties to the community in which alone the free and full development of his personality is possible.” Hvernig eru þetta réttindi? Þetta hljómar frekar eins og kvaðir.

En þetta hljómar líka kunnuglega. Adolf Hitler sagði einmitt svipaða (en sterkar orðaða) hluti um nasismann (á ensku til að auðvelda samanburð): “This state of mind, which subordinates the interests of the ego to the conservation of the community, is really the first premise for every truly human culture.”

Þetta er í raun alger andstæða hugtaksins um frelsi einstaklingsins, en það er einmitt það frelsi sem öll mannréttindi eru byggð á. Meira um þau rök síðar.

Svipuð “mannréttindi” eru ítrekuð í 23. grein mannréttindayfirlýsingarinnar. Þar er talað um að allir hafi rétt á hagstæðum atvinnuskilyrðum og rétt á vernd gegn atvinnuleysi. Hérna er aftur verið að rugla saman því sem er æskilegt við það sem eru réttindi. Þessi grein hyggst gefa mönnum þau réttindi að fá tryggingu gegn atvinnuleysi. Það kallast atvinnuleysisbætur á Íslandi. Að sjálfsögðu þykir mörgum það æskilegt að menn hafi atvinnu, en það eru varla réttindi, því aftur þarf að fá peningana fyrir slíkri tryggingu einhversstaðar frá. Það stangast þannig á við greinar 17 og 4 (og greinar 1-3, ef við viljum ganga það langt) og brýtur þannig á öðrum mannréttindum.

Það sem meira er, í 4. málsgrein 23. greinar er sagt að allir hafi rétt á að ganga í verkalýðsfélag. Merkilegt nokk, ef maðurinn er frjáls, hvers vegna ætti hann ekki að geta gengið í hvaða félag sem honum sýnist? Til hvers að nefna þetta sérstaklega? Ég skal leyfa hægri sinnuðum lesendum að draga þá ályktun að þetta sé til að upphefja sósíalisma. En ég ætla að leyfa mér að draga ekki þá ályktun sjálfur.

Það mætti þá kannski segja að menn hafi alveg glatað sér í sósíalismanum þegar þeir skrifuðu grein 24. Þar segir að allir hafi rétt á hvíld og frítíma, og að það séu mannréttindi að vinnutíma séu settar skorður og að menn eigi frídaga á launum. Eflaust hugsa margir með sér “hvað er að því?” Jú, það sem er að því er að hér er aftur verið að rugla saman því sem menn vilja og því sem þeir hafa rétt á. Það er semsagt verið að festa í sessi fyrirhyggjusemina og kalla það réttindi. Í fyrsta lagi er þessi grein steingeld. Það er ekki sagt hversu miklum frítíma menn eiga rétt á. Þannig geta einræðisstjórnir lögboðið einn dag á ári í frí handa öllum og ekki meira, og borið fyrir sig að þeir séu að virða mannréttindi þrátt fyrir að vera að hneppa alla þjóðina í þrældóm.

Ef við umorðum grein 24 þá er verið að segja: “allir hafa rétt á að hirða peninga af öðrum fyrir vinnu sem ekki er unnin”. Við getum líka umorðað þetta á þennan veg: “allir hafa rétt til að lækka markaðslaun annarra með því að borga með sér í vinnu”, því hvaðan koma annars peningarnir fyrir launuðu fríi? Að sjálfsögðu frá launþeganum sjálfum, því verðmætin sem hann skapar eru sama stærð hvort sem hann tekur sér frí eða ekki.

Jú, það er sjálfsagt að setja frídaga í samninga. Það er samningsatriði, en ekki mannréttindi. Sérstaklega ef við athugum að samningar geta verið mismunandi, vinnutími sveigjanlegur, vinnuálag árstíðabundið, o.s.frv.

Grein 25 ítrekar að það séu “mannréttindi” hvers og eins að taka frá öðrum brýnustu nauðsynjar sínar án þess að greiða fyrir þær. Þarna eru orðin “ríki” og “ríkisstjórn” aldrei notuð, en það eru líklega slík apparöt sem eiga að vernda þessi “sjálfsögðu mannréttindi”.

Ég vil ítreka að allt eru þetta atriði sem sett eru fram í þeim tilgangi að ná ástandi sem telst æskilegt. Það er æskilegt að allir eigi í sig og á og að mæður og börn (en ekki feður, aldrei minnst á þá hér) hljóti aðstoð sem þau þurfa. Það er aftur á móti vafaatriði hvort þetta séu mannréttindi, því svona “réttindum” fylgja kvaðir manna gagnvart hverjum öðrum.

