Fyrri hluturinn sem langar að gera er að árétta þann greinilega útbreidda misskilning að það sé til eitthvað sem heiti að skaða aðeins sjálfan sig. Þessi misskilningur hefur dúkkað upp í umræðunni um hví fólk hafi ekki frelsi til að velja að reykja kannabisefni þar sem það sé með því aðeins að skaða sjálft sig. Einhversstaðar annarsstaðar var talað um hví maður mætti ekki gera þetta rétt einsog að berja sig í hausinn með steini. Rétt er að fólk geri sér grein fyrir því að með hvoru tveggja er verið að valda samfélaginu skaða, því samfélaginu ber skylda til að veita þegnum sínum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ég þekki ekki tölur, en ég þori að fullyrða að það eru háar fjárhæðir sem ég og þú, skattgreiðendur, verjum á hverju ári í að greiða heilbrigðisþjónustu sem veitt er við hinum ýmsustu sjálfsskaparvandamálum. Hugsum okkur því aðeins um áður en við segjum að það sé eitthvað til í raun og veru sem heitir að skaða aðeins sjálfan sig.
Hitt atriðið er heldur veigameira en það fyrra og snýr að þeim samfélagslegu breytingum sem lögleiðing kannabisefna gæti valdið. Þetta er þáttur sem ég heyri lítið ræddan, þar sem aðaláherslan er á umræður um rétt og skaða einstaklingsins. Hugsum okkur sem svo að kannabisefni yrðu lögleidd á Íslandi. Hvaða áhrif myndi það hafa á ímynd Íslands útávið. Er ekki hætt við því að Reykjavík fengi svipaðan “hassborgar” stimpil og Amsterdam. Ég er hræddur um að sökum smæðar sinnar gæti Reykjavík illa höndlað slíkan stimpil, þar sem erfitt er að láta slíka hluti hverfa í smáborgarandrúmsloftinu hérna á skerinu. Ég óttast að slíkur stimpill mundi hrinda af stað nýrri stefnu í ferðamannaflaumi til Reykjavíkur, ferðamannaflaumi sem ég er hræddur um að myndi óhjákvæmilega bera með sér óæskilegt fólk, og óæskilega strauma, langtum hættulegri og veigameira varnaðarefni en sakleysisleg löngun íslenskra unglinga til að fá að reykja hass.
v a r g u
(\_/)