Þessi grein á eftir að fjalla e.t.v. um eitt flóknasta og mesta vandamál mannkynssögunnar, vandamáli sem við munum standa frammi fyrir eftir um 40 ár: HVAÐ MUN GERAST ÞEGAR OLÍAN KLÁRAST?


MIKILVÆGI OLÍU

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja, olían er án efa ein mikilvægasta auðlind jarðar ásamt drykkjarvatni og ræktanlegu jarðsvæði. Olían er álíka nauðsynleg hagkerfi heimsins og vatn er nauðsynlegt lífi.

Olían er auðlind sem endurnýjar sig ekki, þ.e. ekkert mun koma í stað þeirra olíu sem er dælt upp úr jörðu núna í dag. Þetta þýðir að einn daginn, eftir u.þ.b. 40-50 ár, mun olían klárast.

Olía er orka, og án orku er ekkert. Allur efnisheimurinn er í raun orka samkvæmt jöfnu Einsteins (e=mc²) er orka einnig efni og öfugt. Ég ætla ekkert að rökstyðja það frekar :) Frekar heimspekilegt mál.

Orka er það sem drífur bifreiðar okkar áfram, vélar, báta, flugvélar, sláttuvélar, vinnuvélar, og í allflestum löndum er olía notuð til að framleiða rafmagn sem nýtist síðan til húshitunar, fyrir tölvur, ljósaperur, ísskápinn, ofninn, eldavélina, útvarpið, sjónvarpið o.s.frv.

En auðvitað er olía ekki það eina sem gefur af sér orku, til eru vatnfallsvirkjarnir, kolaorkuver, sólarorkuver, kjarnaorkuver o.fl.
En þrátt fyrir það gefur olían um 40% af allri orku heimsins.


FRAMBOÐ OG EFTIRSPURN EFTIR OLÍU

Á hverju ári eykst eftirspurnin eftir olíu um 7%. Þetta þýðir að árið 2013 mun eftirspurn eftir olíu verða tvöfalt meiri en er í dag. Er þessi 7% tala reiknuð miðað við síðastliðin 10 ár, og þá er ekki tekið tillit til væntanlegrar iðnaðaruppsveiflu í Kína, Indlandi og fleiri löndum í Asíu. Eftirspurn eftir olíu þar mun aukast um tugi prósenta á næstu árum.

Ég hef lesið margar greinar um framtíð olíu sem orkugjafa, og hafa allar þessar greinar segja að olían muni klárast eftir um 40-50 eða 60 ár. Sumir segja að olían endist í um 100 ár í viðbót, en aðrir segja að hagkerfi heimsins munu byrja að finna fyrir olíuvandanum eftir um 10 ár, eða jafnvel á þessum áratug.
Allir eru þó sammála um eitt, miðað við áframhaldandi ástand mun olían klárast brátt og hagkerfi heimsins munu byrja að líða fyrir það.

En hvað þýðir það að olían muni klárast?
Þegar ég segi að olían muni klárast þá meina ég það ekki bókstaflega, olían mun ennþá verða til, en í minna magni. Erfiðara verður að nálgast olíuna þar sem hún er of langt niðri í jörðunni og of dreifð svo að hagkvæmt (miðað við núverandi tækni) er að ná henni upp.
Í stuttu máli sagt þá dælir enginn upp einni tunnu af olíu ef það kostar eina tunnu af olíu að ná henni upp, það er einfaldlega ekki hagkvæmt og ópraktískt.


“TÆKNIN LEYSIR VANDANN”

Margir loka augunum fyrir þessum vanda, segja að tæknin og vísindin muni finna lausn á þessu eða einfaldlega að þetta sé vandamál fyrir næstu kynslóð og maður verði einfaldlega dauður áður en þetta gerist. Þetta er náttúrulega fáránlegt að bregðast þannig við, en meirihluti fólks sem ég hef hitt og spurt um þetta mál segir að vísindin munu bjarga.

En það eru ekki margir sem vita að það eru vísindin sem eru í dag að æpa á umheiminn að það stefni í óefni. Ekki er enn búið að finna “raunhæfan” kost sem getur komið í stað olíu, og það verst er að til þess að samfélög heimsins nái að aðlaga sig breyttum orkugjafa þá þyrftu fyrstu bílarnir eða vélarnar sem knúnir eru algjörlega nýjum orkugjafa að koma á almennan markað núna Í DAG. Vísindamenn segja að það taki a.m.k. 70-100 ár fyrir umheiminn að hætta að nota olíu.

