Kjánaleg fíkniefnaumræða ATH!
Þessi grein er tekin í óleyfi frá <a href="http://www.sigurfreyr.com“>sigurfreyr.com</a> en vegna áhugaverðar umræðu verður henni ekki eytt héðan.

Greinina má finna á réttum stað <a href=”http://www.sigurfreyr.com/fikniefnasirkusinn.html“>hérna</a>.

Á vanþekking almennings, gróðasjónarmið og hugleysi íslenskra stjórnmálamanna að ráða ferðinni í íslenskri fíkniefnapólitík?

Á Íslandi hefur vitræn umræða um ávana- og fíkniefni átt erfitt uppdráttar. Umfjöllun um fíkniefnamál hefur einkennst af upphrópunum og tímabundnu óðagoti einstakra félagasamtaka er vilja nota ótta almennings við fíkniefni sér til framdráttar og í fjáröflunarskyni. Fjölmiðlar, einkum dagblöð og tímarit, hafa sömuleiðis alið á vandlætingu og hneykslunar í garð ólöglegra vímugjafa og neytenda þeirra, enda æsifréttir hentug leið til að auka söluna.


Þegar hlustað er á forvarnarfulltrúa samtímans mætti halda að þeir hafi ekkert lært frá því á fjórða áratugnum. Hræðsluáróðurinn er sá sami.

Enginn munur hefur verið gerður á mismunandi tegundum ólögmætra fíkniefna. Öll eru þau flokkuð sem ,,eiturlyf” og neytendur þeirra úthrópaðir sem ,,eiturlyfjaneytendur“. Sjálft orðið ,,eiturlyf”, sem á sér enga samsvörun í öðrum tungumálum svo mér sé kunnugt um, sýnir í hnotskurn flónskuna sem ríkir í þessum málum hér á landi. Fyrri hlutinn ,,eitur“ stendur fyrir það sem deyðir en seinni hlutinn ,,lyf” það sem læknar eða líknar. Hugtakið ,,eiturlyf“ felur því í sér ósættanlega mótsögn enda orðskrípi sem þjónar engum tilgangi öðrum en að gera lítið úr þeim sem kjósa að neyta ólöglegra vímuefna.

*** Fíkniefnasala ríkisins ***

Sölumenn og innflutningsaðilar kannabisefna eru ósjaldan kallaðir ,,sölumenn dauðans”, þó öllum sem kynna sér þessi mál ætti að vera kunnugt að kannabis, ólíkt t.d. tóbaki og áfengi, veldur ekki banvænum eitrunum hjá mönnum. Hófleg neysla kannabisefna er ekki talinn heilsuspillandi. Kannabis er ekki líkamlega ávanabindandi, þolmyndun er lítil sem enginn og fráhvarfseinkenni gera ekki vart við sig þó neyslu sé hætt. Andleg fíkn getur að vísu myndast í verkun kannabisefna.

“Hugtakið ,,eiturlyf” felur í sér ósættanlega mótsögn enda orðskrípi sem þjónar engum tilgangi öðrum en að gera lítið úr þeim er kjósa að neyta ólöglegra vímuefna.“
Þótt sumir einstaklingar verði tilfinningalega háðir nautnum vímunnar veldur hófleg neysla ekki heilsuvanda eða þjóðfélagslegum skaða. Um þetta eru vísindamenn sammála. Það hlýtur því að teljast dæmalaus skinhelgi hjá íslenskum stjórnvöldum, að sekta og fangelsa fólk fyrir neyslu og innflutning á kannabisefnum, á sama tíma og þau halda dauðahaldi í einkasölu áfengis og tóbaks - sölu á fíkniefnum sem valda mun meira heilsutjóni og félagslegum skaða.

***Hræðsluáróður***

Fræðsluefni í forvarnarstarfi inniheldur nær undantekningarlaust rangfærslur um ólögleg fíkniefni, enda virðist tilgangurinn vera fyrst og fremst sá að reka áróður fyrir ákveðnum sjónarmiðum, fremur en að upplýsa fólk um verkun og afleiðingar fíkniefnanotkunar. Þannig hefur því verið haldið fram að þeir sem neyti kannabis ánetjist öðrum ,,ennþá” hættulegri vímugjöfum, svo sem kókaíni eða heróíni. Þessi staðhæfing er algjör firra og styðst ekki við neinar vísindalegar rannsóknir.

Engar lyfjafræðilegar og félagsfræðilegar rannsóknir, hvorki fyrr né síðar, hafa sýnt fram á að neysla kannabis leiði til notkunar sterkari efna. Í þessu sambandi verður jafnframt að gera skil á félagslegri notkun, þar sem neyslunni er stillt í hóf, og ávananotkun sem felur í sér reglubundna neyslu efnisins. Fíklar og hömluleysið sem einkennir neyslu þeirra gefa ekki rétta mynd af öllum þeim sem neyta ólöglegra fíkniefna. Ekki fremur en neysla áfengissjúklinga gefur rétta mynd af öllum þeim sem hafa vín um hönd.

“Engar lyfjafræðilegar og félagsfræðilegar rannsóknir, hvorki fyrr né síðar, hafa sýnt fram á að neysla kannabis leiði til notkunar sterkari efna.”
Af sama meiði er sú stefna að ýkja vandann. Gífuryrði á borð við ,,þjóðarböl“ og ,,eiturlyfjafaraldur” eru til þess eins að slá ryki í augu fólks og beina athyglinni frá aðkallandi vanda íslensks samfélags, svo sem vaxandi misskiptingu auðs, landflótta og atvinnuleysi. Í umræðu um fíkniefnamál verður að taka mið af traustum, vísindalegum heimildum.

Siðferðislegt mat, sleggjudómar eða óskhyggja á ekki heima í umfjöllun um jafn vandmeðfarin mál. Þegar til lengra tíma er litið þá geta misvísandi upplýsingar gert meira ógagn en gagn, jafnvel þótt markmiðið sé að hræða fólk frá því að prófa ólögleg fíkniefni.

Kveðja.

1til2