Í grein 26 er sagt að allir hafi rétt á menntun “ókeypis”. Sem þýðir að sjálfsögðu “á kostnað annarra”. Svo er gengið svo langt að segja að menntun á grunnskólastigi skuli vera skylda. Þetta eru aftur kvaðir, ekki réttindi. Svo koma fleiri kvaðir, meðal annars er kveðið á um að menntun skuli vera í þágu Sameinuðu þjóðanna og starfsemi SÞ til friðar. Samkvæmt 26. grein er sem sagt skylda (sjálfsögð mannréttindi?) að kenna börnum boðskap ákveðinna samtaka.

Uppáhaldið mitt er síðan grein 28, sem beinlínis segir að það séu mannréttindi hvers lifandi manns að búa í sósíalísku ríki (því aðeins sósíalísk lýðræðisríki geta mögulega verndað öll hin “mannréttindin” til að uppfylla grein 28). Og grein 29, sem ég nefndi áður, segir í 3. málsgrein að mannréttindum þessum skuli aðeins vera valdið í góðvild Sameinuðu þjóðanna. Menn eru semsagt mannréttindalausir ef þeir axla réttindi sín utan góðvildar SÞ, eða hvað?

Síðasta greinin setur þetta svo allt í samhengi. Þar segir að ekkert í þessari yfirlýsingu skuli vera túlkað á þann hátt að það hefti (lauslega þýtt) mannréttindi sem sett eru fram í yfirlýsingunni. Þetta er frekar götótt öryggisnet, þar sem megnið af síðari “mannréttindunum” er í bullandi mótsögn við þau fyrri. Þannig að góðan seinni þriðjung yfirlýsingarinnar er bannað að túlka á nokkurn hátt án þess að vera að brjóta mannréttindi.


Niðurstaðan úr yfirlestri þessum verður að vera sú að þessi skilgreining á mannréttindum sé ekki beint fullnægjandi. Þetta er meira líkt lagagrein en yfirlýsingu óvéfengjanlegra réttinda. Aftur á móti er megnið af þessari yfirlýsingu góður grunnur til að byggja á.

Það eru ákveðin mannréttindi, og þau sem eru dregin af þeim, sem ekki er mótsögn í að finna í mannréttindayfirlýsingunni, nema maður gefi sér að maðurinn hafi engin réttindi.

Hvað eru þá mannréttindi? Jú, mannréttindi hljóta að vera þau grunn-réttindi sem maðurinn getur gefið sjálfum sér. Eða öllu heldur, þau einu réttindi sem maðurinn getur gefið öðrum mönnum, án þess að gefa eftir af réttindum sínum. Menn geta gefið hver öðrum aðeins einn hlut á þann hátt: frelsi. Frelsi til að athafna sig í þeim tilgangi að lifa. Öll önnur réttindi hljóta að draga af þessum grunn-rétti, og þar á meðal rétturinn til málfrelsis, réttur til eigna, og rétturinn til að elta eigin sannfæringu. Þannig er allt sem verndar þennan rétt okkar “rétt”, og það sem brýtur þennan rétt hlýtur að vera “rangt”.

Mannréttindi eru þá nokkuð sem ekki verður gefið né tekið með réttu. Þau eru bein afleiðing þess að maðurinn sé einstaklingur, og bein afleiðing athafna einstaklingsins sem hugsandi veru. Því hugsun hvers einstaklings er hans eigin, og réttur hans til hennar er algjör vegna þess að án hugsunar er enginn einstaklingur.

Hvers vegna þessi réttindi og ekki önnur? Vegna þess að einmitt þessi réttindi eru óvéfengjanleg. Þetta eru þau mannréttindi sem maðurinn getur sjálfum sér sett, sem hann getur sjálfur verndað, og sem setja ekki kvaðir á aðra menn (aðrar en þá kvöð að setja ekki kvaðir á aðra). Því enginn getur véfengt líf manns nema maður sjálfur. Enginn getur sagt hvort maður sé frjáls nema maðurinn sjálfur, og hann getur einmitt ekki sagt þetta nema hann sé frjáls til að segja það.



Heimildir:

http://www.un.org
http://www .archives.gov/exhibit_hall/charters_of_freedom/bill_of_ rights/bill_of_rights.html
http://www.unisevil.com
ht tp://www.lagmarksriki.is
http://www.capitalism.org


Athuga ber að þessi grein og innihald hennar er eingöngu álit og ályktun eins manns í rétti sínum til málfrelsis. Lesendum er frjálst að vera ósammála í rétti sínum til skoðanafrelsis.