Það hlýtur að orka tvímælis að banna fullorðnu fólki að kaupa sér löglega vöru. Til þess að kaupa sér aðra bannvöru eins og sígarettur þurfa kaupendur að hafa náð ákveðnum aldri. En sígarettur eru seldar í verslunum og söluturnum um allan bæ.
Það hefur heldur alls ekki verið sannað að með því að selja áfengi í sérverslunum ÁTVR sé það tryggt að unglingar komist ekki yfir vöruna, ég er tiltölulega nýskriðinn yfir tvítugt og þekkir það vel af eigin raun.
Útibúum ÁTVR hefur fjölgað undanfarin ár og mér hefur heldur ekki verið sýnt fram á beinar sannanir þess efnis að bætt aðgengi hafi beint aukið neyslu áfengis.
Ég einhvernveginn stórefast um að ökumenn myndu frekar fá sér einn duglegan sjúss, standandi í biðröð í bónus frekar heldur en við svipaðar aðstæður í sérverslun ÁTVR.
Áfengisneysla landans hefur mikið verið að breytast undanfarin ár. Allt frá því bjórinn var leyfður hefur neysla hans á kostnað sterkra drykkja aukist jafnt og þétt og hafa léttvínin líka sótt mikið í sig veðrið. Þessi neyslubreyting landans sýnir aukinn þroska í meðferð áfengra drykkja. Hér áður fyrr var mun meira um það að fólk fékk sér vín í þeim eina tilgangi að verða drukkið. Þeir eru mun færri sem neyta mjög sterkra drykkja ánægjunnar vegna heldur en bjórs eða léttvíns. Neysla slíkra drykkja hefur þróast út í lífstíl margra íslendinga eins og fólk hefur lifað erlendis í áraraðir.
Aðgengi unglinga í áfengi í dag er auðvelt og má segja sem svo að sá sem ætli sér að komast yfir áfengi mun komast yfir það. Rétt eins og sá sem ætlar að kaupa sér sígarettur kemst yfir sígarettur. Ríkið getur ekki alltaf reynt að hafa vit fyrir fólki. Við búum ekki í kommúnistaríki og fólk á að getað valið sjálft hvort og hvenær það kaupir eða neytir vörunnar.
Og af hverju á ríkið að hagnast eitt á sölu áfengis þegar sýnt hefur verið fram á að einkarekinn rekstur skilar sér nær alltaf í lægra verði til neytenda.
Á mínum unglingsárum kynntist ég mjög ungur drykkju og þá fyrst eingöngu neyslu sterkra drykkja. Vinahópurinn var stór og mikið drukkið allar helgar og þá bara það sem hendi var næst hvort sem um heimabrugg eða smyglvarning var að ræða. Markmiðið var ávallt að verða drukkinn. Á tveggja ára tímabili var neyslan mjög mikil og þá eingöngu í formi sterkra drykkja því áhrifin skiluðu sér fyrr og vörðu lengur. Eina helgina gerist það síðan að bjór var það eina sem hægt var að komast yfir og eftir þessa helgi var ekki aftur snúið. Eftir þessa umræddu helgi hefur sterkt áfengi ekki farið inn fyrir varir mínar og neyslumynstrið hefur breyst gífurlega. Ég drekk áfengi í dag til þess að njóta þess, bæði með mat og í góðum hópi vina. Það að drekka áfengi til þess eins að verða drukkin þekki ég ekki lengur.
Eftir stendur samt sú staðreynd að neysla áfengis getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu einstaklingsins og þjóðarbúið þarf að standa straum af gríðarlega miklum kostnaði vegna sjúkdóma tengdum misnotkun áfengis. En hver er rétta leiðin til að verjast misnotkun á áfengi. Hefur ríkið rétt til þess að banna einstaklingi að misnota áfengi sé það hans vilji og ásetningur?
Forvarnir spila þarna algjört lykilhlutverk. Nokkrum fjármunum er í dag eitt í forvarnir en alls ekki nóg. Það hefur verið reiknað út að það sé hagkvæmara að eyða peningum í það að koma í veg fyrir að fólk byrji að reykja, fái beinþynningu, skemmi í sér tennurnar og misnoti áfengi en samanlagður umönnunarkostnaður þeirra villast af leið. Miðað við þá gríðarlegu fjármuni sem skila sér í ríkiskassann á hverju ári vegna sölu áfengis hljóma upphæðirnar sem eytt er í forvarnir eins og skiptimynt.
Þó ég sé hlynntur sölu áfengis í verslunum finnst mér að takmarki beri söluna við léttvín og bjór. Það verður að setja skýrar reglur um söluna til að tryggja að unglingar geti ekki keypt það. Það má t.d. hugsa sér að veitt væru sérstök leyfi og eftirlitsmenn myndu fylgjast með því að eftir réttum reglum væri farið. Hugsanlega mætti takmarka söluna við ákveðinn tíma sólahrings. Verslunareigendur yrðu líka að fylgja því eftir að afgreiðslufólk undir tvítugu mætti ekki afgreiða viðskiptavinina og mjög hart yrði tekið á brotum.
Það er nokkuð ljóst að ekki eru allir á eitt sáttir um þetta mál. En líklegt má telja að afstaða fólks ráðist að miklum hluta til hvort kemur sér betur fyrir það. Með breyttum lifnaðarháttum, upplýstari þjóðfélagi og auknum utanlandsferðum landans virðist sem fólk sé opnara og virðast fleiri í dag vera með en á móti. Samkvæmt öllum lýðræðishugmyndum ætti ríkisstjórnin að bregðast við því.
Breytum núverandi fyrirkomulagi !
In the future there will be no jobs