Mannanafnanefnd var víst stofnuð til að vernda sérstæði okkar í nafnamálum, og einhvern tíma voru rökin þau að foreldrar gætu ekki nefnd börn sín nöfnum sem þeim yrði gert grín að í skóla fyrir.
Ég ætla að byrja á fyrri hlutanum. Þjóðarstoltið.
Mér finnst það reyndar mjög jákvætt að ættarnöfn hafi ekki verið viðurkennd hérna, og er ég alveg hlynntur því að menn geti aðeins notað ættarnöfnin opinberlega sem næstseinasta nafn, því að mér þykir mjög vænt um þetta -son og -dóttir dæmi. Þetta finnst mér um Íslendinga, a.m.k..
Ég er ekki á sama máli hvað varðar innflytjendur. Nafn manns er hluti af því sem maður er, og mér finnst það verulega súrt að einhver alger minnihluti þjóðarninar sem vill svo til að er að krebera úr þjóðarstolti og egótrippi á Alþingi, ákveði sisvona að þennan hluta af manni skuli höggva.
Hvað ef ég færi nú til Bandaríkjanna, og allt í einu þarf ég að heita “Hairy” í staðinn fyrir “Helgi”? Yrði maður brjálaður? Ég held það nú. Við myndum gagnrýna Bandaríkjamenn alveg í klessu hérna megin, og þeir gagnrýna okkur ekki fyrir þetta einungis vegna þess að þeir vita ekki einu sinni allir að við séum til, en ef þeir vissu það og þetta, myndi þeim auðvitað finnast þetta fáránlegt, eins og ég gruna þorra Íslendinga um að finnast líka.
Þetta eru mannréttindi. Þetta er ekki eitthvað sem mér finnst nokkur ríkisstjórn hafa rétt á því að skipta sér af. Hvað ég heiti? Og við eigum að heita frjálst land? Hvernig getum við kallað þetta frjálst land þegar við ráðum því ekki einu sinni hvaða helvítis *stafir* eru notaðir í nöfnum barna okkar, og ef við erum innflytjendur, ekki einu sinni í okkar eigin nöfnum?
Og nú seinni hlutinn. Hæfni foreldra til að gefa börnum sínum góð nöfn.
Ég man eftir því þegar þessar reglur urðu að veruleika. Það var einhver pönkari sem átti konu sem var í hljómsveit sem hét hvað… Píka eða.. Á Túr eða eitthvað álíka. Semsagt, ekki upper-class fólk, a.m.k., og þetta annars eflaust ágæta par vildi nefna dóttur sína Villimey. En það mátti ekki.
Þá var gripið til þeirra röksemda að dótturinni yrði strítt í skóla vegna nafns síns.
Í fyrsta lagi: Hverslags djöfulsins vitleysa er það? Krökkum er strítt í skóla fyrir að vera fatlaðir, heimskir, feitir, leiðinlegir, illa lyktandi, illa til fara, hlustandi á ranga tónlist, spyrjandi kennarann hvort þeir megi fara fram til að kúka, labba undarlega, og svo framvegis og svo framvegis. *Nafnið* er í svona sirka… áttahundruðasta sæti á lista yfir hvað krakkar finna til að gera grín að. Maður getur alveg ímyndað sér línur eins og “Villimey? Ertu villt?”. Nú heiti ég Helgi og hef því oft fengið hið afar frumlega djók “Góða helgi, Helgi” og annað álíka. Þegar maður fær þetta er það ekki svona “Ónei, honum líkar illa við mig, ég ætla bara að hoppa út um glugga núna”, heldur meira svona… “Oh. Fann hann ekkert frumlegra en þetta, bölvaður álfurinn?”.
Annað er það að foreldrar sem eru með hanakamb og eru í hljómsveit sem heitir Píka eða Á Túr (ég man ekki hvort nafnið var lag eða hljómsveitin), og ákveða svo að nefna dóttur sína Villimey (sem mér finnst reyndar persónulega mjög töff nafn), eiga eftir að taka mikilvægari ákvarðanir í lífi sínu seinna hvað varðar uppeldi dótturinnar heldur en hvort hún heiti þetta eða hitt. Ef hún væri strákur myndi maður alveg skilja rökin, en þú'st… þett'er bara kjaftæði.
En svona… þegar á það er minnst er ágætt að fara út í annan punkt.
Bönnuð eru nöfn eins og “Villimey”. En leyfileg eru nöfn eins og Ljótur, Sturla og Lofthæna (án spaugs). Ljótum yrði strítt. Lofthænu DEFINATELY. Sturlu fræðilega vegna þess að það hljómar hlægilega og að það endar á “a” eins og við þekkjum annars einungis frá kvenmannsnöfnum, en Villimey? Þá erum við að tala um svona saklausan djók-punkt sem hvort sem er mjög ófrumlegur og hundleiðinlegur, in fact. Ekki fyndinn, og það er það sem krakkar gera grín að. Fyndnum og fáránlegum hlutum.
Svo á annað borð… hver nefnir barn sitt “Ljótur” eða “Lofthæna”, svo að það er hvort sem er óþarfi að banna þau nöfn.
Jæja, ég ætla að láta restina spinnast af svörum við þessu.