Breakbeat.is kynnir: DJ Bailey 23. apríl á Kapital Um þessar mundir fagnar Breakbeat.is 4 ára afmæli sínu. Ákveðið var að hafa afmælið sem veglegast og því var haft samband við einn alfærasta plötusnúð senunnar. DJ Bailey hefur verið lengi að en frægðarsól hans hefur risið hraðast síðustu árin. Hann er þó nýbyrjaður að semja tónlist að einhverju leyti sjálfur og hefur nýverið komið sinni eigin plötuútgáfu á laggirnar. Fræðumst meira um London-búann með síðu flétturnar.

Ástríða Michael Bailey liggur fyrst og fremst í því að vera sá besti. Hann lifir 100% á plötusnúðastarfinu og plötusafn hans spannar allt frá gömlu electro til þess nýjasta í dag. Fyrstu straumhvörfin í tónlistarsmekk Bailey urðu fyrir 20 árum síðan þegar hann fékk í hendurnar hiphop og electro spólur þá 11 ára gamall. Taktarnir og skratsið sem hann heyrði á spólunum og breikdansinn sem hann sá svo víða færði hann inn í menninguna í kringum 1982. Suðurhluti London var stútfullur af skemmtistöðum á þessum tíma og Bailey byrjaði að spila á einu á house-kvöldunum og gerði einnig mixtape. Hann varð fyrir miklum áhrifum frá tónlist seinni hluta níunda áratugarins, acid house, Detroit techno og hardcore og það voru breakbeat-elementin í hardcorinu sem færðu Bailey inn í drum'n'bass tónlistina.

Orðspor Bailey jókst stöðugt þar sem hann spilaði mikið á ólöglegum útvarpsstöðvum og í gegnum eina slíka kynntist hann goðsögnunum Kemistry og Storm. Storm, sem að spilaði eftirminnilega á Airwaves-hátiðinni árið 2003, bauð honum að vera partur af Metalheadz klúbbakvöldunum goðsagnakenndu. Hann er enn fastasnúður hjá Metalheadz og einnig á Creative Source kvöldunum “Swerve” og “DFX” í suðurhluta London.

Árið 2002 fékk Bailey sinn eigin útvarpsþátt, Intabeats, á BBC-rásinni 1xtra. Þátturinn sem er í loftinu öll sunnudagskvöld milli 11 og 1 hefur verið óhemju farsæll og var kjörinn besti drum'n'bass þátturinn á Knowledge-verðlaunahátíðinni 2003 þar sem hann skaut köppum eins og L Double, Fabio og Grooverider ref fyrir rass.

Ólíkt langflestum í senunni þá varð Bailey ekki þekktur sem plötusnúður vegna tónsmíða. Hann hefur gert syrpur fyrir Knowledge, Lowdown Magazine, Ministry of Sound útvarpsstöðina, France's Black Label með MC GQ fyrir Sony Music og mixdiskinn Soul Thunder fyrir ameríska útgáfurisann Breakbeat Science. Bailey er eins og áður sagði einn örfárra drum'n'bass plötusnúða sem að skapaði sér nafn án þess að hafa gefið út tónlist sjálfur og segir það meira en mörg orð um hversu hæfileikaríkur snúður hann er. Hæfileikar hans hafa fært honum það sem alla plötusnúða dreymir um - frægð og það sem meira er, virðingu. Bailey hefur spilað um allan heim, á stöðum eins og Suður-Afríku, Ástralíu, Nýja Sjálandi, og mjög víða í Bandaríkjunum og Evrópu.

Fyrir stuttu kom út endurhljóðblöndun sem Bailey gerði af lagi fyrir Roni Size á útgáfufyrirtæki þess síðarnefnda, Full Cycle. Þetta remix varð nokkurn veginn til fyrir tilviljun því að Bailey ætlaði að fá að fá lag á dubplate hjá Full Cycle en fékk í staðinn sent öll sömplin úr laginu ásamt leiðbeingum um hvernig ætti að endurhljóðblanda. Bailey ákvað því að slá til og afraksturinn kom það vel út að hann var fenginn til að skrifa undir samning við útgáfufyrirtækið.

Eitt af nýjustu verkefnum Bailey er “Intasound”, hans eigið útgáfufyrirtæki sem hann notar ekki til að græða pening með því að fá alla frægu vini sína til að gefa út heldur til að gefa óþekktum, hæfileikaríkum listamönnum tækifæri til að gefa útvíkka tónlistina enn frekar eins og Íslendingar eiga eftir að fá að kynnast á Kapital föstudaginn 23. apríl næstkomandi.