Fíkniefnaheilaþvottur ATH!
Þessi grein er tekin í óleyfi frá <a href="http://www.sigurfreyr.com“>sigurfreyr.com</a> en vegna áhugaverðar umræðu verður henni ekki eytt héðan.

Greinina má finna á réttum stað <a href=”http://www.sigurfreyr.com/kannabis_ny_vidhorf.html“>hérna</a>


Sælir hugarar.

Undanfarin misseri hefur umræða á Vesturlöndum um ávana- og fíkniefni tekið töluverðum breytingum. Vaxandi efasemda hefur gætt um hvort að núverandi stefna í vímuefnamálum skili þeim árangri sem stefnt er að í baráttunni gegn notkun og útbreiðslu ólöglegra fíkniefna. Af þessu tilefni rifjar Guðmundur Sigurfreyr Jónasson upp sögu kannabisefna, en þau eru tvímælalaust það forboðna fíkniefni er nýtur hve mestra vinsælda hér á landi. Jafnframt er vikið að röksemdum þeirra er vilja róttæka endurskoðun á gildandi lögum um fíkniefni og á hvern hátt yfirvöld í ýmsum löndum hafa komið til móts við nýjar áherslur í fíkniefnavörnum.
Vímuefnanotkun og vandamál henni samfara hafa fylgt mannkyni frá upphafi siðmenningar. Frá öndverðu hafa menningarleg áhrif fíkniefna verið gífurleg, þar eð öldum saman hafa stór landsvæði verið notuð til hráefnaframleiðslu og heil héruð og jafnvel þjóðfélög treyst á fíkniefni sem lífsafkomu sína. Miklar fjárhæðir hafa verið notaðar til verkunar, dreifingar og sölu á vímugjöfum og til að skapa viðeigandi umhverfi til fíkniefnaneyslu. Skatttekjum ríkja af fíkniefnaframleiðslu og sölu þeirra er varið til alls frá heilbrigðisþjónustu til hergagnakaupa. Þannig hefur fíkniefnaneysla afgerandi áhrif á efnahag heimsins.

Ógerningur er að komast að því hvenær fíkniefnaneysla hófst en hana er þó hægt að rekja allt aftur til Súmera hinna fornu. Nú á dögum eru vímugjafar notaðir í nær öllum þjóðfélögum, svo búast má við að þeir uppfylli óskir er fyrirfinnast í þjóðfélaginu. Áhrif vímugjafa verða mikilvæg, því að þau leiða til ánægjukenndar og hjálpa mönnum að gleyma erfiði og gráma hverdagslífsins. Ólík samfélög og ólíkir menningarkimar innan sama samfélags geta hins vegar haft mismunandi skoðun á því hvaða fíkniefni séu æskileg og hvernig best er að ná framangreindum markmiðum.

Hér á landi eru flest geðhrifalyf, önnur en áfengi, tóbak og kaffi, litin hornauga af þorra manna. Neysla vímugjafa, er njóta ekki viðurkenningar löggjafans, getur haft í för með sér mannorðsmissi fyrir viðkomandi, fjársektir og jafnvel fangelsisdóm. Í sumum löndum araba er neysla hass hins vegar látin óáreitt, á meðan einstaklingar er neyta áfengis geta átt von á því að verða kaghýddir á opinberum vettvangi. Almenningur í þessum ríkjum hefur að sjálfsögðu ríka samúð með refsingum af þessu tagi, enda áfengi talið ,,hættulegt eiturlyf” sem sporna verður við með öllum tiltækum ráðum. Fólk fylgir yfirleitt ríkjandi viðmiðun samfélagsins en innan sérhvers samfélags myndast þó frávikshópar, sem gerast brotlegir við lög vegna þess að þeir kjósa önnur fíkniefni til að uppfylla þarfir sínar en þau sem lögboðin eru.

Kannabis - Hass og maríúana

Í hópi ólögmætra fíkniefna hefur kannabis mesta útbreiðslu. Upphaf kannabisneyslu er nokkuð á reiki. Fornleifar hafa fundist sem benda til þess að hampjurtin, cannabis sativa, hafi verið ræktuð til trefjaframleiðslu árið 8000 f.Kr. Fullvíst þykir að kannabis var notað til lækninga í Kína um það bil 3000 f.Kr. Þaðan barst kannabis til Indlands. Kannabisplantan var álitin heilög og notuð við trúarlegar athafnir er haldnar voru guðinum Shiva til dýrðar. Frá Indlandi dreifðist notkun kannabis til vestanverðrar Asíu, um ríki araba og lönd þeirra í Norður-Afríku. Hass er mulið, sigtað eða pressað úr kvoðu hampjurtarinnar en maríúana samanstendur af blómsprotum og þurrkuðum laufblöðum sömu jurtar. Kannabisefni má neyta á ýmsa vegu en áhrif þeirra koma fljótast í ljós, þegar þau eru reykt.

