Punktar um Prodigy tónleikana…
Föstudaginn 15. október mun hljómsveitin The Prodigy halda tónleika í Laugardagshöll. Miðaverð er 3.900 í stæði og 5.500 í stúku. Miðasala hefst mánudaginn 20. september klukkan 10.00 á öllum Nestistöðvum Esso á höfuðborgarsvæðinu og eftirfarandi sölustöðum Esso: Akureyri-Leiruvegi, Selfossi, Akranesi og Keflavík.
Til þess að koma fólki í rétta gírinn fyrir tónleikana mun hljómsveitin Quarashi mæta og hita upp lýðinn. Quarashi eru einmitt að gefa út nýja plötu titlaða “Gorilla Disco” 14. október, degi fyrir tónleika The Prodigy þannig að þetta eru svo til útgáfutónleikar þeirra drengja.
The Prodigy munu hefja tónleikaferð sína um Evrópu hér á landi til að kynna nýjustu plötu sína Always Outnumbered, Never Outgunned sem hefur verið að toppa vinsældarlista um allan heim. Þá má nefna að uppselt er nú þegar á nær alla tónleika The Prodigy fram yfir áramót.
The Prodigy munu mæta með glænýtt “show” í farteskinu en með Keith Flint, Maxim Reality og Liam Howlett mæta trommuleikari og gítarleikari til þess að gæða tónleikana meira lífi.