Landhelgisgæslan, in memorium.
Íslendingar eru rík þjóð og við eigum einhver gjöfulustu fiskimið í heimi. Á fiskinum úr hafinu byggist stærstur hluti af lífsgæðum okkar. Það er held ég óumdeilt. Við gerum hins vegar lítið til að vernda þessa auðlind okkar og þar á ég við það að svo er nú komið að verndarar Landhelginar, Landhelgisgæslan er nánast látin, eða komin í dauðann. Þá á ég við að svo naumt er skammtað fé til hennar að næsta skref verður að selja TF-LÍF úr landi og leggja varðskipunum. Ráðherra dómsmála Sólveig Pétursdóttir hefur þann sama hátt á og í sambandi við lögregluna að neita að hlusta á beiðnir starfsmanna og almennings um að sinna þessum málum og leggja fé fram. Hún heldur áfram að berja höfðinu í steininn og segja að allt sé í lagi, hún er óhikað sagt einhver lélegasti og skaðvaldasti dómsmálaráðherra sem að hefur setið í háa herrans tíð. Það er nú svo komið að eitt varðskip gætir landhelginar og það eru bara Týr og Ægir sem að eftir eru, báðir orðnir alltof gamlir og slitnir. Alltof litlir og vanmáttugir gagnvart þeim verkefnum sem að þeim er ætlað að sinna. Skip sem að eru 34 ára og 27 ára, rétt um 1000 tonn og hafa ekki togkraft til að taka stór flutningaskip í tog nema í rjóma logni. Ekki þarf mikið út af að bera til að hættuástand skapist ef að ekkert varðskip er við landið sem að getur dregið t.d 10-15 000 tonna flutningaskip sem að hingað sigla. Varðskipin eru líka orðin svo lítil að það er hæpið að þau ráði við að taka erlenda togara sem að hér fiska, því að þeir eru orðnir svo margfalt stærri. Hverjir eru það sem að bregðast við þegar við sendum neyðarkall á landi eða sjó? Það eru ágætir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, þeir gera sitt besta þó að illa gefnir ráðamenn þessarar þjóðar skammti þeim grjón úr hnefa þegar að kemur að fjármagni. Það er hins vegar okkar að svara þegar starfsmenn Landhelgisgæslunar senda frá sér neyðarkall vegna skilningsleysis og vanhæfni ráðamanna. Því neyðarkalli eigum við að svara í næstu kosningum og losa landhelgisgæsluna undan þeirri vá sem að henni steðjar í formi lélegs ráðherra. Hvar er nýja varðskipið Sólveig Pétursdóttir? Hvernig væri að fara að huga að öryggi okkar borgaranna og sjómanna okkar í stað þess að hafa Harald Johannessen ríkisslögreglustjóra til sýnis í sólskini með gullborða upp á axlir ásamt einhverjum pappalögreglumönnum. Bregðumst við og skiptum út dómsmálaráðherra sem að ekki sinnir öryggi borgarnna, í komandi kosningum. Sitji hún fjögur ár enn mun okkar einn morguninn birtast andlátsfregn Landhelgisgæslunar. Og sennilega mun fylgja með að útförin hafi farið fram í kyrrþey.