Hin goðsagnakennda þýska tölvupoppsveit Kraftwerk heldur tónleika á Íslandi 3. maí næstkomandi. Tónleikarnir verða í íþróttahúsinu við Kaplakrika í Hafnarfirði.
Það er tónleikafyrirtækið Hr. Örlygur sem stendur fyrir komu sveitarinnar en að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins hefur það tekið ein fimm ár að fá sveitina til landsins.
Kraftwerk er brautryðjandi í gerð tónlistar með tölvum og telst til helstu áhrifavalda á sviði slíkrar tónlistar. Sveitin er hvað kunnust fyrir lagið „Das Model“ en einnig átti hún kynningarstefið fræga í sjónvarpsþættinum Nýjasta tækni og vísindi.
Tónleikar sveitarinnar á Íslandi eru hinir síðustu í þriggja mánaða ferð um Bandaríkin og Bretland þar sem sveitin hefur fylgt eftir plötunni Tour De France Soundtrack sem kom út í fyrra og var fyrsta plata sveitarinnar í sjö ár.
(Tekið af MBL.is)