Já, titillinn er réttur. Hér á eftir kemur útdráttur úr fyrsta kafla bókarinnar The Best Democracy Money Can Buy eftir Greg Palast. Þessi bók var gefin út í Bretlandi af úgáfufyrirtækinu Robinson árið 2002, var svo endurútgefin 2003 með ýmsum nýjum upplýsingum viðbættum.
Greg Palast er bandarískur fréttamaður sem hefur helgað líf sitt því að komast að sannleikanum um ýmsa hluti. Í starfi sínu hefur hann komist að ýmsum merkilegum hlutum, til dæmis að ekki er allt sem sýnist í Flórída.
Flestir muna eftir síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum. Vafi lék á að kosningarnar væru með öllu réttmætar og mikið var rætt um hvort að endurtelja ætti atkvæði, sérstaklega í Flórída. Ég man eftir miklum umræðum um handtalin atkvæði eða hvort tölvur tækju hinu mannlega auga fram. Ég held það skipti ekki máli lengur. Það sem skiptir máli er hverjir fengu að kjósa.
Það munaði 537 atkvæðum á George W. Bush sem bauð sig fram fyrir hönd repúblikana og Al Gore, þáverandi varaforseta sem bauð sig fram fyrir hönd demókrata. Ég hef því miður enga nákvæma skilgreiningu á reiðum höndum um muninn á demókrötum og repúblikönum en sú sem ég hef í huga er að hinir ýmsu minnihlutahópar og þeir sem eiga á brattann að sækja í samfélaginu kjósa frekar demókrata, þ.e. svart fólk, innflytjendur, fátækt fólk o.fl. Þeir sem kjósa repúblikana eru aftur á móti oftar en ekki hin svokallaða yfirstétt, ríkt fólk sem hugsar um það sem þjónar þeirra hagsmunum.
Þá komum við að aðalatriðinu.
Á kjörskrár í Flórída vantaði 57.700 manns sem tilheyrir einmitt hópnum sem kýs frekar demókrata.
Já, þið sáuð rétt, næstum því sextíu þúsund manns. Þó svo að einungis 10% af þessu fólki hefði í raun kosið demókrata þá hefði það samt þýtt að Al Gore væri forseti núna en ekki George W. Bush, sem ég ætla ekkert að segja um frammistöðu sem forseti, dæmi hver fyrir sig.
Málið er að fyrir hverjar kosningar er gerður listi yfir fólk sem hefur ekki rétt til að kjósa, glæpamenn og aðra, sem er svo sendur út til sýslanna sem taka þetta fólk af kjörskrá. Í þetta skipti í Flórída var gerð þessa lista í höndum einkafyrirtækis. Einkafyrirtækis með sterk tengsl við repúblikana. Þeir sem sáu um að koma gerð þessa lista til fyrirtækisins ChoisePoint var enginn annar en Secretary of State í Flórída Harris sem vill svo til að varð seinna kosningastjóri George Bush. Og eins og allir vita er Jeb Bush, bróðir George W. Bush, ríkisstjóri í Flórída.
Seinna kom svo í ljós að ýmsar villur voru á þessum lista. Til dæmis kom á óvart að meira en helmingur fólksins væri svart þó einungis 11.6% íbúa Flórídaríkis eru svartir. Mér finnst líka merkilegt að nokkrir af þessu fólki var sakað um að hafa framið glæp árði 2007. Síðast þegar ég vissi var árið 2003 og nema ég kunni allt í einu ekki að telja eða að Minority Report sé þegar að gerast þá getur fólk ekki framið glæpi í framtíðinni. Það var ekki bara eitt dæmi um það, ónei, fólk átti að hafa framið glæp á næsta áratug, næstu öld eða næsta árþúsundi. Einnig finnst mér áhugavert að ef Cristopher Phillips er dæmdur glæpamaður þá má Christina Phillips ekki kjósa. Meðal annars fékk sýslustjóri í sýslu í Flórída bréf þar sem henni var sagt að hún væri dæmdur glæpamaður og mætti þar af leiðandi ekki kjósa. Hún var alsaklaus. Og þetta er ekki allt.