Neysla kannabis var mjög almenn í Arabíu og á Indlandi. Ekki voru allir jafn ánægðir með það. Árið 1378 e.Kr. lét emírinn Soudon Sheikouni þau boð út ganga að hver sá sem yrði staðinn að því að reykja hass skyldi tafarlaust vera handtekinn, settur í fangelsi og dregnar úr honum allar tennur. Þrátt fyrir þetta bann fór neysla hass ört vaxandi og árið 1395 féll hann frá þessari fyrirskipun.

Jafnvel þótt íbúar Evrópu hafi þekkt hampplöntuna öldum saman, því hún var ræktuð vegna trefja í stofni, og notuð til framleiðslu á netum, köðlum og reipum, var notkun hennar sem vímugjafa óþekkt fyrirbæri. Talið er að Evrópubúar hafi fyrst kynnst vímuvaldandi áhrifum kannabis þegar Napóleon Frakkakeisari gerði út herleiðangur til Egyptalands í lok átjándu aldar. Hass varð sérstaklega vinsælt hjá rithöfundum og skáldum í Evrópu á seinni hluta nítjándu aldar, og menn eins og Baudelaire, Gautier, Dumas og fleiri, stofnsettu í París klúbb sem nefndur var ,,Le Club de Hachischins“. Félagar hassistaklúbbsins komu saman til málsverðar og neyttu með matnum konfekt er innihélt mikið magn kannabis. Markmiðið með töku risastórra skammta var að kanna skynörvandi eða ,,psýkedelíska” verkun kannabis. Félagar klúbbsins greindu frá því hvernig gildi hassvímunnar mótaðist talsvert af umhverfi (verustaður, félagar o.fl.) og væntingum eða viðhorfum neytandans. Heimildir frá Bandaríkjunum benda til þess að neysla maríúana hafi fyrst orðið almenn í New Orleans árið 1910 og þá á meðal negra og djasstónlistarmanna.

Æsifréttir um maríúana

Andstaða gegn maríúana varð þegar mjög sterk meðal yfirvalda í Bandaríkjunum og árið 1911 lagði Bandaríkjastjórn til að neysla, framleiðsla og dreifing yrði bönnuð um heim allan. Hvorki gekk þó né rak í þeim efnum. Maríúana var yfirleitt skipað á bekk með lyfjum eins og ópíum, heróíni og kókaíni, og virtist baráttan gegn því einkennast af kynþáttafordómum. Tímarit birtu gjarnan myndir af kámugum svertingjum og mexíkönum í faðmlögum við hálfnaktar hvítar konur sem voru svo ofurseldar eitrinu að þær höfðu ekki önnur ráð en að selja yndisþokka sinn fyrir næsta skammti! Blöð Hearst pressunnar fluttu einnig mjög ítarlegar sögur um maríúana og sögðu til dæmis:

,,Ef hið ógnvænlega skrímsli Frankensteins stæði augliti til auglits við skrímslið maríúana myndi það detta niður dautt úr hræðslu … Heróín, kókaín, morfín, maríúana, ópíum, hvaða máli skiptir það hvað af þessu það er?“

Daglega birtu dagblöðin æsifréttir gegn hættum þess en við það efldist mjög áhugi almennings á maríúana og notkun þess varð sífellt algengari. Þingumræður urðu, þó ekki vegna vaxandi útbreiðslu, heldur aðallega vegna þess að lögregluskýrslur og tímarit héldu því fram að ,,flestir ofbeldisglæpir eru raktir til notenda maríúana”. Árið 1936 birtist í bandarísku vísindariti eftirfarandi klausa: ,,Maríúana veldur ýmiss konar einkennum hjá þeim, sem það nota, þar með talin ofsakæti, aðsvif, og kynferðisleg erting. Ef þess er neytt ásamt öðrum vímugjöfum (einkum áfengis) verður sá, er það gerir, ofbeldishneigður og vill slást og myrða.“

