1. Opinberar byggingar.
Út um stofugluggan hjá mér get ég séð tvær all-mikilvægar stofnanir: Landsspítalann og Háskóla Íslands. Jæja, ég sé þetta ekki akkúrat núna, a.m.k. ekkert sérstaklega vel, því það er jú rigning og ekkert sérlega gott skyggni. Svo eru gluggarnir dálítið skítugir að utan, en ég er of lofthræddur til að þora að þrífa þá, svo ég verð bara að bíða eftir rigningu og hagstæðri átt.
En það var nú ekki það sem ég ætlaði að tala um, heldur hitt, hvað flestar byggingar þessara stofnana eru hræðilega ljótar. Aðalbygging HÍ er reyndar flott, og Landspítalans líka. Þetta er gamlar og reisulegar byggingar. Þótt ég geti ekki séð Alþingishúsið, þá þarf ég ekki annað en að loka augunum - og það er líka fallegt hús. Allt öðru máli gegnir hins vegar um viðbyggingarnar.
Þær eru einfaldlega ljótar. Það er ekkert flóknara en svo. Á Háskólasvæðinu tekur hvert skrýmslið við af öðru - og þetta Náttúrufræðihús toppar allt. Ég held að ég hafi ekki séð ljótari hús, nema ef vera skyldu reykvískar kirkjur austan Kringlumýrarbrautar og vestan Suðurbrautar (að Kristskirkju undanskilinni, auðvitað). Svipaða sögu má síðan segja af Landspítalasvæðinu. Ætli það sé ekki best að segja sem minnst um viðbygginguna við Alþingishúsið?
Hvernig væri nú að reyna að hafa þetta í sama stíl? Það ætti ekki að vera mikið mál að teikna nýbyggingar HÍ með hliðsjón af eldri teikningum og hafa þetta í svipuðum stíl, svo það sé einhver almennileg heildarmynd á þessu? Það mætti jafnvel taka það til athugunar að láta arkitektana teikna mun fleiri byggingar en stendur til að byggja - síðan getum við bara byggt eftir teikningunum eins og þarf. Þá höfum við heildarsvip, þá fær maður meiri fíling fyrir Háskólanum, Landspítalanum, Alþingi, og svo framvegis.
Já, og svo þurfum við almennilega arkitekta til að teikna húsin fyrir okkur. Sá sem teiknaði Náttúrufræðistofnun ætti að vera sviptur arkitektaréttindum og bannað að koma nálægt þessu starfi.
2. Egil Ólafsson sem forseta.
Já, er það ekki? Ég veit ekki til þess að hann hafi þetta í hyggju, en kannske getum við, ef við tökum okkur nógu mörg saman, send honum áskorunarbréf/undirskriftalista. Fimm þúsund manns hljóta að nægja.
Nei, í alvöru, hann yrði góður forseti. Þetta er kúl gaur og myndarlegur - ekki skemmir að hann er sköllóttur - með ferlega góða rödd og talar vel. Svo er hann svo fjallmyndarlegur. Hann hefur heldur ekki verið mikið að dandalast í pólitík, eftir því sem ég best veit. Hann fór kannske í framboð einu sinni eða tvisvar, en það skiptir varla nokkru. Gleymum ekki hve gríðarlega myndarlegur maðurinn er. Fólk myndi þá kannske nenna að horfa á ávörp forsetans - sjónvarpsstöðvar gætu margfaldað auglýsingatekjur í kringum þetta. Maður gæti jafnvel sungið ávarpið - ekki amalegt, ha? Kostirnir við Egil Ólafsson sem forseta eru einfaldlega of margir til að hægt sé að telja þá upp.
Svo gæti Logi Bergmann Eiðsson (sem vinur minn kallar aldrei annað en Loga KYNTRÖLL - með sérstakri áherslu á kyntröll) tekið við.
Fyrst forsetaembættið er bara punt, þá gætum við allt eins reynt að fá myndarlega karlmenn, sem kunna að tala vel og hafa þægilega rödd, til að gera þetta.
3. Fólk sem mætti taka að sér að fara í þagnar- og/eða söngbindindi þar til hætt verður við Kárahnjúkavirkjun; eða hún rifin, verði hún byggð.
Bubbi Morthens, Hreimur í L&S, Einar í Skítamóral, Björk, allir í Sigur Rós (sömuleiðis mega þeir fara í hljóðfæraleiksbindindi), allir sem starfa á PoppTíVí, ÓRG, Gísli Marteinn, íslenskir fréttamenn (a.m.k. langflestir - nema Logi, auðvitað! Kannske einn eða tveir í viðbót), Í Svörtum Fötum, allir á X-inu/Radíó X (e.t.v. fyrir utan Stjána stuð og einn-tvo aðra), friðarsinnar, stríðssinnar, stuðningsmenn Palestínu, stuðningsmenn Ísraels, þjóðernissinnar, and-þjóðernissinnar, þeir sem eru á móti virkjunum, þeir sem eru með virkjunum. Þetta er ekki tæmandi listi, öllum er frjálst að bæta við hann eftir lyst og geðþótta.
4. Kerfið hérna á huga.
Það má alveg skipta um kerfi mín vegna. Hérna eru a.m.k. þeir gallar sem ég sé hér sem eru ekki gallar á öðrum kerfum (sem eru þó auðvitað ekki lýtalaus):
(a) Maður getur ekki editað svörin sín. Stundum vill maður bæta einhverju við þegar maður er búinn að ýta á senda. Eina lausnin hér? Að svara aftur, bæta við svarfjölda og vera til almennra leiðinda.
(b) Greinum er raðað eftir dagsetningu. Það er grautfúlt. Það geta verið hörkuspennandi umræður í gangi, eða þá að það er einhver ferlega góð grein uppi; síðan kemur flóðbylgja af greinum og umræðurnar skolast í burtu. Það kemur ekkert nýtt og ferskt í umræðu sem er komin á síðu tvö. Ef greinar færu efst þegar þeim er svarað, þá kannske fengjum við lengri og áhugaverðari umræður.
© Stigin. Þetta er alveg óþolandi græja; sérstaklega þegar maður fær stig fyrir að skrá sig inn. Ég er núna með 3.112 stig - þau verða 3.122 verði greinin samþykkt - og af þessu eru um 2.6-700 stig fyrir innskráningu. Alveg út í hött.
Jæja, ég vona að þið getið fyrirgefið þetta röfl og að þið fattið hvenær ég er að gera að gamni mínu og hvenær ekki.
All we need is just a little patience.