Þessi grein mun verða fyrsta grein greinasamkeppninnar hér á CRPG. Mun hún vonandi vera hvatning fyrir aðra til að skrifa og senda inn grein, en því miður hefur verið heldur léleg þátttaka, bókstaflega engin grein hefur verið send inn.
Ekki búast við því að þessi grein muni innihalda mikið sem þið vissuð ekki, enda eru flestar greinar ekki þannig.
Í eftirfarandi grein mun ég tala um persónuna sem spilendur leika í BG sem “aðalpersónuna” því ekkert sérstakt nafn á við hann/hana.
Einnig mun ég tala um Imoen og viðhorf til hennar út frá sjónarhorni höfunda og hvernig söguþráðurinn “átti” að vera (t.d. taka sumir spilendur aðra persónu en Imoen með sér í hópinn þó að hún eigi veigamikið hlutverk í BG2). Það sést greinilega að höfundar ætluðuð Imoen stórt hlutverk.
———————–
Sagan á bak við Imoen og persónuleiki hennar
ATH! MIKLIR SPILLAR (SPOILER)
Imoen, þessi orkumikla og hugrakka vinkona. Í fyrri leiknum (BG) var Imoen ávallt glöð. Ekkert
gat komið henni í slæmt skap og verða fyrstu orð hennar sem spilendur heyrðu ávallt í minnum höfð: “Heya, it’s me, Imoen.” Imoen hafði hið eilífa barn í sér og stundum virtist sem hún væri miklu yngri en hún var í raun.
Líkt og aðalpersónan, var Imoen fósturbarn Gorions. Hún ólst upp í Candlekeep og varð fljótt vinur aðalpersónunnar, en Imoen kom tíu árum eftir að hann/hún (aðalpersónan) kom í fylgd með Gorion og lifði mun áhyggjulausara lífi heldur en hann/hún. Þar lærði hún en oft á tíðum leiddist henni og þá stalst hún út úr kennslutímum sínum. Imoen eyddi mun meiri tíma með Winthrop sem hún kallaði “Puffguts”, kráareigandanum í Candlekeep heldur en með Gorion, sem sýnir að hún var lítið fyrir lærdóm og vildi helst sögur og skemmtanir. Hún eyddi oft löngum stundum í að lesa bækur bókasafnsins í Candlekeep, sem var eitt helsta og merkasta bókasafn síns tíma.
Imoen velur mjög svo sérstök orð í viðræðum sínum við aðra, líkt og “You're all buffle-headed” sem ég skil varla hvað á að þýða.
Imoen á mjög auðvelt með að tala af sér, og virðist aldrei taka neinu virkilega alvarlega. Hún lítur á lífið með léttum augum, en lærir síðar af reynslunni að lífið er ekki dans á rósum.
Ávallt var hún trú og trygg, og hverja þá leið sem aðalpersónan myndi taka, þá fylgdi hún honum/henni alltaf fast á eftir. Varla var hægt að finna sér betri vin. Þessi hreina og litla sál hélt út í heiminn með hetjunni, ómeðvituð um þær hættur og þau víg sem væru framundan.
Imoen verður vitni að því þega Gorion er drepinn af Sarevok og býðst til þess að ferðast með aðalpersónunni. Að öðru leyti fer óskaplega lítið fyrir henni uns komið er í seinni leikinn.
Í BG2 hefur Imoen mikið breyst. Hún er hlédræg og döpur og reynslan sem hún hefur fengið eftir alla þessa bardaga og pyntingar Jon Irenicus hafa grafið sig djúpt inn í sál hennar. Þrátt fyrir það þá skín hinn gamli persónuleiki hennar í gegn á tímum, en þó er það sjaldan.