New York borg rannsakar áhrif maríúana

Árið 1938 var umræðan um neyslu kannabis orðin svo almenn að sumum þótti nóg um. Meðal þeirra var Fiorello H. LaGuardia, borgarstjóri New York borgar. Hann setti á fót þrjátíu og eins manna nefnd sem samanstóð af læknum, sálfræðingum, geðlæknum, lyfjafræðingum, efnafræðingum og þjóðfélagsfræðingum. Þessi nefnd starfaði í fullri samvinnu við lögreglu New York borgar, og voru m.a. sex lögregluþjónar sérstaklega þjálfaðir til að aðstoða hana við rannsóknir. Auk þess aðstoðuðu starfsmenn fangelsissjúkrahússins á Riker-eyju nefndina og hún fékk fullmannaða efnarannsóknarstofu til rannsókna. Árið 1944 birtust síðan niðurstöður þessara rannsókna. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru þessar:

Maríúana-neytendur koma ekki úr hópi forhertra glæpamanna og það fundust engin tengsl milli ofbeldisglæpa og maríúana. Þvert á móti neysla þess dregur úr árásarhneigð.

Neyslustaðir maríúana höfðu engin bein tengsl við hóruhús og maríúana hefur í sjálfu sér engin bein örvandi áhrif á kynhvötina.

Maríúana-reykingum er hægt að hætta fyrirvaralaust, án þess að andleg og líkamleg fráhvarfseinkenni komi fram, t.d. í líkingu við fráhvörf frá áfengisneyslu.

Það kom í ljós, að mjög stórir skammtar af maríúana trufluðu tímabundið skammtímaminni og einbeitingu einstaklinga.

Formaður nefndarinnar, dr. George B. Wallace, segir í niðurlagi skýrslunnar, að vísindamennirnir hafi ekki fundið neinar efnafræðilegar eða tölfræðilegar upplýsingar um að neysla kannabis leiddi til notkunar sterkari efna. Jafnframt kom fram að þeir sem reykt hafi að meðaltali um sjö maríúanavindlinga á degi hverjum í átta ár, hefðu ekki sýnt merki um andlega eða líkamlega hnignun sem rekja mætti til kannabisneyslu.

Hert viðurlög gegn maríúananeyslu

Ekki voru þó allir sammála niðurstöðum nefndarinnar og blaðagreinar sem kenndu maríúana um flesta hugsanlega glæpi blómstruðu. Harry S. Anslinger, yfirmaður alríkisfíkniefnalögreglunnar, sagði í einni af ævisögum sínum að ,,hin reikula þjóðfélagsfræði og læknisfræðilega kjaftæði skýrslunnar hafi aflað glæpamönnum margra milljóna dollara.” Bandarísku læknasamtökin tóku einnig fremur illa á móti skýrslunni og lýstu því yfir, að ,,yfirvöld gerðu betur í því að taka þessa óvísindalegu, gagnrýnislausu könnun ekki til greina“, og ,,halda áfram að líta á maríúana sem hættu, hvar sem það er að finna.” Þróunin varð síðan sú að andstæðingar kannabisneyslu urðu ofaná. Viðurlög við kannabisneyslu voru hert alls staðar í heiminum. Sem dæmi voru fangelsisdómar á bilinu frá tíu árum upp í lífstíðarfangelsi fyrir að vera með óverulegt magn af maríúana í fórum sér.



“Röksemdir fyrir lögleiðingu fíkniefna

Þeim sem vilja leyfa sölu ólöglegra vímugjafa hefur vaxið ásmegin síðustu misseri. Stuðningur og röksemdafærsla manna á borð við George Shultz, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Miltons Friedmans hagfræðings, Kurts Schmokes borgarstjóra, Roberts Sweets alríkisdómara og Dougs Bandows, fyrrum ráðgjafa Ronalds Reagans, hefur orðið til þess að sífellt fleiri hafa þorað að styðja þá stefnu að sala á fíkniefnum verði gefin frjáls.

Helstu rök þeirra sem vilja róttækar breytingar á fíkniefnalöggjöfinni eru þessi:

Refsiaðgerðir gegn fíkniefnaneyslu skerðir á ósæmilegan hátt frelsi fullorðinna til þess að neyta efna sem eru ekki skaðlegri en önnur sem nú fást löglega og fangelsar fólk fyrir athafnir sem, ólíkt öðrum glæpaverkum, skaðar ekki beinlínis aðra.

Að gera fíkniefnaneyslu að refsiverðu athæfi hefur ekki dregið verulega úr eftirspurn eftir ólöglegum vímugjöfum. Stór hluti almennings hefur neytt þeirra (rúmlega 20% Íslendinga á aldrinum 16 til 36 ára hafa sem dæmi reykt kannabis) og auðvelt er nálgast efnin fyrir þá sem á annað borð kæra sig um það.

