Ég hef aðeins fylgst með umræðunni um þessa virkjun undanfarið, en hafði reyndar ekkert fylgst með henni til að byrja með, vissi ekki einu sinni hvar Kárahnjúkar voru á landinu…en veit það núna.

Til að byrja með var hafði ég svosem lítið álit á þessu, var frekar hlynntur en andvígur. En núna hefur þetta snúist alveg við, ég er nú mjög andvígur öllum þessum áformum stjórnvalda með að byggja álver og stíflur.

Hef ég hlustað á marga virta menn í vísindasamfélaginu, t.d. prófessora hjá Háskóla Íslands, lýsa bolabrögðum ríkisstjórnarinnar, landsvirkjunnar og þeirra sem eiga að byggja þessi mannvirki í trássi við álit fagfólks um óhagkvæmni þessara virkjunnar og gífurlegan umhverfisskaða.

Fyrir utan umhverfisskaðann þá hef ég mestar áhyggjur af fjárhagslegu hliðinni, hvernig ábyrgðum er háttað og hagkvæmni þessara virkjunnar.

Margir segja að það sé nauðsynlegt að byggja þarna álver og virkjun, því Austurland muni annars leggjast í eyði. Ég segi bara við þetta fólk, “Get a life!”. Vill þetta fólk að börnin þeirra vinni í álveri? (með fullri virðingu fyrir þeim sem starfa í álveri) Ég efast um að margir vilji það.

Það er eins og ríkisstjórnin skilji ekki byggðavandann, hún heldur að það sé nóg að ráðast í eitt stórt mega-verkefni sem felur í sér gífurlega áhættu fyrir þjóðina alla til að leysa byggðavanda fyrir heilan landsfjórðung.

Einhverntímann mun þessi virkjun hætta að gera gagn (50-70 ár?) og hvar verða menn staddir þá? Á nákvæmlega sama stað! Nema hvað að þá verður enn meira atvinnuleysi þarna, börn þessa fólks ekki búið að mennta sig í neinu öðru en álbræðslu og flest atvinnustarfssemi þarna tengd áliðnaði. Þetta verður fljótt að leggjast í eyði þá, líkt og aðrir bæjir sem hafa byggst í kringum kolaiðnað eða aðrar verksmiðjur í öðrum löndum.



Ég las grein fyrir stuttu um hagkvæmni alþjóðlegu geimstöðvarinnar, frekar athyglisverð, en í henni var sagt frá því að landssamtök bandarískra vísindamanna töldu að geimstöðin væri algjör sóun á peningum því allur tími geimfaranna færi í að halda stöðinni í gangi, en ekki gera vísindalegar rannsóknir.

Þessi samtök lögðu fram þá spurningu; Hefði verið betra að mennta eina milljón vísindamanna á jörðinni en að búa til geimstöð sem ekki væri hægt að gera neina vísindalega rannsóknarvinnu, væri heimurinn betur staddur?

En sá kostnaður sem hefur farið í að byggja þessa geimstöð er álíka mikill og sá kostnaður sem felst í því að mennta eina milljón manna til vísindastarfa.


Miðað við allar þær tölur sem ég hef heyrt varðandi ábyrgðir, hvað þetta kostar o.s.frv. þá myndi ég telja það væri skynsamlegra, fyrir framtíðina, að fjárfesta í menntun fyrir þjóðina. Jú, hví?
- Menntun er tímalaus
- Fólk á sína menntun allt sitt líf
- Þeir sem mennta sig í dag, munu koma með til að mennta aðra á morgun (ungur nemur, gamall temur)
- Ekki er hægt að taka menntun frá fólk
- Menntun er ekki háð náttúrunni (náttúruhamfarir)
- Menntun nýtist íslensku þjóðinni
- Menntun styrkir atvinnulíf

Hvað varð um upplýsingasamfélagið? Hvað varð um stefnu stjórnvalda að búa til störf fyrir hámenntað fólk hér? Ég segi bara “bú” á stjórnvöld.