Eins og litlar stelpur að leika sér Í dag rifjaðist upp fyrir mér þegar ég varð vitni að því þegar litlar stelpur voru að leika sér og hvað gerðist þegar inn í hópin kom óvelkomin stelpa.
Ekki gekk að leyfa henni ekki að vera með þar sem það hefði kallað á skammir frá foreldrunum. Í staðin var brugðið á það ráð að breyta leikreglunum jafn óðum þannig sú óvelkomna lenti alltaf í versta hlutverkinu.
Að lokum fékk hún auðvitað leið á leiknum og hætti (að eigin frumkvæði).
Þetta er svo sem ekki frásögu færandi og ekki óalgengt að börn noti svona aðferðir.

En mér kom það svolítið á óvart þegar ég heyrði af því að sama aðferð væri notuð af leiðtogum NATO þjóðanna.
Forseti Úkraínu var óvelkominn á fundinum í Prag og því var reglum um sætaskipan breytt þannig að miðað var við stafrófsröð landanna á frönsku í stað ensku eins og hefur alltaf verið.
Þetta var gert svo að forsetinn fengi ekki að sitja hjá Blair og Bush eins og hann hefði átt að gera miðað við óbreyttar reglur.

Það er nú gaman að vita þroskastig leiðtoga öflugasta hernaðarbandalags heimsins.