
Pendulum eru án nokkur vafa eitt heitasta og stærsta afsprengi drum'n'bass tónlistarsenunnar fyrr og síðar. Þeim skaut upp á stjörnuhimininn með laginu “Vault” (topplagi árslista Breakbeat.is fyrir árið 2003) og síðan þá hefur leiðin einungis legið upp á við. Útgáfur á 31 Records, Renegade Hardware, Breakbeat Kaos og víðar hafa selst eins og heitar lummur sem og remix af kempum eins og Ed Rush & Optical, söngkonunni Jem og síðast en ekki síst af gamla Prodigy slagaranum “Voodoo People”, sem hefur verið í gríðarlegri spilun á X-inu 97.7 síðastliðna mánuði. Pendulum gáfu út sína fyrstu breiðskífu, “Hold Your Colour”, í haust og hefur hún hlotið mikið lof í tónlistarpressunni um víða veröld.
Árslisti Breakbeat.is verður að vanda í beinni útsendingu á X-inu. Útsending frá NASA hefst kl. 22.00 og lýkur henni síðan með topplaginu um eittleytið. Síðar um nóttina tekur El Hornet við spilurunum og gerir án nokkurs vafa allt vitlaust!