Breakbeat.is kynnir: Marcus Intalex á Gauknum á gamlárskvöld Eftir að hafa pínt lesendur í þó nokkurn tíma er kominn tími til að ljóstra upp hver verður aðalplötusnúður kvöldsins á gamlárstjútti Breakbeat.is á Gauknum. Það verður enginn annar en Manchester-búinn Marcus Intalex sem mun sjá um að fagna nýja árinu með stæl. Þetta verður ekki fyrsta Íslandsheimsókn kappans, því hann spilaði í 1 árs afmæli Tækni á Café 22 í október árið 2000.

Marcus Intalex, sem heitir í raun Marcus Kaye, hefur verið nokkuð lengi í bransanum. Hann er hvað þekktastur fyrir samstarf sitt við hinn “dularfullla” ST Files og saman hafa þeir gert hvern stórslagarann á fætur öðrum, má þar til dæmis nefna hin stórkostlegu lög “How You Make Me Feel” og “Lose Control”. Marcus Intalex & ST files eiga saman og reka hinar stórgóðu plötuútgáfur Soul:R og Revolve:R. Marcus hefur einnig unnið með tónlistarmönnum á borð við High Contrast (hver man ekki eftir slagaranum “3 AM”?), D.Kay og Klute og hefur remixað kempur eins og Goldie, MJ Cole og Un-Cut.

Marcus Intalex og Breakbeat.is gengið munu sjá um fjörið á aðalhæð Gauksins en þar með er ekki öll sagan sögð. Í kjallaranum verður boðið upp á öðruvísi tóna þar sem nokkurn veginn allt fær að flakka. Þjóðhetjurnar Ozy og Earl Mondeyano (úr TZMP) munu verða þar við stjórnvölinn og lofa þeir gríðarlegri stemningu.

Húsið verður opnað kl. 00.45 eftir miðnætti. Miðaverði verður að vanda stillt í hóf, einungis 1000 krónur til kl. 3 og 1500 krónur eftir. Forsala mun fara í Þrumunni, Laugavegi 69 og verða veittar nánari upplýsingar um hana síðar.