Dj Grétar eða Sean Danke og Exos spila á nýja staðnum 7.9.13 við Klapparstíg föstudaginn 19.október. Byrja þeir kl:22.00 og verða til 03.00. Kapparnir ætla að vera fjölbreyttir og spila allskyns tónlistastefnur sem kenndar eru við danstónlist.

Techno.is tók viðtal við Dj Grétar á dögunum.

Grétar hefur af mörgum verið talinn guðfaðir danstónlistarinnar á Íslandi, enda hefur hann verið meira og minna viðriðinn senuna frá því hún hófst hér á landi í kringum árið 1990. En hvernig byrjaði þetta allt saman og hvað er Grétar að gera í dag?

Techno.is: Hvað fékk þig til að íhuga skífuþeytingar og hvað varð til þess að þú endaðir sem plötusnúður?

Grétar: Ég hafði alltaf mikinn áhuga á tónlist sem strákur og fékk svo tækifæri að spila á skólaballi 14 ára gamall og þá var ekki aftur snúið og maður fékk algjöra bakteríu.

Techno.is: Hvenær uppgötvaðir þú fyrst mátt plötuspilarans?

Gétar: Það var 1984 og þá var ég 14 ára gamall ,þá byrjaði ég nú ekki að spila á Technics 1200 ,kynnist Technics ári seinna og þá vildi maður ekki sjá aðrar
græjur.

Techno.is: Hvenær varstu farinn að móta þinn eigin stíl og hefur hann breyst í gegnum árin?

Grétar: Ég byrjaði sennilega að móta minn stíll í kringum 1990, hann hefur eiginlega alltaf verið tengdur house-tónlist en ég hef tekið margar hliðar beygjur, átti mitt techno tímabil og electro tímabil en enda samt yfirleitt í house-tónlist, hvort það sé prog-electro eða annað, spila yfirleitt það sem mér finnst skemmtilegt og ferskast á hverjum tíma.

Techno.is: Um þetta leiti er Tunglið vinsælasti skemmtistaður Reykjavíkur ásamt Rósenbergkjallaranum.
Hvaða plötusnúðar voru að koma framm á þessum stöðum og hvernig var dansmenningin ólík dagsins í dag?

Grétar: Það var einstök stemming í gangi á þessum tíma, erfitt að lýsa henni en það má segja að þetta hafi allt verið mjög ferskt á þessum tíma, nýjir straumar í gangi. Fyrsti erlendi plötusnúðinn sem ég man eftir að spilaði á Tunglinu var Paul Oakenfold sem var ekki stórstjarna þá þeim tíma, þetta var í kringum 1988, hann opnaði allavega fyrir mig nýja sýn á danstónlist þar sem hann hræði saman allskonar tónlist allt frá acid-house til indie-rokks. Auk mín þá voru Maggi Lego og Ýmir helstu íslensku plötursnúðar þessa tíma á Tunglinu og Rósenberg.

Techno.is: Þú hefur spilað með alveg heimsklassa plötusnúðum á borð við Sasha, Nick Warren, Sander Kleinenberg og Timo Maas til að nefna einhverja.
Var eitthvað af þessum kvöldum eftirminnilegra en önnur og gerðist eitthvað minnisstætt?

Grétar: Timo Maas var mjög minnisstæður vegna þess hversu Gaukurinn var troðinn og Sander Kleinenberg kvöldið á Gaukinn vegna þess hve tónlistin var frábær á því kvöldi og góð stemming. Svo skilar Sasha alltaf sínu og er frábær.

Techno.is: Þú fluttir til Glasgow í fyrra til að fara í skóla, hvað ertu að læra og hvernig gengur námið?

Grétar: Ég var að læra Audio Engineering í SAE og hef nýlokið við diploma nám sem tók eitt ár og var mjög skemmtilegt.

Techno.is: Hvernig líkar þér að búa í Glasgow?

Grétar: Mér líkaði mjög vel að búa í Glasgow, skotar eru mjög vingjarnlegir og ég eignaðist mjög góða vini þar á þessu ári sem ég bjó þar.

Techno.is: Þegar þú fluttir út þá seldir þú plötubúðina þína Þrumuna, einhver eftirsjá eftir henni?

Grétar: Já það var auðvitað eftirsjá í Þrumunni enda hef ég átti mjög góðann tíma þar en það var kominn tími á breytingar, mér finnst ekki gaman að vera í sama farinu árum saman.

Techno.is: Heldurðu að þú farir eitthvað aftur í plötubransann, þ.e. opnir nýja búð?

Grétar: Nei það held ég ekki, vill frekar vera á hinum endanum og vera að semja tónlist og gefa út tónlist.

Techno.is: Þú þróaðist meira yfir í að vera tónlistarmaður frekar en að vera plötusnúður á síðasta ári. Segðu okkur hvað þú ert búinn að gefa út mikið af efni og hvað er framundan í útgáfumálum Sean Danke.

Grétar: Það kom út plata með okkur Scheizer Goodman á útgáfufyrirtækinu Thugfucker í febrúar og svo höfum við Scheizer samið við annað plötufyrirtæki sem heitir Gung-Ho um útgáfu á 3ja laga EP plötu sem kemur út seint á árinu. Gung-Ho gefur út GusGus í UK. Gung-Ho hefur mikinn metnað og lagt mikla vinnu í þessa plötu og er um þessar munir að gera video fyrir eitt að lögunum á þessari plötu. Við höfum líka gert remix fyrir GusGus sem kom út á 12“ í maí. Það eru nokkur önnur remix í vinnslu og meðal annars kláruðum við nýlega remix fyrir Greg Churchill sem kemur út fljótlega á 12”.

Techno.is: Þú vinnur mikið með Scheizer Goodman, hvernig er samstarfinu háttað og við hvaða tól og tæki er notast við?

Grétar: Við Scheizer höfum átt gott samstarf núna í nokkur ár og við notum aðallega tónlistarforritið Cubase en höfum líka fiktað við önnur.

Techno.is: Lag eftir ykkur ,“Three Species” var valið á Global Underground Digitized 01 ásamt nookrum af heitustu nöfnunum í dansheiminum i dag, Roland Klinenbeg, Deadmau5 og Adam Freeland. Hvernig voru þið uppgötvaðir af Global Underground?

Grétar: Þetta lag er eitt af lögunum sem er að koma út á EP plötunni hjá Gung-Ho records, Global Underground uppgötvaði lagið í gengum Gung-Ho.

Techno.is: Er ætlunin að trylla íslenska dansmenningu sem aldrei fyrr nú þegar Dj Grétar G hefur snúið aftur til Íslands? Hvaða væntingar hefur þú til íslensku danssenunar?

Grétar: Já vonandi hefur maður orku og ánægju af því að spila tónlist fyrir danstónlistaráhugafólk á Íslandi í allmörg ár í viðbót og vonandi get ég eytt meiri tíma í framtíðinni í að semja tónlist, mér sýnist danstónlistar senan á íslandi standi vel eins og er og ég hlakka bara til að geta tryllt lýðinn áfram um ókomin ár.


Við þökkum Grétari alveg kærlega fyrir þetta og viljum benda á að hægt er að fylgjast nánar með Grétari og tónlistinni hans á : http://www.myspace.com/seandanke