Enn um verkfallið - nýtt sjónarmið
Nú er kennaraverkfallið enn í öllum framhaldsskólum landsins, að Verslunarskóla Íslands. Mikið hefur verið rætt og ritað um afleiðingar verkfallsins, bæði fyrir nemendur og kennara. En ekki hefur verið mikið hugað að þeim sem nú eru í 10. bekk grunnskóla og þurfa að slást um hituna við alla þá sem ákveðið hafa að endurtaka önnina eða árið.
Í tíunda bekk fara margir unglingar að hugsa sér til hreyfings. Fólk er orðið langþreytt á grunnskólagöngu og iðar í skinninu yfir að fara loks að komast í framhaldsskóla. En nú lítur út fyrir að ekki munu allir sem vilja, komast að vegna hins margrómaða kennaraverkfalls. Eðlilega munu margir nemendur, þó einkum fólk á fyrsta ári, flosna upp úr námi og freista þess að endurtaka alla önnina eða jafnvel árið þegar við núverandi tíundubekkingar ættum undir venjulegum kringumstæðum að vera að hefja okkar menntaskólanám. Nógur er nú þrýstingurinn fyrir án þess að við þurfum ekki að vera að hafa áhyggjur af því að komast ef til vill ekki inn í þann menntaskóla sem við höfum,eftir mikla umhugsun, valið til að vera okkar viskubrunnur og athvarf næstu fjögur árin. Ef sú verður raunin munu margir eflaust ekki hafa þolinmæði í álagið og stressið sem fylgir slíkum aðstæðum og fara beint út á vinnumarkaðinn.
Ég veit ekki hvernig skólayfirvöld ætla að haga næsta ári þegar þeir geta augljóslega ekki tekið við öllum sem sækja um. Þó er það lagaleg skylda þeirra að veita öllum þeim sem vilja, æskilega menntun. Eflaust verður þetta strembinn tími á næstunni, margir lausir spottar til að hnýta og alls kyns hlutir sem hafa farið úrskeiðis og þarf að kippa í liðinn hið snarasta. Þessir hlutir eiga ekki eftir að hverfa. Skólayfirvöld eiga eftir að vera upptekin við að hnýta hnúta þangað til langt fram á næsta ár. Þetta verkfall er skömm og hneisa að íslenska ríkið skuli ekki sjá sóma sinn í að borga kennurum laun sem þeir geta lifað af. Kennarar eru jú þeir sem undirbúa æsku landsins undir lífsgönguna og að mínu mati er það mjög mikilvægt starf. Í mínum huga er enginn vafi; borgið kennurum það sem þeir setja upp því að tíminn er orðinn naumur og hver einasti dagur skiptir sköpum fyrir framtíð æsku landsins!
*Veela*