Ég vil koma með nokkra punkta um Írak og rök fyrir því að farið sé í þessar hernaðaraðgerðir á þessari stundu:
Saddam hefur verið að spila með vopnaeftirlitsmenn SÞ frá því að Persaflóastríðinu lauk. Hann hefur ítrekað vísað þeim úr landi, neitað þeim aðgangi að vissum stöðum og notað fjöldann allan af brögðum til að tryggja að þeir finni ekki nokkurn skapaðan hlut.
Með ályktun 1441 var ekki ætlast til þess að vopnaeftirlitsmennirnir finndu neitt, enda varla hægt að ætlast til þess að lítill hópur eftirlitsmanna geti fundið ákveðin vopn í landi jafn stóru og Írak er. Írak er að mestu leyti eyðimörk og það væri ekkert erfitt að fela þessi gereyðingarvopn og fela öll ummerki um tilvist þeirra (gefum þeim smá kredit, þeir eru nú ekkert ómenntaðir villimenn). Ef vopnaeftirlitsmennirnir hefðu fundið eitthvað væri her núna á leiðinni til Baghdad undir merkjum SÞ. Þó að þeir hafi ekki fundið nein vopn þýðir ekki að Írakar eigi þau ekki.
Önnur rök sem ég hef oft heyrt eru þau, hví ekki sé ráðist á N-Kóreu þar sem vitað er að þeir eru að þróa kjarnorkuvopn. Ástæðan er stöðugleiki. N-Kóreumenn eiga engar ræflaþjóðir sem nágranna. Næstu lönd við Kóreuskagann eru Kína (kjarnorkuveldi), Rússland (kjarnorkuveldi), S-Kórea (öflugt hernaðarveldi) og Japan (öflugt viðskiptaveldi). Eins og þið sjáið geta N-Kóreumenn ekki ógnað næstu nágrönnum sínum án þess að búast við hörðum viðbrögðum frá þeim og alþjóðasamfélaginu. Írakar eru eina þjóðin á sínu svæði sem eru (vitandi) að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Jú, Ísraelar eiga víst einhver kjarnavopn en ekki eru þeir að ógna grannalöndum sínum með þeim að fyrra bragði (ekki snúa þessu upp í umræðu um Ísrael-Palestínu, ég styð hvorki afstöðu Ísraela né USA í því máli). Ef Írakar fá tækifæri til að koma sér upp vopnabúri með kjarnorkuvopnum geta þeir notað sér þá aðstöðu til að ógna og kúga nágrannaríki sín (Íran, Sýrland, Jórdaníu, Tyrkland, Sádi-Arabíu, Kúveit) og þar með valdið óstöðugleika á svæðinu, að ég minnist ekki á hættuna á að Írakar og Ísraelar endi sjálfir í kjarnorkustyrjöld sem myndi hafa hrikalegar afleiðingar (orðið Armageddon kemur mér í huga þegar maður hugsar hvernig ríki myndu fylkja sér með eða gegn Ísrael).
Olían, já þetta er skemmtilegt svar hjá \“friðarsinnunum\”, en fá rök sem styðja hana. Það er auðvelt að benda á að Írak eigi um 11% af þekktum olíuauðlindum heimsins (þó aðeins 3% af þessum 11% séu virkjuð). Já, Bush er frá Texas, fjölskylda hans auðgaðist á oliufjárfestingum. Þýðir það að hann sé tilbúinn að leiða þjóð sína til stríðs að ég tali ekki um að sannfæra fjölda þjóðarleiðtoga og yfir 70% þjóðar sinnar um réttmæti stríðs, með það eitt að leiðarljósi að græða örlítið meira. Maðurinn gæti ekki verið betur settur það sem eftir er ævi sinnar. Fólk lætur eins og hann sé að gera þetta fyrir persónulegan ágóða. Bandaríkin og Bretland hafa komið með tillögu um sjóð sem ágóði olíusölu Íraka verði látinn og notaður til að kaupa nauðsynjavörur fyrir þjóðina. Sá sjóður mun heyra undir SÞ og Kofi Annan mun hafa völd með því, USA og UK munu ekki hafa neina milligöngu í þessu máli. Og litlar líkur eru á því að næsta íraska stjórn muni vilja tæma auðlindir sínar í hvelli með því að selja olíuna til USA á 10 dollara fatið þegar þeir geta unnið hagkvæmlega úr þeim, haldið framboðinu lágu, eftirspurninni hárri og fengið 20-25 dollara fyrir fatið. Þegar Írökum hentar að auka framleiðslu sína og virkja fleiri olíulindir munu þeir eflast fagna erlendum fjárfestum; skiptir þá engu hvort þeir séu bandarískir, franskir, pólskir eða japanskir. Kúveit \“frelsaðist\” fyrir 12 árum síðan, þeir hafa ekki enn fengið fjármagn erlenda olíufjárfesta í olíulindir sínar. Og þeir hafa enn ekki aukið framleiðslu sína að miklu marki.
Saddam hefur ítrekað brotið í bága við ályktanir öryggisráðs SÞ, alls 17 frá árinu 1990. Þessar ályktanir eru enn í fullu gildi og því hafa SÞ enn lagalegan rétt til að ganga til verks. Málið er hins vegar að viss innan SÞ ríki þora/vilja það ekki. Frakkar og Rússar hafa enn hag í því að Saddam sé við völd. Þessi ríki halda olíusamningum við Íraka, og allt vopnabúr Íraka er byggt upp úr frönskum og rússneskum vopnum. Þar sem viðskiptabann hefur verið við Írak frá lokum Persaflóastríðsins (nema Food for Oil) er þessi vopnasala ólögleg og þar af leiðandi myndi næsta ríkisstjórn ekki þurfa að efna þessa samninga.
Ég játa að ég sé engin tengsl milli al-qaeda og Saddams, en þetta er vissulega hluti í stríðinu gegn hryðjuverkum. Ef næsta stjórn verður öfgaminni og vingjarnlegri í garð USA (sem þeir verða) mun staða USA á svæðinu batna til muna. Sú staða gefur þeim meiri möguleika að byggja upp leyniþjónustustarf sitt gegn hryðjuverkum í þessum heimshluta (þar sem flestir anti-american hryðjuverkamenn koma einmitt frá).
Áður en þið haldið áfram að hrauna yfir kanana, hversu heimskir, frekir og alheimslögga þeir telja sig vera, lítið aðeins á staðreyndirnar. Þegar eitthvað bjátar á í heiminum, frá hverjum er ætlast til að hjálpin berist? Jú, það er alltaf leitað til Bandaríkjanna. Bandaríkin eru að gera það sem þeir telja rétt í þessu máli, þeir hafa vissulega hag á því að Saddam fari frá völdum og \“hliðhollari\” stjórn taki við, en gefið þeim a.m.k. benefit of the doubt. Ef að kanarnir hirða allan olíuágóða Íraka og staða íbúa Íraks versnar frá því að Saddam ríkti, þá geta þeir búist við því að fá öll ríki heimsins gegn sér.