Mér finnst nú alltaf gaman þegar verður rafmagnslaust, ekki svo að skilja að ég gæti lifað af án rafmagns - það væri alger hörmung. En það er bara eitthvað við þessa stemmningu sem myndast þegar eina ljóstíran sem sést kemur frá kertum og það verður stjörnubjart í miðri höfuðborginni.
Rafmagnsleysi er hins vegar grafalvarlegt mál og ég tala nú ekki um ef það varir lengi og veldur því að RÚV dettur út í lengri tíma á stórum hluta landsins!
Svo skil ég ekki alveg þessa áráttu fólks að hlaupa í símann um leið og rafmagnið fer af. Á meðan á rafmagnsleysið varði voru stöðugar hringingar til neyðarlínunnar til þess eins að spyrja hvenær rafmagn kæmi aftur á. Eru Íslendingar almennt svona hrikalega vitlausir að halda að neyðarlínan sé einhver upplýsingasími?
Af hverju getur fólk ekki bara sest niður, kveikt á kertum og slappað af í upp undir hálftíma þegar rafmagnið fer af? Við vitum alveg að það kemur aftur, það hefur alltaf gert það og mun eflaust alltaf!