Hvernig er það; er megnið af Íslensku þjóðinni búin að láta plata sig til að sturta í sig Herbalife töflum og hristingum til að geta lifað sómasamlegu lífi? Ég er að verða svo gáttaður á þessu rugli að ég er eiginlega til hliðar við sjálfan mig og það er alvarlegt ástand!
Það er nú svo að aldrei áður í sögu þessa lands hefur Íslendingum staðið til boða jafn fjölbreytt úrval af hollu fæði. Af hverju er þá svona brýn “þörf” fyrir þessar vörur á landinu? Er þjóðin illa nærð og þjáist hún af bætiefnaskorti? Nei, það getur varla verið ef miðað er við gæði matvara hér á landi. Er kannski málið það að holl matvæli eru svo dýr að almenningur hefur ekki efni á þeim og kaupir því “ódýr” Herbalife bætiefni? Ja, matvörur eru vissulega í dýrari kantinum hér heima ef miðað er við nágrannalöndin en þó er sannleikurinn sá að Herbalife vörur eru fokdýrar. Hver er þá ástæðan?
Mig grunar að ástæðan sé aðallega leti og græðgi. Fólk gefur sér ekki tíma til að næra sig á hollu fæði og eins og svo margir vesturlandabúar þá er fjöldi Íslendinga fastur í neyslu of mikils skyndibitafæðis. Fólk hugar ekki nægilega mikið að nauðsynlegri hreyfingu og er fast í þessum vítahring óholls mataræðis og kyrrsetu.
Svo er það auðvitað mikilvægasta ástæðan, þ.e.a.s. græðgin hjá þeim sem gerast dreifingaraðilar. Þar er á ferðinni fólk sem, undir yfirskyni góðra áforma og umhyggju fyrir náunganum, gerir allt hvað það getur til að plata fólk til að trúa því að það þurfi Herbalife til að lifa góðu lífi. Þetta er, að mínu mati siðlaust fólk sem er að reyna að auðgast á trúgirni almennings.
Þessir dreifingaraðilar eru auðvitað ágætis fólk, inn við beinið. Það er, hins vegar, markað af tvenns konar eiginleikum sem gerir þeim kleift að sinna þessu verkefni sem það hefur valið sér. Það er gráðugt og það er haldið ákveðinni siðblindu. Græðgin stafar oft og iðulega af því að það hefur verið láglaunafólk og/eða er lítt menntað og/eða hefur verið í fjárhagskröggum og/eða er bara tilbúið til þess að hafa peninga af náunganum til að uppfylla draum sinn um að verða efnað.
Til marks um græðgina er nægilegt að opna vefsíður Morgunblaðs- eða Vísisvefsins. Þar úir og grúir af auglýsingum frá þessu liði sem er í angist sinni að reyna að ná í viðskiptavini. Málið er nefnilega það að þessi viðskipti byggjast á “stúktúr” sem best er að líkja við “pýramída”. Mestur hagnaður þessara dreifingaraðila fæst með því að ná í nógu marga nýja dreifingaraðila. Það er kallað að “styrkja undirlínuna”. Þannig uppfyllir þetta gráðuga lið þá þörf sýna til að auðgast sem allra mest. Þið munið eftir keðjubréfunum sem gengu um þjóðfélagið hér um árið. Það má með sanni segja að þessi “business” sé eins konar nútíma keðjubréf. Til þess að fræðast nánar um þetta kerfi er nægilegt að slá upp orðunum: “network marketing fraud” á t.d. leitarvefnum www.google.com.
Siðleysið felst í því að notfæra sér trúgirni og neyð náunga síns. Í nútíma samfélagi eru sífellt fleiri að berjast “yfirvigtina”. Í auglýsingafári samfélagsins, sem segir að fólk verði að vera í kjörþyngd til að vera gjaldgengt og fallegt, þá eru þessir einstaklingar í neyð og vanlíðan. Jú, jú, það er hollara fyrir líkamann að vera grannur en þungur! Það er vísindalega rannsakað. Hins vegar eru til eðlilegar og ódýrar leiðir til að létta sig, eins og allir vita. En þessi “megrunar-kultúr” sem hellir yfir okkur óprúttnum auglýsingum og reynir að telja okkur trú um að við verðum að opna veskið og kaupa tilteknar rándýrar vörur til þess að ná þessum markmiðum er byggður á græðgi og eru ógeðslegur, að mínu mati. Þetta er bara skrum og lygi!
Saga fyrirtækisins Herbalife er einnig afar vafasöm, svo ekki sé meira sagt. Á netinu er hægt að finna ótal margar sorgar sögur um Herbalife. Fyrirtækið er stofnað af manni sem misnotaði áfengi og var haldinn þunglyndi. Hann fannst látinn 44 ára gamall af ofneyslu áfengis og lyfja fyrir þremur árum síðan. Ekki virðast Herbalife vörurnar hafa hjálpað honum nægilega til þess að lifa góðu lífi. Ég vísa aftur á vefinn vilji fólk finna nánari upplýsingar um þetta vafasama fyrirtæki.
Ég mæli með því að fólk fari að hugsa sjálfstætt og hætti að láta plata sig með áróðri og villandi upplýsingum. Gott líf er ekki háð einföldum skyndilausnum heldur heilbrigðu líferni sem byggist á góðu mataræði, andlegu sjálfsnámi og hollri hreyfingu.