
ICELANDIC MOVIE
eftir að ég gerði mína mynd..þá, mann ekki hvort einhver sagði þetta en..er ekki málið að gera eina íslenska comunity movie?
Klisja & Abattage
Andlegt ofbeldi framkvæmt með vilja geranda er það viðurstyggilegasta athæfi sem fyrirfinnst. Allt byrjar þetta hægt og rólega, kannski hægt að taka þessu sem sakleysislegu gríni í byrjun, en smám saman, hægt og hljóðlega snýst það upp í andhverfu sína verður að martröð, hreinu helvíti á jörð. Sameiginlegt með öllu öðru ofbeldi fer þetta hljótt, það má enginn vita af þessu og því tekur þolandinn fullan þátt í ásamt gerandanum, í raun er það þolandanum lífs nauðsyn að enginn viti af þessu.
Andlegt ofbeldi er allt það sem er sagt við aðra manneskju um hana sjálfa, útlit hennar, greind og gerðir, um fjölskyldu hennar og jafnvel vini með það að markmiði að brjóta hana niður, áhrifaríkasta aðferðin er þegar verið er að tala um fólk í áheyrn þess. Þetta veldur því að þolandinn fer að trúa því að hann sé ómögulegur, einskis virði, ljótur, heimskur og vitlaus, kunni ekki neitt og einfaldlega geti ekki neitt. Og afleiðingarnar, þú sjálfur, þolandinn situr uppi með sektarkenndina og skömmina, stóran kökk í hálsinum, sektarkennd yfir því að vera eins og þú ert, yfir því að vera til, sektarkennd yfir því að vera svo ómögulegur og svo einskis virði að þú eigir þetta skilið, trúa því að þú sért að gera öðrum rangt til með því að vera á lífi. Og á endanum skilst þér að enginn vill þekkja þig, ekki einu sinni þú sjálfur.
Andlegt ofbeldi er allt sem þú gerir á hlut einhvers annars til að þér sjálfum líði betur, til að öðlast vald. En bíðum aðeins við, þetta færir þér aðeins stundargleði. Seinna kemur samviskubitið og sektarkenndin yfir gjörðum þínum.
Annað orð yfir andlegt ofbeldi er EINELTI.
Börn og unglingar eru óvægin og þau eru fljót að finna hvar þau hafa valdið. Þau eru fljót að finna hvar aðrir eru veikir fyrir, eitt lítið lýti eða sérkenni dugir alveg ágætlega. Það sem fullorðnu fólki finnst jafnvel aðlaðandi er kannski sérkennilegt og þar af leiðandi ljótt í augum barns, og þá er engin miskunn sýnd.
Líklegasta skýringin á því af hverju börn, unglingar og jafnvel fullorðið fólk gerir þetta er sú að þau séu að fela eitthvað aflaga í fari, greind eða útliti sjálfs síns eða fjölskyldu sinnar með því að beina augunum að einhverjum öðrum. Eitthvað sem þú heldur eða gerir þér vonir um að sé aðeins smá stríðni í dag hefur snúist upp í ofsóknir á morgun. Og allt sem mamma segir þér að gera: hlæja að þeim, stríða þeim á móti, þykjast ekki taka eftir þessu o.s.frv. dugir ekki til. Hún skilur þetta ekki, hún þekkir ekki hugtakið einelti hvað þá andlegt ofbeldi. Reyndin er sú að það er alveg sama hvað þú gerir það bara virkar ekki, það þykir töff að níðast á þér og allt sem þú gerir til að bæta úr því veldur aðeins hlátri.
Einelti er það þegar ekki er hægt að ganga á gólfinu sem þú ert nýbúin að ganga yfir af því að það er eitrað.
Þegar vinir þínir hætta að umgangast þig til þess að verja sjálfan sig. Þú mátt koma heim til þeirra en þú átt helst ekki að þekkja þá úti á götu.
Þegar enginn vill sitja hjá þér í skólanum.
Hvert sem þú ferð eða hvað sem þú gerir, alltaf sér þig einhver, einhver sem hefur eitthvað andstyggilegt út á þig að setja og er ófeiminn við að segja þér og öllum sem vilja og jafnvel vilja ekki heyra það, frá því.
Að mega stöðugt búast við því að það sé níðst á þér, þar til eini öruggi staðurinn er þitt eigið herbergi með læstar dyr og dregið fyrir gluggann. En samt á einhvern undarlegan hátt fer þetta svo hljótt að fólkið sem ætti að láta til sín taka, tekur ekki eftir neinu athugaverðu, það sér ekki að neitt sé að og þolandinn heldur áfram að þegja.