Verði forseti að Íraksstríði loknu
Bandaríkjamenn hyggjast gera Ahmed Chalabi, leiðtoga Íraska þjóðarráðsins (INC), að bráðabirgðaforseta Íraks eftir að Saddam Hussein, forseta landsins, hefur verið rutt úr veginum. Chalabi, sem er 57 ára, er shíta-múslimi sem flúði Írak ásamt fjölskyldu sinni árið 1956. Hann er nú staddur í Kúrda-héruðunum í Norður-Írak og er sagður ætla að halda þar kyrru fyrir uns hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna er hafin.
Frá þessu er sagt í The Daily Telegraph en heimildarmaður blaðsins er háttsettur bandarískur embættismaður. Hann tók þó fram að engin formleg ákvörðun hefði verið tekin; slíkt væri ekki tímabært fyrr en hernaðaraðgerðum í Írak er lokið.
Gengið er út frá því að Tommy Franks, hershöfðingi í Bandaríkjaher, verði eiginlegur stjórnandi Íraks eftir að stríði lýkur en Bandaríkjamenn stefna að því að tilnefna Chalabi sem forseta til bráðabirgða; síðan staðfesti þing íraskra stjórnarandstæðinga, sem nú eru í útlegð, skipan hans. Yrði þetta sambærilegt við það er Hamid Karzai tók við völdum í Afganistan, eftir að talibanastjórnin í landinu hafði verið hrakin frá völdum.
Chalabi flúði Írak tólf ára, sem fyrr segir, oh gekk í barnaskóla í Bretlandi. Hann stundaði síðan nám við Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum og hefur doktorsgráðu í stærðfræði frá háskólanum í Chicago.
Íraska þjóðarráðið hefur bækistöðvar í London, en samtökin voru stofnuð 1992 og eru stærst samtaka íraskra útlaga. Árið 1996 gerðu samtökin tilraun til að efna til uppreisnar gegn Saddam í Kúrdahéruðum Íraks en áætlanir Chalabis fóru út um þúfur eftir að ljóst varð að Bandaríkjastjórn ætlaði ekki að styðja uppreisnarmennina. Saddam lét til skarar skríða gegn stjórnarandstæðingunum og hundruð manna féllu í aðgerðum forsetans.
——-
Er þetta ekki enn ein sönnunin á því að BNA ætlar sér að stjórna Írak eftir stríðið en ekki “frelsa” það?
Að þeir séu búnir að ákveða að gera Bandaríkjamenn að æðstu mönnum landsins, þó þeir hafi flúið frá Írak einhverntíma,í staðinn fyrir að leifa þjóðinni að kjósa sinn leiðtoga og hjálpa þeim við það.
Þeir létu Saddam fá stjórn Íraks, nú vill hann ekki gera það sem þeir vilja að hann geri, ráðast á Írak, losa sig við Saddam, og velja svo nýja stjórn sem gerir það sem þeir vilja.
Er þetta ekki soldið mikill yfirgangur?
FluGkiSan!!!