Í flestum ríkjum Bandaríkjanna má fólk ekki kjósa ef það er í fangelsi eða hefur nýlega gerst sekt um glæp eða er í fangelsi. Í sumum ríkjum, þar á meðal Flórída má fólk aldrei kjósa ef það hefur einu sinni stigið af hinni beinu braut réttlætisins. Í öðrum ríkjum, þar á meðal Ohio og Illinois má fólk kjósa aftur ef það hefur tekið út sinn tíma í fangelsi og heldur sig réttu megin línunnar þaðan í frá. Það er í lögum að þessi réttur helst þó svo að fólkið flytji til ríkja þar sem þessi réttur er ekki. En nei, greinilega ekki í Flórída fyrir síðustu forsetakosningar.
2-3000 fyrrverandi glæpamanna sem hafa fengið kosningarétt sinn til baka hafa seinna flust til Flórída en skyndilega misst hann aftur þar. Opinber starfsmaður í Flórída sagði Greg Palast að hann vissi að það mætti ekki taka kosningaréttinn af þessu fólki, að þeir sem skipuðu þeim að gera það vissu það líka en engu að síður þurftu þeir að stroka þetta fólk af kjörskrá. Ég vil minna á að það munaði 537 atkvæðum í kosningunum og einnig benda á að háskóli í Bandaríkjunum segir að 93% dæmdra glæpamanna kaus eða hefði kosið Bill Clinton sem er demókrati í þarsíðustu kosningum.
Einnig er áhugavert að margir þeirra sem voru skráðir sem glæpamenn höfðu í raun ekkki framið glæp (felon) heldur smáafbrot svo sem að keyra of hratt eða undir áhrifum áfengis. Sem George W. Bush hefur sjálfur gert.
Núna hljótið þið að spyrja sjálf ykkur af hverju þetta hefur ekki verið í fréttunum út um allt. Svarið er að Bandaríkjamenn nenna greinilega ekki að leggja á sig að rannsaka eitthvað sem er ekki víst að muni standast. Ég vil benda á að þetta eru ekki mín orð heldur er þetta allt tekið úr bókinni The Best Democracy Money Can Buy eftir Greg Palast. Og einnig ef bandarískt blað fékk veður af þessu og hafði samband við Greg Palast þá varð sjaldan meira úr því. Daginn eftir hringdi það aftur og sagði “Því miður, þessi saga stenst ekki.” Af hverju? Þau hringdu á skrifstofu Jeb Bush. Þetta var aftur á móti í fréttum í Bretlandi. Oft. Meira að segja FYRIR kosningarnar. Já, þið lásuð rétt, þetta var vitað FYRIR kosningar! Það voru birtar greinar fyrir kosningar, á meðan rifrildið um útkomu kosninganna stóð og eftir kosningar. Reyndar aðallega í Bretlandi en samt líka í Bandaríkjunum.
En annars eru flest blöð, sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar í Bandaríkjunum í eigu gróðafyrirtækja sem birta eins ódýrar fréttir og hægt er, semsagt vinna úr fréttatilkynningum frá opinberum aðilum og annað álíka auðvelt. Það leggur ekki í það að eyða miklum tíma og peningum í að rannsaka eitthvað sem alls ekki er víst að standist, sérstaklega ekki ef ríkisstjórnin leggur mikið á sig til að fela það. Það er með öðum orðum reiknað með að fólk sé of heimskt til að fatta hvað er í gangi.
Þegar ríkisstjórnin í Flórída var spurð um þennan lista og hið háa hlutfall svarts fólks á honum var útskýringin var sú að svart fólk væri ekki vel kunnugt um hvernig á að fara að því að kjósa og gerði því ógilt. Það væri semsagt of heimskt til að kjósa. Fleiri álíka afsakanir komu til að útskýra þetta furðulega hvarf tugi þúsunda manns af kjörskrá í Flórída. Ég minni enn á að einungis munaði 537 atkvæðum að Al Gore væri núna forseti Bandaríkjanna.
Ef þið eruð ekki sannfærð núna um að eitthvað sé í gangi þá mæli ég með að þið lesið þessa bók. Hún fæst í Eymundsson og kostar litlar 1990 krónur. Einnig er mælt með bókinni Stupid White Men eftir Michael Moore.
Góðar stundir.
Daddy, don't ever die on a friday! It can seriously damage your health!