Í stærðfræðitíma fyrr í dag kom upp sú hugmynd hjá mér og vini mínum Fandango að hætta að nota þetta óþægilega mínútukerfi til að fylgjast með tíma og fara einfaldlega að nota radíana. Stuðst er samt sem áður við klukkuskífuna góðu til þess að átta sig betur á breytingunni.
Í pí-kerfinu okkar er sólarhringurinn 24pí þar sem miðað er við stóra vísinn sem í gamla tímatalinu samsvarar 12 tímum. Hver lota er því 2pí og sólarhringurinn hefst klukkan (0, 0) eða kortér yfir þrjú í gamla tímatalinu. Þetta er vegna þess að byrjað er að telja við ímyndaðan x-ás og talið svo rangsælis.
Framsetningin á tímanum er svohljóðandi: Fyrst skal nefnd staða litla vísis og þá skal miða við þann heila klukkutíma sem hann var á síðast. Þannig táknarðu það bil sem litli vísirinn fer frá pí/6 - 0 (2 - 3 í gamla tímatali) einfaldlega pí/6 þangað til hann nær 0, og þá táknarðu bilið frá 0 - 11pí/6 (3 - 4 í gamla tímatali) sem 0 þangað til hann nær 11pí/6, og svo framvegis. Seinni talan gefur til kynna stöðu stóra vísis og er þá stuðst við mínútur sem breytt er í radíana. Þar er hver mínúta pí/30 og talið er rangsælis frá x-ásnum, eða tölunni 3 á skífunni.
Til þess að skýra þetta betur ætla ég að taka nokkur dæmi:
Þar sem klukkan í gamla tímatalinu er 21:40 er hún (pí, 35pí/6) þar sem litli vísirinn var síðast á pí (tölunni 9) og ef við teljum mínúturnar rangsælis frá x-ásnum fáum við út 35pí/6.
Einfalt, ekki satt?
Ef klukkan í gamla tímatalinu er 15:30 er hún (0, 45pí/30) eða (0, 3pí/2) eftir einföldun.
Ef klukkan er 06:24 í gamla tímatalinu er hún (3pí/2, 51pí/30).
Takið eftir að þegar staða litla vísisins er táknuð er tekið mið af því á hvaða heila tíma hann var síðast _réttsælis_ þó að tímatal þetta sé lesið rangsælis.
Einnig skal það tekið fram að þegar talað er um eitthvað sem gerist eftir ákveðin tíma skal miðað við stóra vísinn.
Dæmi:
-“Hvað er bíómyndin löng?”
-“Hún er 3pí”
Ég vona að sem flestir taki þetta einfalda og skemmtilega tímatal upp þar sem það er mun auðveldara í notkun en þessar klunnalegu mínútur og einnig mun skemmtilegra.
Zedlic