Cream - Thomsen ! Fyrsti Cream viðburðurinn af þeim fimm sem fram fara á næturklúbbnum Thomsen í sumar verður föstudagskvöldið 11. maí. Á þessu opnunarkvöldi Cream á Íslandi verður mikið um dýrðir. Að kvöldinu koma ýmsir aðilar frá hinni alþjóðlegu Cream samsteypu sem eru sérfræðingar í að skemmta fólki, allt frá ljósamönnum yfir í heimsfræga plötusnúða, enda setur Cream stranga gæðastaðla í skemmtanahaldi sínu.

Fyrir þá sem ekki vita er Cream eitt stærsta apparatið í næturklúbbamenningu heimsins. Vörumerkið er heimsþekkt fyrir skemmtanahald og ýmsu sem því viðkemur; eins og geisladiskaútgáfu og fatasölu. Á Cream kvöldum verður allt að vera eins og best er á kosið hvað varðar hljóð, ljós, starfsfólk, skreytingar og plötusnúða. Að sögn aðstandenda Thomsen þurfti staðurinn uppfylla ýmis skilyrði til að geta haldið almennilegt Cream kvöld í sínum húsakynnum.

Cream ævintýrið byrjaði sem einn næturklúbbur í Liverpool í Englandi, en í dag er Cream orðið allt annað og meira. Reglulega eru haldin risastór Cream partý í öllum heimsálfum m.a. á Ibiza, Bandaríkjunum, Japan og um allar Bretlandseyjar og svo stendru Cream fyrir einni stærstu danshátíð jarðkringlunnar ár hvert; Creamfields. Cream stefnir á að halda partý á Thomsen annað hvert föstudagskvöld hvers mánaðar fram í september. Kvöldin eru haldin í samvinnu við útvarpsstöðina FM 95,7.

Á fyrsta Cream viðburðinum í Reykjavík koma fram bresku plötusnúðanir Paul Beasdale, sem er fasta-plötusnúður á Cream, og Jan Carbon , sem spilar mikið með ofursnúðinum Sasha. Einnig koma fram íslensku snúðarnir Árni Einar og DJ Sidekick. Húsið opnar klukkan 23:00, miðaverð er 1.000 krónur fyrir klukkan 01:00 - en annars 1.500 krónur. Aldurstakmarkið er 21 ár. Gestalisti og tBar kort gilda ekki!!