Techno.is kynnir hollenska undrið Noisia á Tunglinu þann 20. september næstkomandi. Noisia er hljómsveit sem samanstendur af þrem tónlistarmönnum: Nik Roos, Martjin van Sonderen og Thijs de Vlieger. Allir koma þeir frá bænum Groningen í Hollandi. Þeir hafa undanfarin ár verið í fararbroddi í Drum & Bass senu heimsins þó svo að nýlega hafa þeir einnig framleitt House og Breaks tónlist. Noisia hefur verið að halda klúbbakvöld útum allan heim og eiga þeir meðal annars tvær plötuútgáfur.
Ásamt Noisia dj settinu koma fram plötusnúðar Techno.is. Miðasala hefst á allra næstu dögum og verður miðaverði stillt í hóf. Verður þetat fyrsta kvöld Techno.is sem haldið er á Tunglinu. Hér á eftir fylgir stutt grein um Noisia og hvetjum við lesendur Techno.is til að kynna sér þessa sveit betur.
Meðlimir sveitarinnar kynntust í gegnum lítið Graffiti samfélag sem var í skólanum þeirra og í kringum 1998 kynntust Nik og Thijs. Stuttu eftir að þeir urðu vinir fóru þeir að gera tónlist saman. Þeir kynntust Drum & Bass í sameiningu og fljótlega eftir að þeir urðu sokknir inn í Drum & bass tónlistina, fóru þeir að fikta við hana sjálfir. Martjin hins vegar kom síðan nokkuð seinna inn í Noisia liðið en áður hafði hann framleitt Hiphop og var lærður píanóleikari.
Þegar strákarnir höfðu verið að semja tónlist nokkurt skeið, ákváðu þeir að nýta sér veraldarvefinn til að koma tónlist sinni á framfæri. Fyrsta lag Noisia sem fangaði athygli útgefanda, fannst einmitt á tónlistarspjallsvæði á veraldarvefnum, en það var plötuútgáfan hans Mayhem, Shadow Law Recordings sem veitti því athygli. Eftir að þetta gerðist fóru liðsmenn Noisia að spýta í lófana og metnaður þeirra til tónlistargerðar jókst til muna. Þeir tóku að fjárfesta af krafti í stúdíó búnaði og eyddu meiri tíma í tónsmíðar, “master-ingar” og fleira sem kom hlutunum í framkvæmd. Í febrúar 2003 var síðan lagið tilbúið sem átti að verða fyrsta útgefna lag Noisia, Tomahawk. Það lag var samið af Noisia og Mayhem og var ætlað til útgáfu á Nerve Recordings plötuútgáfunni hans Paul Reset. Einnig sömdu liðsmenn Noisia lag um það leiti sem ætlað var til útgáfu með Tomahawk,
það var lagið Silicon.
Silicon/Tomahawk var svo loksins gefin út í september 2003, fljótlega eftir það fór boltinn að rúlla og hefur ekki stoppað síðan.
Noisia hafa gefið út tónlist á öllum stóru Drum & Bass útgáfunum svo sem Subtitles (í eigu Teebee), Moving shadow (í eigu Rob Playford), Ram Records, Virus Recordings og Renegade Hardware. Þeir hafa unnið með stórum Drum & Bass tónlistarmönnum eins og Cause 4 Concern, Teebee, Phace, Black Sun Empire og Bad Company UK. Einnig hafa þeir remixað Drum & Bass smelli eins og Messiah með Konflict, Painkiller með Pendulum og síðan hafa þeir sjálfir verið remixaðir af tónlistarmönnum eins og Teebee og Matrix.
Noisia hafa einnig fengið gífurlega spilun á risa útvarpsstöðinni BBC Radio 1, t.d. Gutterpunk (Gutterpump eins og við Íslendingarnir þekkjum það).
Síðan var það enginn annar en íslandsvinurinn ROBBIE WILLIAMS sem sýndi áhuga sinn á að vinna með Noisia, bað Robbie Noisia um að remixa coverin sín af Manu Chao lögunum Bongo Bong og Je Ne T‘Aime Plus, sem Noisia breytti í hart og pumpandi House lag mun koma til með að verða gefið út hjá EMI útgáfuni. Breakbeat remix Noisia af Moby laginu Alice hefur vakið mikla lukku þá sérstaklega hjá Moby sjálfum.
Noisia eiga tvær plötuútgáfur: Vision Recordings & Division Recordings.
Vision er tileinkað dreifingu Drum & Bass tónsmíða þeirra og annarra listamanna eins og Teebee, Mayhem og MC Verse.
Systur útgáfa Vision er Division, sem er þeirra leið til að koma á framfæri tónsmíðum sínum í öðrum geirum danstónlistar, eins og hinu geysivinsæla Electro House og einnig Breaks.
Noisia vinnur nú að sinni fyrstu breiðskífu en í júní mánuði síðastliðnum kom út diskur frá þeim á Fabric útgáfunni (sem einnig halda uppi samnefndum skemmtistað í Lundúnum), og inniheldur sá diskur mikið af efni frá þeim sjálfum, en það vakti athygli fólks hversu mikið af ólíkum tónlistarstílum Noisia náði að spanna í þeirri syrpu.