Enn einn strembinn vinnudagur kvótakonungs.

Það hafði verið annasamur dagur hjá Ásláki Guðnunnasyni. Hann hafði þurft að innheimta frá sjómönnunum aflagróðan þeirra í allan dag, þvílíkt vesen. Þeir rifust í honum og vældu yfir verðinu sem hann setti upp þannig að greyið Áslákur fékk höfuðverk. Að lokum létu þeir undan ósanngjörnu kröfum sínum og skiluðu peningunum inn á bankareikninginn hans.
Áslákur bað nú ekki um mikið. Bara nokkra hundrað kalla, nánar tiltekið einn hundraðkall á hvert stykki fisk og þeir eru nú hundrað og áttatíu króna virði. Svo það er nú tæplega helmingur eftir handa þeim og er það ekki sanngjarnt. Áslákur vissi ekki betur en að hann ætti fiskinn eða var ekki svo? Hann hafði erft hann frá föður sínum sem hafði svo erft hann frá föður sínum og þessi blessaði fiskur hafði verið í ættinni í svo langan tíma og þannig ætti það ávallt að vera. Áslákur botnaði nú ekkert í fólki sem sífellt vildi stela ættargersemunum frá honum. Ekki reyndi hann að hnupla Mingvösum frá þeim eða forngripum sem afar þeirra hefðu átt. Nei… og ef þeir vilja ekki veiða fiskinn þá gæti hann bara gert það sjálfur. Og hversu erfitt væri það svo sem. Hann Áslákur hafði mjög gaman af dorgveiði í laxám og þar var hann bara með eina stöng. Hann færi lét með að moka upp í net.
Áslákur hafði ýmsar hugmyndir um hvernig fiskiiðnaðurinn gæti verið í framtíðinni. Í framtíðinni væri hægt að merkja fiskanna. Eins og bændur merkja kindurnar sínar. Þeir gætu bara veitt fiskanna, gatað tálknin og hent þeim út í og þá væri búið merkja barasta eitt stykki af torfum sérstaklega í nafni Ásláks.
Já svei mér þá, ég ætti bara að gerast ráðherra ég er svo klár hugsaði Áslákur. Ég myndi örruglega geta skammtað mér miklu meiri kvóta heldur en þessir svokölluðu ráðherra vinir mínir. Áslákur bakkaði Jeppanum sínum upp í innkeyrsluna sína. (Einn stærsti jeppi landsins og líklega með stærri innkeyrslum líka). Áslákur fann ilminn af ljúffengri nautasteik. Ég veit ekki einu sinni hvort ég ætti nokkuð að nenna að fara í laxveiðitúr með þeim um helgina, þessir pólitíkusar geta bara átt sig. Alltaf að væla í mér um peninga fyrir framboð.
Áslákur kyssti konuna sína á kinnina og klappaði tíu ára syni sínum á kollin. Síðan átu þau mat og Áslákur velti fyrir sér hvort það gæti bara verið skemmtilegt að fara í framboð. Nei, þá hefði ég engan tíma til að spila golf hugsaði hann og stakk upp í sig bragðgóðum kjötbita. Það er best svona, að vera kvótagreifi og bara sleppa því að vinna.


Snæbjörn Brynjarsson