Þeir/þær sem hlustuðu á Breakbeat.is þáttinn á X-inu 97.7 síðastliðið miðvikudagskvöld ættu að vita nú þegar að það er væntanlegur erlendur gestur til að spila á Breakbeat.is klúbbnum undir lok næsta mánaðar. Gesturinn sá er ekki af verri endanum, en það verður enginn annar en stuðboltinn, elektrófríkið og gamli Íslandsvinurinn John B, og mun hann spila fyrir dansi á skemmtistaðnum NASA föstudaginn 29. september næstkomandi.
John B. Williams er án nokkurs vafa ein af skærari og litríkari stjörnum drum'n'bass senunnar. Nú nýverið kom út hvorki meira né minna en hans sjötta breiðskífa, Electrostep, og hreppti hún einmitt toppsæti lista Breakbeat.is fyrir ágústmánuð. John B á sjálfur og rekur útgáfuna Beta Recordings, auk þess sem hann hefur gefið út á flestum af stærstu útgáfunum í bransanum, eins og Metalheadz, Hospital, Renegade Hardware, Formation og víðar. Einnig hefur hann remixað kappa á borð við Mos Def & Pharoahe Monch, Adam F & Guru, Marilyn Manson, Nine Inch Nails, Fresh, High Contrast og ótal fleiri.
Ásamt John B munu að sjálfsögðu koma fram fastasnúðar Breakbeat.is, þeir Kalli og Gunni Ewok. Húsið opnar klukkan 23.00 og kvöldið mun byrjar enginn annar en Aggi Agzilla með sérstöku downtempo-setti. Það er eitthvað sem mælum sérstaklega með, enda er Aggi að gera ótrúlega mikið af fjölbreyttri og skemmtilegri tónlist um þessar mundir. Forsala hefst innan skamms, og mun hún fara fram í Smekkleysubúðinni á Klapparstíg og í 12 Tónum á Skólavörðustíg. Miðaverð i forsölu er einungis 1000 krónur, og 1500 krónur við hurð á kvöldinu sjálfu.