Lögbann eykur hættuna af fíkniefnaneyslu með því að neyða neytendur til samneytis við glæpamenn sem versla með fíkniefni sem eru ekki aðeins óheyrilega dýr heldur einnig í vafasömum gæðaflokki.

Bann við neyslu og sölu fíkniefna skapar menningarkima sem hefur fjárhagslegan ávinning af núgildandi lögum í ávana- og fíkniefnamálum. Atvinnuinnflytjendur og dreifingaaðilar ólöglegra vímugjafa mynda oft á tíðum ríki í ríkinu. Lögleiðing fíkniefna og sala þeirra undir umsjón opinberra aðila myndi hnekkja veldi þeirra sem ráða fíkniefnamarkaðinum.

Ef opinberir aðilar önnuðust sölu fíkniefna væri hægt að skattleggja viðskiptin en fíkniefnasala er nú á dögum stærsta óskattlagða atvinnugreinin í heiminum. Skatttekjum af sölunni mætti síðan nota til þess að standa straum af endurhæfingu þeirra sem misnota efnin og öðrum kostnaði sem samfélagið ber af neyslunni.

Lítil sem engin hætta er á því að lögleiðing fíkniefna verði til þess að auka neyslu þeirra til frambúðar. Það sýndi sig í þeim fylkjum Bandaríkjanna sem leyfðu neyslu á maríúana á áttunda áratugnum að neyslan þar jókst hlutfallslega ekki meira en í þeim fylkjum þar sem efnið var ólöglegt. Í Hollandi þar sem sala kannabisefna er háð litlum takmörkunum hefur neysla efnanna, þvert ofan í allar væntingar, ýmist staðið í stað undanfarin ár eða farið minnkandi, einkum meðal ungs fólks. Í þessu sambandi er vert að benda á að kannanir á hassneyslu meðal skólanema í Reykjavík hafa sýnt að hún er engu minni hér á landi en hjá dönskum ungmennum í Kaupmannahöfn, sem hafa þó árum saman haft frjálsan aðgang að efnunum á fjórfalt lægra innkaupsverði.


Kannabis til lækninga


Fyrir skömmu fjallaði þýska tímaritið Geo um heilsubætandi áhrif kannabisefna í grein sem ber heitið ,,Hass er hollt”. Þar kemur fram að hass og maríúana hafi á undanförnum árum öðlast aukna viðurkenningu sem læknislyf. Rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla kannabis örvar framleiðslu hvítra blóðkorna og styrkir þannig ónæmiskerfi líkamans. Kannabis er nú notað með góðum árangri til að lina þjáningar þeirra sem þjást af tíðaverkjum, gláku og liðagigt. Einnig hefur það reynst vel sem læknislyf við mígreni, asthma og flogaveiki. Krabbameinssjúklingar og þeir sem þjást af eyðni nota sumir hverjir kannabis til þess að stemma stigu við aukaverkunum af völdum lyfja og geislameðferðar.

Breskir og bandarískir læknar gefa sjúklingum sínum efnafræðilega unnið tetrahydrókannabínól (THC) í töfluformi, en það er efnið sem einkum veldur líffræðilegri verkun kannabis. Hasspillurnar, sem nefnast nabilone og marinol, þykja vænlegri kostur en að rétta sjúklingunum hassmola yfir borðið. Aðrir kjósa fremur maríúanavindlinga, því þannig geta þeir sjálfir stjórnað magninu sem þeir innbyrða. Í slíkum tilvikum sér bandaríska ríkið þeim fyrir 300 maríúanavindlingum á mánuði, en innihald þeirra er ræktað á sérstaki kannabisekru ríkisins við Missisippi háskólann. Jocelyn Elders, fyrrum landlæknir Bandaríkjanna, mælir eindregið með því að maríúana fáist út á lyfseðla, því að hennar mati er ,,það til hagsbóta fyrir fjölmarga sjúklinga.“ Í Arizona og Kaliforníu voru nýlega samþykkt lög sem gerir fólki kleift að neyta maríúana sér til heilsubótar.



