Þá er það orðið opinbert að Breakbeat.is mun standa fyrir áramótatjútti í fyrsta og örugglega ekki síðasta sinn. Reyndar stóð gamla góða Skýjum Ofar fyrir mögnuðu áramótatjútti í ónefndu flugskýli fyrir nokkrum árum síðan en út í það skal ekki farið hér. Gleðin mun að sjálfsögðu fara fram á hinum nýja og glæsilega heimavelli Breakbeat.is, skemmtistaðnum Kapital.
Aðalnúmer kvöldins er aldeilils ekki af verri endanum en það er enginn annar en skoski harðhausinn Kemal Okan. Kemal, sem er einn þekktasti listamaður drum'n'bass senunnar, er sennilega hvað alræmdastur fyrir samstarf sitt með Rob Data. Saman gáfu þeir út hvert stórlagið á fætur öðru og vöktu mikla athygli innan drum & bass heimsins fyrir nýstárlegar lagasmíðar og einstakan hljóm.
Árið 2001 ákvað Rob Data að slíta samstarfinu við Kemal, segja skilið við tónlistina og klára skólagöngu sína. Eftir þá félaga liggja stórlög eins og “Messiah”, “Gene Sequence”, “Re-Animation”, “Maelstrom”, “Roadblock” og “The Beckoning” en það lag kom meðal annars út á einni allra mest seldu drum'n'bass plötu landsins fyrr og síðar, “Armageddon.”
Kemal hefur síðan þá haldið ótrauður áfram að gefa út lög einn síns liðs ásamt því að reka plötuútgáfur sínar, Negative og Cryptic Audio. Einnig hefur hann unnið með listamönnum eins og Technical Itch og Dom & Roland og endurhljóðblandað lög eftir Dylan, Trace, Black Sun Empire, Concord Dawn, Bulletproof og fleiri.
Kemal mun spila á efri hæð Kapital á gamlárskvöld ásamt fastasnúðum Breakbeat.is en fjölbreytnin verður í hávegum höfð þetta kvöld. Neðri hæð staðarins verður opin allt kvöldið þar sem áherslan verður lögð á house & grooves. Gæðasnúðarnir Bjössi Brunahani, DJ Ingvi og Gunni Ewok munu halda uppi stemingunni þar.
Húsið opnar kl. 1 eftir miðnætti og munu allir gestir fá kampavínsglas í boði hússins. Miðaverð er litlar 1000 krónur til kl. 4 og 1500 kr. eftir það. Þetta er eitthvað sem enginn maður má missa af, mætum snemma og fögnum nýja árinu með stæl!