Ég er ekki talsmaður fyrir neinn sérstakan stjórnmálaflokk, og er ekki að hvetja fólk til þess að kjósa einhvern ákveðinn flokk.

Nú hef ég verið að velta fyrir mér hve lengi hann Davíð Oddsson hefur setið, lengst allra forsætisráðherra. Sá tími hefur verið ágætur en nú er kominn tími á að hann fari.

Það er hollt fyrir lýðræðislega stjórn þessa lands að skipta reglulega út mönnum í æðstu stjórnþrepum ríkisins. Mér finnst sem Davíð sé búinn að koma sér óþægilega vel fyrir í hásæti sínu, hann er einum of yfirvegaður og öruggur með sig, hann er gangrýninn á alla gagnrýni á sína stjórn og á það til að stökkva upp og skamma hina og þessa fyrir að vinna gegn honum.

Hann er í mínum augum farinn að líkjast einræðisstjóra, þó ekki harðstjóra, en lýðræðislega kjörinn einræðisstjóra. Má ég í þessu tilliti vísa til stuðningsyfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands til Bandaríkjanna þar sem Íraksstríðið er stutt. Samkvæmt minni vitneskju þá voru það Davíð og Halldór sem tóku þá ákvörðun sjálfir að styðja þetta stríð fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Ekki var haft samband við neinn annan, hvorki nefndir né ráð, hvað þá þjóðina.

Hugleiðing:
Við íslendingar höfum ekki íslenskt orð fyrir “Democracy”, en höfum þó tengt það við “Lýðræði”. Það finnst mér ekki hæfa vel. Orðinu “Democracy” er varla hægt að líkja við “Lýðræði”, þar sem “Lýðræði” er stjórnfyrirkomulag þar sem lýðurinn (fólkið) ræður.
Hinsvegar er “Democracy” úr forn-grísku og þýðir í raun og veru: “Stjórnfyrirkomulag þar sem stjórnendum er í sífellu skipt út” þar sem “Demo” er eitthvað sem er á sífelldri hreyfingu og “cracy” er stjórnun.
Þeir sem hafa kynnt sér lýðræðisfyrirkomulag í forn-grikklandi vita hvað ég á við, þar tóku allir borgarar þátt í stjórn borgríkisins. Hverjir sem er gátu átt von á því að sitja á þingi og æðstu mönnum var reglulega skipt út.
Reyndar myndi slíkt fyrirkomulag ekki duga lengi í nútímanum af ýmsum ástæðum, þar sem aðstæður í forn-grikklandi og á vesturlöndum eru allt aðrar.
En samt sem áður megum við ekki gleyma uppruna lýðræðisins, og síðast en ekki síst merkingu lýðræðis (“Democracy”). Það ætti að vera þak á það hve lengi forseti eða forsætisráðherra getur setið, t.d. 2 kjörtímabil.