Af hverju fagna þeir dauðu ekki?
Undanfarið hafa alls konar fyrirbæri skriðið undan steinum og þykjast allt í einu hafa haft rétt fyrir sér allan tímann, meðan aðrir eiga að hafa haft rangt fyrir sér. Sum sé, þeir sem voru á móti því að alþjóðalög væru þverbrotin og ráðist á Írak þrátt fyrir að unnið væri að lausn deilumála eftir öðrum leiðum, eiga að hafa haft rangt fyrir sér vegna þess að nú fagnar fólk í Írak því að stríðinu er að ljúka og Saddam Hussein er farinn frá völdum. Hver hélt eiginlega því fram að fólk yrði ekki fegið að losna við Saddam? Hver hélt því fram að fólk yrði ekki fegið að hafa sloppið lifandi í gegnum þetta hryllilega stríð? Ástæðan fyrir því að fólk var á móti þessu stríði var að viðkomandi vildu ekki láta drepa og örkumla saklaust fólk. Nú er búið að drepa þetta fólk þúsundum saman, og merkilegt nokk, þeir sem sluppu lifandi eru fegnir að vera á lífi. En hvað með hina dauðu sem liggja í fjöldagröfum eða rotnandi á víðavangi? Hvað ætli þeim finnist um málið? Eins og fyrri daginn sýna stríðssinnar að þeir gefa engan gaum að saklausum fórnarlömbum, það er allt í lagi að drepa fólk í þúsundatali til að setja einn harðstjóra í staðinn fyrir annan, finnst þeim. Þessi nýji harðstjóri er bara ekki kominn fram ennþá, en við skulum bíða og sjá.