Nú hefur Imoen fengið veigamikið hlutverk í söguþræðinum, þó að hún hafi ávallt átti mikinn þátt í lífi aðalpersónunnar. Í upphafi leiksins frelsar hún aðalpersónuna úr fangelsi. Þegar úr dýflissunni er komið hittir hópurinn fyrir Irenicus og er Imoen ásamt Irenicusi handtekin af “The Cowled Wizards” sem fara með þau í spellhold. Þar fellur þunginn á hlutverk Imoen því nú er búið að fanga litlu systurina, en aðalpersónan lítur (kemur fram í nokkrum samtölum þeirra, seinna kemur í ljós að hún er systir hans) á Imoen sem litlu systur sína. Þá hefst björgunarleiðangurinn. Þegar til Spellhold er komið kemst aðalpersónan að því að Imoen er einnig barn Bhaals og er það Irenicus sem uppljóstrar því en hann hafði tekið yfir Spellhold. Hinn illi Jon Irenicus vildi fanga systkinin tvö til að geta stolið sálum þeirra sem voru hálfguðlegar til að endurheimta það sem hann tapaði.
Vampýran Bodhi, systir Irenicus, fær sál Imoen og Irenicus tekur sál aðalpersónunnar. Nú er ekkert annað í stöðunni en að enduheimta sálirnar. Freðalangarnir ferðast meðal annars Underdark og fornu álfaborgarinnar Suldanessellar. Í borginni Athkatla hitta þau Bodhi og drepa hana endanlega. Þar fær Imoen sál sína aftur. Hins vegar fær aðalpersónan sál sína aftur í níunda helvítinu (The last Hell of the Nine Hells).
Í TOB fer lítið fyrir Imoen fyrir utan það að hægt er að gefa hluta af sálu hennar til að endurreisa Sarevok.
Að lokinni ákvörðun aðalpersónunnar (um að verða eftirmaður Bhaals eður ei) hélt Imoen sína eigin leið.
Hún sneri aftur til Candlekeep og dvaldi þar um tíma. Hin mikla kunnátta og þekking á göldrum sem Imoen bjó nú yfir gagnaðist Candlekeep, sem var jú eitt merkasta bókasafn síns tíma.
Imoen yfirgaf Candlekeep þó fljótt, því einhvern veginn fannst henni hið mikla bókasafn hafa minnkað. Ástæðan er líklega sú að Imeon var orðin svo öflug að hún fann ekki lengur fyrir minnimáttarkennd, eins og ég vil komast að orði. Einnig virtist bókasafnið ekki vera eins mikilfenglegt eftir að hún hafði séð allar þessa stórfenglegu hluti: borgir, dýflissur, kastalar og skepnur sem virtist ekki vera eins fjarlægt og áður.
Sagt er að Imoen hafi sést í félagsskap með mönnum á borð við Khelben “Blackstaff” og sjálfum Elminster, hinum árþúsundagamla galdramanni.
Hvarvetna sem hún fórt hafði hún ávallt mikil áhrif og á hún að hafa stofnað launmannasamtök (thives guild).
Imoen sem “Mage/Thief”
Í BG1 er lítið varið í Imoen sem þjóf, en þó er fljótlega hægt að tvíþætta flokk (class) hennar yfir í Þjóf/Galdramann. Það geriri hana hins vegar mun verri að mínu mati, þar sem hún getur ekki einu sinni notað leðurherklæði né sverð eftir það. Eina ástæðan fyrir því að ég hafði hana í teyminu mínu var hlutverk hennar, og sú ástæða finnst mér meira en nógu góð til að halda Imoen. Þó hún sé komin á hæsta reynslustig (level) hittir hún allt of sjaldan.
Þegar komið er í BG2 hefur Imoen reyndar tvískipt flokki sínum yfir í Galdramann/Þjóf. Þar verður hún, líkt og sannast, mun betur í stakk búin fyrir yfirvofandi bardaga. Þó svo að hún sé einungis með 17 í gáfum (Intelligence), og getur þar af leiðandi ekki skrifað eins marga galdra niður í galdrabókina sína, er mikið gagn af henni. Auðvitað stendur samt hlutverk hennar í lífi aðalpersónunnar og söguðþræði leiksins langt fyrir ofan hagnýtni hennar í bardaga.
