Dans Andi - ÍD Feb 2008 Frá því um áramótin hef ég verið í Danssmíðitímum þar sem við lærum ýmsa tækni til þess að semja okkar eigin dans. Eitt af verkefnunum sem við þurftum að klára var að skrifa umsögn um 2 dansverk sem við fórum á. Ég valdi að skrifa um verkin sem voru á sýningunni Dans Andi hjá Íslenska Dansflokknum. Hér er ritgerðin mín eins og ég skilaði henni inn.

Hér ætla ég að ræða um 2 nútíma dansverk. Þau voru bæði sýnd á sýningunni Dans Andi. Það fyrra hét Kvart og var eftir Jo Strömgen. Það seinna hét Endastöð og var eftir Alexander Ekman.

Verkið Kvart var, að mínu mati, skemmtilegra verkið af þessum tveimur. Það var frekar abstrakt og mikið af fallegum og mjög sérstökum hreyfingum. En þær pössuðu alveg við það sem var í gangi, söguna sem að mér, að minnsta kosti, fannst verið að segja.

Sagan sem ég fékk á tilfinninguna að væri verið að segja var af tveimur ástföngnum manneskjum. Í byrjun voru þau í ‘okkar heimi’, þar sem stress hversdagsleikans og erfiði ýtir niður á þau, en þau ná samt að halda sambandi sínu gangandi. Það virðist samt skapa togstreitu á milli þeirra. Þegar tjaldið fór svo frá fékk ég þá tilfinningu að þau væru farin yfir í næsta heim, þar sem þeim var mætt af æðri verum. En þær voru ekki fullkomnar, heldur höfðu hver sína galla, svolítið líkt og guðir forn grikkja. Einnig fékk ég á tilfinninguna að það væri enn æðra stig sem hægt væri að komast á og að þar væri vera eða jafnvel verur sem fylgdust með þeim. Af og til heyrðust drunur og þá litu allir upp. Þá fékk ég á tilfinninguna að það væri eitthvað meira enn ókomið.

Parist virtist eiga erfitt með að sætta sig við það að þau höfðu skilið hitt lífið sitt eftir og þyrftu að koma sér inn í þetta. Þau voru greinilega að upplifa mikla óánægju við það að vera þarna. Einnig fannst mér það að maðurinn hafði tekið með sér mottuna úr fyrsta hluta verksins, sem ég fékk á tilfinninguna að stæði fyrir tengsl hans við fyrra lífið og hvernig hann vildi ekki sleppa því.

Þegar tónlistin breyttist um seinni hluta verksins fannst mér eins og þau stæðu í einhverjum átökum, að eitthvað mikilvægt væri í gangi sem þau þyrftu að ganga í gegnum. Allar hreyfingar urðu miklu átakanlegri og sterkari.

Í lok verksins fékk á tilfinninguna að parið hefði komist í gegnum þann þroska sem þau þyrftu til þess að komast á næsta stig. Þegar þau opnuðu tjaldið aftast fannst mér þau vera að stiga næsta skrefið áfram á leið sinni. Það fannst mér alveg rosalega átakanlegt og var mjög viðeigandi staður til þess að enda.

Seinna verkið, Endastöð, var mun meira í áttina að dansleikhúsi. Það var mikið um að það væri tal í gangi og verkið gekk mjög mikið út á það að vera fyndið, sem var mjög skemmtilegt á sinn hátt.

Mér fannst mjög áhugavert og skemmtilegt hvernig dansað var við ýmislegt ‘tal’, t.d. í seinni hluta verksins þar sem að hver og einn dansari talaði um eitthvað sem að honum líkaði ekki við og á meðan dönsuðu hinir dansararnir fyrir aftan, í takt við það sem verið var að segja. Það var mjög skemmtilegt hvernig þeir kiptust til og þeytust yfir sviðið en náðu samt alltaf að koma aftur að miðju þegar hver dansari var búin með sína ‘ræðu’.

Einnig var mjög skemmtilegt að fylgjast með í enda verksins, þegar að tveir dansararnir drógu fram ýmis matvæli og hófu að búa til einskonar tónlist með því. Á meðan var hægt að fylgjast með dönsurunum sem lágu á gólfinu við hliðina á þeim og ‘dönsuðu’ við þessa tónlist.

Hreyfingarnar fólust mikið í því að kippast til á ýmsan hátt en það kom mjög skemmtilega út og það var mjög gaman að fylgjast með því hvaða hreyfingar komu í takt við hvaða hljóð.

Myndbandið í endann kom mjög skemmtilega út. Það var eitthvað sem maður var ekki að búast við en var samt sem áður mjög áhugavert. Sérstaklega af því að það er hægt að gera svo mikið við myndbönd sem ekki er hægt að gera ‘live’. Það var á ýmsum stöðum spólað fram og tilbaka, sem að vísu er hægt að vissu leyti hægt að endurskapa sjálfur en kemur þá allt öðruvísi út. Hreyfingarnar verða á vissan hátt óeðlilegar þegar spólað er tilbaka, en það er það sem að gerir það áhugavert.

Einnig fannst mér mjög áhugavert að ég, að minnsta kosti, datt svo inn í myndbandið að þegar að dansararnir komu fram til þess að hneigja sig, þá bjóst maður allt eins við því að þeir væru allir hreinir og fínir.

Ég hafði mjög gaman af því að fara á þessi verk, sérstaklega í ljósi þess hvað við erum búin að læra. Það var mjög gaman að pæla meira í verkunum, eftir að hafa farið í danssmíðitímana. Áður fyrr þá tók ég bara verkunum eins og þau voru, en nú fór ég að pæla meira í hvað væri í gangi og þess háttar og það var bara mjög skemmtilegt.


Vona að þið hafið gaman af þessu og það komi einhver kippur í fólk á þessu áhugamáli
'It's gonna be AWESOME!' - Barney Stinson