Ég er ekki alveg búinn að segja mitt síðasta orð í þessu máli. Ef þú ert búin/-inn að fá nóg af umfjöllun um þetta málefni þá ráðlegg ég þér að hætta að lesa þessa grein!

Til dagsins í dag er áætlað (samkvæmt frétt Breska blaðsins The Guardian í dag) að kostnaður Bandaríkjastjórnar vegna innrásarinnar í írak sé 20 billjónir dala. [USD 20.000.000.000.000,-] Jafnframt er áætlað að aukalega verði kostnaðurinn um 2 billjónir dala á mánuði fram í september (Athugið að í þessari upphæð er ekki talinn með kostnaður bandalagsþjóðanna Bretlands, Ástralíu o.sv.frv.). Ef við leggjum það saman þá yrði upphæðin komin í u.þ.b. 30 billjónir dala næstkomandi haust. Hvaða venjulega manneskja skynjar þessa upphæð? Ekki ég! Mér datt í hug að reyna að setja þessa tölu í samhengi sem ég (og kannski þú) gæti skilið.

Hvað væri hægt að gera við 30 billjónir Bandaríkjadala? Ja, bara ótrúlega mikið!

[1.] Það væri hægt að reka Íslenska samfélagið í u.þ.b. 9 ÞÚSUND ÁR! Forsenda þessa er byggð á upplýsingum úr fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra fyrir yfirstandandi ár, en þar er sagt að heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2003 séu áætluð 253,3 miljarðar króna. Ég tek það fram að ég geri ekki ráð fyrir aukafjárlögum í þessum útreikningi, en það myndi ekki breyta niðurstöðunni mikið.

[2.] Bandaríkjamenn veita u.þ.b. 300 miljónum dala (Chicago Sun-Times 17. apríl, 2003) til mannúðar- og uppbyggingarstarfs í Afgansitan á ári í kjölfar innrásarinnar þar. Það væri hægt að halda þeirri aðstoð áfram í 100 ÞÚSUND ÁR!

[3.] Samkvæmt hjálparstofnuninni “Aids in Africa” [http://www.aidsinafrica.com] þá kostar USD 25,00 á mánuði að greiða fyrir húsnæði, fæði, vatn, heilsugæslu og menntun fyrir eitt barn í Afríku. Það gera USD 300 á ári. Það væri hægt að sjá fyrir MILJÓN BÖRNUM í 100 ÞÚSUND ÁR fyrir þá upphæð sem stríðið í Írak er talið muni kosta!!!

Þetta setur verðið á stríðinu í betra og skiljanlegra samhengi fyrir venjulegt fólk. Ég hef ekki minnst á þann sálræna kostnað sem stríðshrjáðir borgarar í Írak þurfa að lifa við um ókomin ár. Hver er verðmiðinn á einu mannslífi? Það er dæmi sem ekki er hægt að setja verðmiða á, alla vega treysti ég mér ekki til þess!

…og svona í lokin: Af hverju getur valdamesta ríki veraldar, sem hefur þjálfað ótal sérsveitir sem lært hafa að ráðast inn í ótrúlegustu aðstæður og er sérþjálfað í því að myrða, ekki afgreitt eitt stykki ógnarstjórn eins og Íraksstjórn vissulega var? Ekkert ríki á jörðinni býr yfir meiri tæknibúnaði en Bandaríkin til að njósna og undirbúa slíka aðgerð. Þessi staðreynd að Bandaríkjastjórn skyldi ekki geta losað sig við nokkrar manneskjur í Írak veldur mér miklum heilabrotum. Er hugsanlegt að þeir hafi ekki valið þann kostinn vegna þess að þeir höfðu og hafa hagsmuna að gæta á þessu svæði? Ég spyr!

Vegna þess að ég er mannlegur þá er hugsanlegt að mér hafi orðið á mistök í þessum útreikningum mínum. Endilega farið yfir dæmin og látið mig vita ef svo er.

Ég minni á að ég tek ekki þátt í skítkasti og fer fram á að umræður fari fram á vel rökstuddum, málefnalegum grundvelli. Ef þessi umræða fer í taugarnar á þér, vinsamlegast láttu þá vera að taka þátt í henni.

Kveðja,

Hlynur.