Í BG2 getur Imoen hins vegar notað leðurherklæði, sverð, boga og fleira, ólíkt BG1. Þó er einn galli á, ef hún notar leðurherklæði getur hún ómögulega notað galdra og verður spilandinn því að velja hvort hann vilji frekar (ég giska á að flestir myndu nota galdrana, þar sem Imoen fær engar fleiri upphækkanir í reynslustigum sem þjófur (level up)). Ein herklæði getur Imoen þó notað án þess að missa galdrana sína (á meðan hún er í herklæðunum) og er sú brynjar (já brynja, ekki leðurherklæði) alls ekki í lakari kantinum. Það er brynjan “Bladeslinger Chain +4” með 1 í varnarflokkstuppbót (AC). Þessi samsetning, Imoen sem galdramaður í brynju, er rosalega góð. Brynjan fæst af svarta drekanum Nizidramanii'yt í Suldanessellar. Það sem gerir þessa brynju enn merkilegri er að það er hægt að uppfæra hana. Það er gert í TOB hjá snillingnum Cespenar og það sem þarf til er: Bladeslinger Chain, “Protection From Normal Weapons Scroll”, og 40000 gull. Útkoman er hreint út sagt ótrúleg: Aslyferund Elven Chain +5 með 0 í varnarflokksuppbót og ónæmi fyrir öllum venjulegum vopnum!
Getgátur og pælingar
Imoen var barn Bhaals, líkt og aðalpersónan. Hvers vegna lögðu óvinir miklu minni áherslu á að ná henni (BG1) og hví breyttist hún aldrei í “Slayer”?
Ávallt var verið að eltast við aðalpersónuna og var hann/hún mjög áberandi þar sem hann/hún leiddi hópinn og var mjög öflug(ur). Imoen féll ávallt í skuggann af aðalpersónunni og hafa óvinir því ekki veitt henni eins mikla athygli, þar sem aðalpersónan var mun öflugri og þar af leiðanid miklu meira áberandi og hættulegri. Mín kenning er sú að Imoen hafi jafnvel bara gleymst, en auðvitað geta höfundar lumað á einhverri ástæðu (ef hún hefur þá ekki verið opinberuð (í leiknum jafnvel (en þá hef ég misst af því))).
Ástæðan fyrir því af hverju Imoen breyttist aldrei í Slayer (sem gerist reyndar í Acension “modinu”) er gefin upp í einu samtali Imoen og Aerie, og það er frekar áreiðanleg ástæða. Í samtalinu spyr Aerie hvort Imoen sé viss um hvort hún breytist í “Slayer” eður ei. Imoen segir að hún hafi heyrt hinar “innri raddir” sem skipa henni að sætta sig við það sem hún fæddist til að vera en hingað til hefur hún náð að streytast á móti þeim.
Ekki veit ég hvort þessi ástæða geti staðist, því hún stangast á við þá staðreynd að aðalpersónan hefur mikla yfirburði yfir Imoen (sbr. áhersla óvina (fyrir utan Irenicus) á að ná aðalpersónunni en ekki Imoen (sbr. Sarevok)). Þó getur verið að sá “Slayer” sem aðalpersónan breytist í sé miklu öflugri en sá sem Imoen gæti breyst í, og því erfiðara að veita viðnám gegn því. Einnig gæti bara verið að Imoen sé í raun viljasterkari en aðalpersónan.
Heildin
Þegar á heildina er litið, þá held ég mikið upp á Imoen (þó hún eigi það til að kvarta og tala mikið, en það eykur bara skemmtanagildið, að mér finnst) og gæti ég ekki ímyndað mér BG söguþráðinn án hennar.
———————–
Ég vil engar ábendingar um það hversu leiðinlegt sé að ég íslenski margt (sumir eru víst eitthvað að móti því).
Heimildir
http://www.planetbaldursgate.com/bg2/encounters/npcs/imoen/
http://gamebanshee.com/baldursgateii/npcs/imoen.php
http://mikesrpgcenter.com/bgate2
http://www.womengamers.com/dw/imoen.php
BALDUR'S GATE
BALDUR'S GATE II: SHADOWS OF AMN
BALDUR'S GAT II: THRONE OF BHAAL