Fimmtudaginn 10. apríl fá dansþyrstir drum & bass aðdáendur tækifæri til að sletta úr klaufunum þegar breski plötusnúðurinn og tónlistarmaðurinn Tom Withers, betur þekktur sem Klute, spilar á Astró. Klute ætti að vera danstónlistarunnendum vel kunnur, hann hefur tvívegis áður sótt Ísland heim (1999 og 2002) og sem tónlistarmaður hefur hann gefið út hjá flestum stærri útgáfum drum & bass heimsins, þar á meðal Metalheadz, 31 Records og Certificate 18, auk þess sem hann á og rekur útgáfuna Commercial Suicide. Klute hefur gefið út tvær breiðskífur á Certificate 18, Casual Bodies (1997) og Fear of People (2000), en von á þeirri þriðju ‘Lie, Cheat & Steal’ í maí og er Íslandsheimsókn Klute fyrsti liður hans í ferð til að kynna plötuna. “Lie, Cheat & Steal” mun samanstanda af 2 diskum þar sem annar er helgaður drum & bass tónlistinni en sá seinni sem ber nafnið “You should be ashamed” inniheldur downtempo, elektro og techno tóna.

Ásamt Klute munu spila DJ Gunni (Ewok) og DJ Tryggvi sem munu hita upp lýðinn áður en Klute tekur völdin. Gunni og Tryggvi þreytta hér frumraun sína á vegum breakbeat.is en hafa hingað til helst skapað sér orð sem meðlimir í hinu funheita STC (Slugga Thuggaz Crew).

Breakbeat.is fastakvöldin fóru aftur af stað eftir nokkura mánaða frí í mars á Vídalín og er breakbeat.is nú farið í gang aftur af fullum krafti með nokkra nýja meðlimi innan borðs. Þetta verður án efa mjög gott drum & bass ár 2003 á Íslandi. Búast má við hörkukvöldi með úrvals snúðum þann 10. apríl og fyrir þá sem vilja freista gæfunar verður hægt að vinna sæti á gestalista á kvöldið á www.breakbeat.is.

Húsið opnar kl. 21:00, Aldurstakmark er 18 ár og það kostar 800 kr. inn.