Fróðlegt er að bera saman ummæli Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra áður en stríð braust út, og viðbrögð hans þegar á hólminn var komið. Óhætt er að segja að mikið beri þar í milli:
23. janúar á Alþingi segir Halldór; “Það er alveg ljóst af okkar hálfu að við teljum algjörlega nauðsynlegt að þetta mál komi til umfjöllunar Öryggisráðsins á nýjan leik”, og örfáum dögum áður hafði hann sagt á Stöð 2, það liggja ekki á þessu stigi fyrir nægilegar sannanir til þess að fara í árás á Írak á grundvelli þeirra upplýsinga sem núna liggja fyrir.“ - af stjórnmálavef vísis.
En það sem athyglisverðast er kunna að vera ummæli sem hann lét út úr sér á flokksþingi framsóknarmanna í febrúar, sem sjónvarpað var beint. Þar sagði hann með áhersluþunga: ”Ef vopnaeftirlitsmennirnir vilja fá meiri tíma þá eiga þeir að fá meiri tíma.“
En hvað gerir hann svo þegar til kastanna kemur? Þegar kom fram í mars var staðan þessi í öryggisráðinu: Í gildi var ályktun síðan í nóvember, samþykkt samhljóða, um vopnaeftirlit í Írak. Eftirlitsmennirnir lýstu því að þeir vildu halda áfram starfi sínu, fá meiri tíma til starfans, og nokkurn veginn hve langur sá tími þyrfti að vera. Frakkland, Rússland, Kína, Þýskaland, Sýrland, Pakistan, Gínea, Kamerún, Angóla, Chile og Mexíkó, 11 ríki af 15 í öryggisráðinu, lýstu þeirri skoðun sinni að vopnaeftirlitsmennirnir ættu að fá meiri tíma til að halda áfram starfi sínu. Um það var því breið meirihlutasamstaða. Minnihlutinn vildi hins vegar ekki veita meiri tíma, og vildi ekki una valdi meirihlutans, en greip til einhliða aðgerða sem bundu enda á starf vopnaeftirlitsins. Afstaða Halldórs Ásgrímssonar var hins vegar að ákvörðun minnihlutans hefði verið rétt og hann studdi hana. Hann var þvi með öðrum orðum að segja: ”Vopnaeftirlitsmennirnir vilja fá meiri tíma, meirihluti öryggisráðsins vill veita þeim meiri tíma, en þeir eiga EKKI að fá meiri tíma.“
Þessi maður er nú afhjúpaður sem lygari og ómerkingur. Í dag segir hann: ”Eftir stríðið eiga Palestínumenn að fá úrlausn sinna mála." Hvað skyldi nú vera að marka það? Ef Ísraelsmenn innlima land þeirra er allt eins víst að Halldór styðji það og segi það rétt.
Þið sem búið í norðurhelmingi Reykjavíkur, sjáið nú til þess að þessi maður nái ekki inn á þing. Framsóknarflokkurinn er í dag minnsti flokkurinn í þvi kjördæmi, best væri að hann hyrfi alveg.