Föstudaginn 20. janúar næstkomandi heldur Breakbeat.is sérstakt árslistakvöld tileinkað nýliðnu ári í þriðja sinn, nú á skemmtistaðnum glæsilega NASA. Sérstakur heiðursgestur kvöldsins verður Paul nokkur Harding, betur þekktur sem El Hornet og enn betur þekktur sem þriðjungur áströlsku ofurgrúppunnar Pendulum.
Pendulum eru án nokkur vafa eitt heitasta og stærsta afsprengi drum'n'bass tónlistarsenunnar fyrr og síðar. Þeim skaut upp á stjörnuhimininn með laginu “Vault” (topplagi árslista Breakbeat.is fyrir árið 2003) og síðan þá hefur leiðin einungis legið upp á við. Útgáfur á 31 Records, Renegade Hardware, Breakbeat Kaos og víðar hafa selst eins og heitar lummur sem og remix af kempum eins og Ed Rush & Optical, söngkonunni Jem og síðast en ekki síst af gamla Prodigy slagaranum “Voodoo People”, sem hefur verið í gríðarlegri spilun á X-inu 97.7 síðastliðna mánuði. Pendulum gáfu út sína fyrstu breiðskífu, “Hold Your Colour”, í haust og hefur hún hlotið mikið lof í tónlistarpressunni um víða veröld.
Árslisti Breakbeat.is verður að vanda í beinni útsendingu á X-inu. Útsending frá NASA hefst kl. 22.00 og lýkur henni síðan með topplaginu um eittleytið. Síðar um nóttina tekur El Hornet við spilurunum og gerir án nokkurs vafa allt vitlaust!