Breakbeat.is hefur átt fastan sess á Iceland Airwaves hátíðinni frá upphafi og hafa þeir viðburðir sem Breakbeat.is kemur nálægt ávallt vakið mikla lukku. Nú í ár verður Breakbeat.is með tvö kvöld á hátíðinni, bæði haldin á Barnum, Laugavegi 22. Fyrra kvöldið verður helgað hinni ungu og fersku dubstep stefnu og fer fram miðvikudaginn 17. október, á fyrsta degi hátíðarinnar. Svo verður slegið upp “traditional” drum & bass tjútti kvöldið eftir, fimmtudaginn 18. október.
Gestirnir á dubstep kvöldinu eru alls ekki af verri endanum en þar munu koma fram þeir Mala og Sgt. Pokes. Mala er helmingur tónsmíðadúósins Digital Mystikz sem standa ásamt Loefah að plötuútgáfunni DMZ og samnefndum klúbbakvöldum. Digital
Mystikz er eitthvert stærsta nafnið innan dubstep-senunnar og teljast útgáfur þeirra félaga til merkustu og bestu tónsmíða þessarar stefnu sem er sífellt að þróast. Sgt. Pokes er einn vinsælasti MC-inn í senunni og hefur troðið upp á mörgum af stærstu viðburðum
hennar, s.s. á FWD kvöldunum, DMZ viðburðum og í hinni margfrægu Dubstep Warz útgáfu af Breezeblock þættinum á Radio 1 í Bretlandi sællar minningar.
Ásamt Airwaves er Breakbeat.is hér að brjóta blað í íslenskri danstónlist en þetta er í fyrsta sinn sem erlendir dubstep tónlistarmenn spila á íslenskri grundu, en örugglega ekki í síðasta sinn. Hér er einnig á ferðinni án efa eitt skemmtilegasta “actið” á hátíðinni í ár og eitthvað sem enginn ætti að missa af.
Í gegnum tíðina hafa drum & bass plötusnúðar og listamenn á borð við Doc Scott, High Contrast, Amit, DJ Storm og John B troðið upp á Breakbeat.is kvöldi Airwaves hátíðarinnar. Fimmtudaginn 18. október verður það hinn hollenski Martyn sem mun koma fram á efri hæðinni á Barnum.
Martyn hefur undanfarinn þrjú ár notið sívaxandi hylli í drum & bass heiminum með sínu einstaklega ferska og funky sándi og hefur gefið út lög hjá útgáfufyrirtækjum á borð við Soul:R, Play:Musik og Bassbin. Þá hefur hann einnig skapað sér nafn innan dubstep senunnar með tónsmíðum sem hafa komið út á Revolve:R og á Tempa Allstars seríu Tempa útgáfunnar. Auk þess hefur kauði ferðast um hnöttinn þveran og þeytt skífum m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Spáni, Þýskalandi og Írlandi.
Sala á aðgangsmiðum á Iceland Airwaves hátíðina er hafin og kostar miðinn 7900 kr. í forsölu, en einnig verður hægt að borga sig inn á þessa viðburði eina og sér fyrir þá sem kjósa það frekar.
www.icelandairwaves.com