Skoski tónlistarmaðurinn Hudson Mohawke er væntanlegur til landsins og mun leika á Breakbeat.is kvöldi á Jacobsen laugardaginn 26. september næstkomandi (allar nánari upplýsingar um viðburðin er að finna á www.breakbeat.is/hudmo).
Í grein þessari verður feril og tónlist Hud Mo gerð skil og stiklað á stóru í útgáfusögu þessa fjölhæfa tónlistarmanns sem á næstu vikum sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu hjá Warp útgáfufyrirtækinu víðfræga.
Hudson Mohawke heitir réttu nafni Ross Birchard og kemur frá Glasgow í Skotlandi. Á síðastliðnum árum hefur sprottið upp öflug raf- og danstónlistarsena í Glasgow sem gefur heimsfrægri rokkmenningu borgarinnar ekkert eftir. Auk Hudson Mohawke má telja til skoska listamenn á borð við Rustie, Mr Copy, Optimo og fleiri listamenn tengda hinni stórskemmtilegu Lucky Me útgáfu. Kumpánarnir semja og gefa út fjölbreytta en illskilgreinanlega raftónlist af ýmsu tagi og hafa komið með ferska strauma inn í stefnur sem farnar voru að stirðna og staðna. Tónlist Hudson Mohawke er sprottinn upp úr þessum frjósama jarðvegi en þessi hæfileikaríki listamaður hefur fengist við tónlist í einni eða annarri mynd allt frá blautu barnsbeini.
Á unga aldri lærði Birchard á trommur en þegar hann var ellefu ára komst hann yfir plötuspilara og mixer og var eftir það bitin plötusnúðabakteríu. Birchard þótti efnilegur skífuskankari og einungis 15 ára að aldri varð hann sigurvegari í bresku DMC plötusnúðakeppninni sem er ein sú virtasta í bransanum. “Auðvitað var þetta mikilvægur áfangi fyrir mig á þeim tíma” sagði Birchard í vitali við breska tímaritið Guardian, “en síðar meir varð ég þreyttur á þessum tæknilegu hliðum og sneri mér aftur að tónlistinni sem hlustandi.” Upp úr víðfemum tónlistaráhuga Birchard spratt svo ástríða fyrir tónsmíðum og tók hann upp listamannsnafnið Hudson Mohawke.
Í Glasgow starfaði Birchard með líkt þenkjandi tónlistarfólki í listamannshópnum Lucky Me, en í dag er rekinn plötuútgáfa og viðburðahald undir sama nafni. Lucky Me fjölskyldan er nú hluti af alþjóðlegri og lauslega skilgreindri tónlistarstefnu sem í breskum fjölmiðlum hefur verið kölluð wonky ( http://en.wikipedia.org/wiki/Wonky_(music) ). Tónlist þessi er sprottinn upp úr alþjóðlegri samsuðu tónlistarstefna og áhrifavalda, þ.a.m. dubstep, hip hop, crunk, g-funk og fleirra. Meðal tónlistar sem fellur undir þennan hatt má telja til sækadelískt hip hop Californíubúanna Flying Lotus og Samiyam, hljóðgerflasynfóníur dubsteptónlistarmannanna Joker, Guido og Gemmy og tilraunakennda raftónlistartóna Austurríkisbúans Dorian Concept.
Hið goðsagnakennda útgáfufyrirtæki Warp tók Hudson Mohawke upp á sína arma á síðasta ári og nú í haust er von á fyrstu breiðskífu Hudson Mohawke, sem hefur hlotið titilinn “Butter”, undir merkjum Warp. Tónlistin á “Butter” er einhvers konar blanda af sólríkri rnb og hip hop tónlist vesturstrandar Bandaríkjanna og reif og danstónlistararfleið Bretlandseyja og hafa tónar Hudson Mohawke heillað hina ólíkustu listamenn þ.a.m. Rihanna, Mars Volta Goldie, Sa Ra, Flying Lotus og Crookers. Áhrifamikil afrekaskrá fyrir ungan mann sem hóf tónsmíðar sínar í Playstation tölvu.
Á “Butter” vinnur Birchard með fjöldanum öllum af tónlistarmönnum og söngvurum, Los Angeles búinn Dam Funk leggur niður grúvið í laginu “Tell Me What You Want From Me”, Oliver Daysoul þenur raddböndin yfir neon skotna tóna Hud Mo í lögunum “I Just Decided” og “Joy Fantastic” og loks leggur Nadsroic ljúfa rödd sína við flæðið í “Allhot”.
Einn síns liðs birtist glöggt eyra Hudson Mohawke fyrir grípandi laglínum í lögunum “Gluetooth” og “Trykk” en “FUSE” og “Star Crackout” sýna ennfremur fjölbreytileika Mohawke sem tónlistarmanns og taktasmiðs. “Nafnið ”Butter“ var tilraun til þess að endurspegla hvernig ég samdi lögin á plötunni, mjúkara flæði þar sem grúvið rennur saman, eins og smjör fyrir hlustirnar ”segir Birchard. “Ég hef alltaf haft gaman af hip hop og rnb tónlist auk þess sem mikið af eldri rap músík og neðanjarðartónum heilluðu mig, þá hafði fyrsta reif tónlistin, jungle, techno og house líka mikil áhrif. Ég held að bakgrunnur minn sem plötusnúður og skífuskankari spili þar inn í en þar reynir maður að flétta saman strauma og stefnur í einn stíl”
En við hverju geta íslendingar búist þegar Hudson Mohawke stígur á stokk þann 26. september á Jacobsen? “Ég stefni alltaf að því að skapa gæsahúðar-augnablik í partýinu, mér finnst gaman að blanda mitt eigið efni við lög frá öllu litrófi tónlistarinnar, frá gamalli soul tónlist yfir í raftónlist, 80's og 90's hip hop, rnb og soul, techno og eiginlega hvað sem er.”
Breakbeat.is í samstarfi við Becks og Jacobsen kynnir:Hudson Mohawke á Jacobsen laugardaginn 26. september
Efri hæð - dubstep / hip hop:
Hudson Mohawke (Warp, Lucky Me | UK)
Kalli (Breakbeat.is | IS)
Ewok (Breakbeat.is | IS)
Kjallari - dnb / jungle:
Nintendj (IS)
Muted (MJazz, Influenza Media | IS)
26.09.09 | 23:59-06:00
1000 krónur í forsölu | 1500 krónur við hurð
Armband á tónlistarhátíðina Réttir veitir frían aðgang
www.breakbeat.is
Forsala hefst 12. september í Smekkleysu Plötubúð, Laugavegi 35
Armband á tónlistarhátíðina Réttir veitir frían aðgang
Allar nánari upplýsingar á www.breakbeat.is/hudmo