En hvaða leiðir eru til í dag? Margir hafa nefnt; vetni, metangas, vatn, sólarorku o.s.frv. Þetta eru allt sniðugar lausnir, en því miður eru ýmsir vankantar á þeim og allir ekki raunhæfir vegna mikillar tæknilegra örðuleika við að koma þessari tækni á almennan markað.

Vetni; sú lausn sem ég aðhyllist hvað mest að persónulega. Þetta er hrein orka, algengasta og einfaldasta frumefnið í alheiminum, og með þeim algengustu á jörðunni. En þetta er mjög dýr tækni, kostnaður við framleiðslu á t.d. vetnisbíl er of mikill og þarfnast einnig mikillar raforku til að framleiða sjálft vetnið.
Kannski raunhæfur kostur fyrir Ísland, en ekki annarsstaðar í heiminum þar sem rafmagnsskortur er víða. Auk þess er Ísland of lítill markaður fyrir vetnisbíla.

Kjarnorka; ég hef verið hrifinn af kjarnorku, ekki vegna þess að mér líkar áhættan við kjarnorkuslys eða geislavirkan úrgang, heldur vegna þess að kjarnorkan gefur gríðarmikla orku og í raun mengar ekkert. Vissuð þið að miklu fleiri hafa dáið vegna notkunar á kolum en vegna notkunar á kjarnorku í heiminum? En ég ætla ekki að vera sérstakur talsmaður fyrir kjarnorku, heimurinn hefur gert upp huga sinn varðandi þennan kost og því verður eflaust ekki breytt nema mikið komi til, en ég skil a.m.k. sjónarmið þeirra sem berjast gegn kjarnorku.


HVERT STEFNUM VIÐ Í DAG?

Því miður er grátlegt að horfa upp á heiminn í dag, Bush BNA forseti með gríðarmikið herlið á stærstu olíusvæðum heimsins. Svo eru auðvitað ákvarðanir Bush um að nýta kjarnorku og olíu meira en gert er í dag. Rússar og BNA menn keppast um að tryggja sér réttindi að olíuauðlindum við Kaspíahaf (sennilega síðustu stærstu olíuauðlindir heims), en talið er að mestöll sú olía fari til Asíu.

Lítið bólar á stórum uppgötvunum í orkumálum og engar byltingarkenndar hugmyndir eru í loftinu. Clinton forseti lagði mikla áherslu á vetnis-þróun þegar hann var við stjórnvölin en Bush virðist hafa meiri áhuga á olíu og kjarnorku.

Reyndar er ein ljósglæta í Ástralíu þar sem menn eru stórhuga og hyggjast byggja gríðarstórt sólarorkuver sem getur framleitt orku sem nægir til að knýja um 200.000 heimili. (Sjá: http://www.wentworth.nsw.gov.au/solartower/faq.asp) Reyndar er þetta mjög dýrt verkefni og áhættan mikil.

En það er víst, það stefnir í mikil átök í náinni framtíðinni á svæðum sem nú þegar ríkir mikill órói á, pólitískur og hernaðarlegur. Þá er ég að tala um mið-austurlönd, Írak, Íran, Sádi Arabíu, Pakistan, Indland, Egyptaland, Ísrael, Yemen, Oman, U.A.E., Afganistan, Palestínu o.s.frv. Einhver þessara ríkja á þessu svæði hafa komið sér upp kjarnorkuvopn, eða öðrum ógnarvopnum.

Vesturlönd lifa og falla með olíunni, Bandaríkin munu ekki standa aðgerðarlaus á meðan olían hættir að flæða til þeirra, þeir munu ýta á eftir framleiðslu því fyrir þeim skiptir mestu máli að halda uppi hagvexti, góðum efnahag og velmegun þjóðarinnar. Bandaríkin er heimsveldi sem gengur fyrir olíu, og ef það er engin olía þá er ekkert heimsveldi.




En ég vil ekki vera með neinar dómsdagsspár, heimurinn mun eflaust halda áfram sinni eðlilegu þróun og mannskepnan mun eflaust lifa af þær hremmingar sem munu koma upp.


Heimildir:
http://www.howstuffworks.com/hydr ogen-economy.htm
http://www.hubbertpeak.com/
http://w ww.eco-action.org/dt/oilfut.html