Ég sit hérna og er að fylgjast með óskarsverðlaunaafhendingunni í beinni, þess á milli skipti ég yfir á CNN og BBC til að fylgjast með stríði, stríði í beinni. Ég náði að skipta yfir á CNN þegar fréttaskýrandi var að taka viðtal við einhvern “analystinn”.
Hann spyr hann hvort tölvuleikir í dag gerðu fólk ekki ónæmara fyrir stríði. Ég er algerlega sammála þessu, ég spila tölvuleiki og skammast mín ekkert fyrir það en ég hef tekið því að fólk sem ég umgengst og hefur spilað mikið af svona tölvuleikjum verður ónæmara fyrir svona hlutum. Einn hlutur sem hann benti á að ætti hlut í þessari þróun væri hversu vel herinn stýrði fréttamönnum sem fylgdust með stríðinu. Það var bent á að núna væru mun fleiri fréttamenn sem fylgdust með átökunum heldur en í Flóastríðinu 91.
Einnig kom fram herinn sér um flutning á þessum fréttamönnum og þar af leiðandi sér hann um hvað fréttamennirnir sjá.
Í þessu stríði hefur mér fundist þetta meira líkt tölvuleik en öll stríð sem ég hef upplifað hingað til, myndir af hermönnum gangandi um með byssurnar skjótandi á ósjáanleg skotmörk, skriðdrekar keyrandi með byssurnar geltandi útí loftið án þess að einhverjir óvinir sjáist. Þetta er áróðursstríð, báðir aðilar nota fréttamiðla til að breiða út “boðskap” sinn með misjöfnum árangri. CNN greindi frá því að þeir vissu að herinn væri að nota fréttastöðina í þessum tilgangi en töldu það skyldu sína til að skýra frá þessu. Nú hef ég fylgst með CNN undanfarinn sólarhring og finnst mér sem myndirnar og fréttirnar séu ritskoðaðar af einhverjum sem vill ekki að neitt “viðkvæmt” efni berist út.
Ef ég á að vera hreinskilinn bjóst ég að sjá miklu meira úr þessu stríði en sýnt hefur verið.
Ég ætla að viðurkenna það að mig langar að sjá meira, mig langar að fylgjast með þessu svo ég geti myndað mér almennilegar skoðanir á þessu guðs volaða stríði.
Eru Bandaríkjamenn að gera réttann hlut? Eru þeir að “frelsa” írösku þjóðina? Hve dýrt gjald eiga Bandaríkjamenn eftir að gjalda fyrir þessa svokallaða “frelsun”?
Ég er greinilega kominn langt út fyrir það efni sem ég ætlaði mér að skrifa um en það er þessi svokallaða umfjöllun fréttamiðla um stríð. Maður hefur séð nokkuð slæmar myndir í sjónvarpinu, fólk skotið, fólk fallandi úr brennandi byggingum, flugvélar fljúgandi inní byggingar svo nokkur dæmi séu tekin. Nema að myndirnar séu svo stórfenglegar að þær fari útfyrir hugmyndaflug mitt þá ná þær lítilli athygli hjá mér. Er þjóðfélagið ekki á rangri leið þegar útí svona hluti er komið? Að morð og limlestingar í sjónvarpi eru orðnar daglegt brauð?
Allar málfræði og stafsetningarvillur eru afleiðingar of mikillar vöku og því eru aðilar sem ætla að nöldra útaf því beðnir um að hafa samband við mig persónulega. :D
P.s Ég hef ekki ennþá gert upp við mig hvort ég styðji aðgerðir BNA manna ennþá, skoðanir mínar breytast á hverjum degi.