Ítarefni

1. Síðasta áratug voru kannabisefni um það bil 98% af því magni af ólöglegum ávana- og fíkniefnum sem fíkniefnadeild lögreglunnar lagði hald á. Stærsti hluti af þessu er hass eða hassolía, en maríúana er fremur sjaldgæft hér á landi. Eitt gramm af hassi kostar á bilinu 1500”-1“800 kr. og er það yfirleitt hitað upp, blandað tóbaki og reykt í pípu. Ógerlegt er að vita með vissu hversu margir Íslendingar reykja hass að staðaldri, en ljóst er, að séu umferðalagabrot og ef til vill skattsvik undanskilin, þá er kannabisneysla algengasta lögbrot á Íslandi.

2. Hér má sjá eitt hass-kaffihúsanna sem starfrækt eru í Hollandi. Pöntunarseðill kaffihússins sýnir verð á ýmsum vinsælum tegundum kannabisefna. Að sögn hollensku fíkniefnalögreglunnar er tilgangurinn með hass-kaffihúsunum að auðvelda fólki aðgang að kannabisefnum þannig að neytendur þeirra þurfi ekki að blanda geði við sölumenn og neytendur sterkari og hættulegri fíkniefna. Þessi tilraun hefur gefist vel. Glæpum tengdum fíkniefnaneyslu hefur fækkað. Einnig hefur dregið úr notkun og útbreiðslu sterkari vímuefna á borð við heróín.

3.Tíu vinsælustu ávana- og fíkniefni á Íslandi

1. Koffein (kaffi, kóladrykkir o.fl.) 2. Nikótín (tóbak) 3. Alkóhól 4. Róandi lyf og svefnlyf 5. Kannabisefni (hass, maríúana) 6. Örvandi lyf (amfetamín, kókaín, ritalin, efredin o.fl.) 7. E-pillan (alsæla, ,,ecstasy”) 8. Lýsergíð (L.S.D. ,,pappasýra“, skynvillusveppir) 9. Sterk verkjadeyfandi lyf (morfín, kódein, fortral) 10. Lífræn leysiefni

4. Bandaríski hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn, Milton Friedman, álítur að lögleiða beri allar gerðir forboðinna vímuefna. Í Bandaríkjunum hefur þessi stefna átt vaxandi gengi að fagna. Nýleg könnun á viðhorfum 450 dómara, saksóknara og ríkislögmanna leiddi t.d. í ljós að 95% þeirra líta svo á að endurskoða beri fíkniefnalöggjöfina með lögleiðingu í huga. Til þess að mótmæla núgildandi fíkniefnalögum hafa sjötíu og þrír alríkisdómarar beinlínis neitað að dæma í málum sem varða brot á fíkniefnalöggjöfinni.

5. Bob Marley var stórreykingamaður maríúana. Hann lést um aldur fram vegna lungnakrabba sem margir hyggja að rekja megi til þessa sérstaka hugðarefnis.

6. Á meðan sálhrifalyf af ýmsu tæi eru bönnuð græða dópsalar í öllum löndum á tá og fingri. Jorge Luís Ochoa, glæpaforingi Medellín-samsteypunnar fitnar eins og púkinn á fjósbitanum enda áætlað að tugir milljarða fari ár hvert um hendur hans vegna kókaínviðskipta.

7. Leit mannsins að unaðsreitum handan venjulegrar vökuvitundar gerir að verkum að hann hagnýtir sér það sem náttúran hefur upp á að bjóða í þeim efnum jafnvel þótt það hafi stundum meinlegar aukaverkanir í för með sér. Veiðimaður af ættbálki Yanonámi-indíána lætur félaga sinn blása í nös sér sveppaduft sem veldur öflugum ofskynjunum.

8. Undanfarin misseri hafa fréttir af svipuðum toga birst í dagblöðum víða um heim. Að sumra mati eru þær fyrirboði um breyttar áherslur í fíkniefnamálum.

9. Sjálfsmynd sem sýnir franska ljóðskáldið C.P. Baudelaire(1821-67) umvafinn hassreyk. Félagar hans í ,,Hassistaklúbbnum” voru meðal fyrstu Vesturlandabúa til að kanna hugbreytandi áhrif kannabisefna.

10. Í könnun sem Ómar H. Kristmundsson gerði árið 1984 á neyslu ólöglegra vímugjafa á Íslandi kom í ljós að flestir sem reynt hafa kannabis tilheyra hópi námsmanna, atvinnurekenda, yfirmanna og annarra launþega með sérfræðimenntun að baki. Þegar starfstétt þeirra sem fíkniefnalögreglan hefur haft afskipti af er skoðuð kemur hins vegar í ljós að þar eru aðallega um að ræða ungmenni, ófaglært verkafólk og atvinnulausir."

Kv. 1til2