Að komast á spons án þess að hreyfa sig ! Að vera byrjandi á hjólabretti árið tvö þúsund og eitthvað, er bara fyrir hálfvita. Maður er að horfa á öll þessi brjáluðu vídeó sem maður er alltaf að kaupa og hugsar með sér, ég er handónýtur á þessu drasli og er ekkert að meika það á Ingólfstorgi með þessu áframhaldi. En það er bara alveg í góðu lagi, þú getur verið aðalmaðurinn á torginu án þess að hamast eins og hálviti alla daga með hor í nefinu og að drepast í rassgatinu. Þú getur fengið fullt af stöffi frá bestu búllunum í bænum og verið sponsoraður út og suður án þess að hreyfa þinn viðkvæma rass út úr húsi!

Það fyrsta sem þú þarft að gera er að redda þér tölvu, sem þú greinilega ert með ef þú ert að lesa. Næst reddar þú þér forriti sem heitir Premiere eða Final Cut - við skulum miða við Primiere sem er hægt að ná í einhvers staðar en ég hef aldrei nennt að leggja á minnið. Þegar það er komið tekur það örugglega einhverja mánuði að læra á forritið - sem er mun fljótara en að hamast á einhverju Pop shoveit tail grabs dæmi sem þú nærð aldrei hvort sem er (fyrst þú ert enn að lesa). Þannig að þú skalt líma þig við tölvuna í allan vetur og hakka þessu forriti inn í hausinn á þér.

Ef þú átt “digital camera” (stafræna myndavél) með “firewire output” þá ertu í góðum málum en annars geturðu bara tekið eina á leigu í Aco - eða eitthvað - og svo er bara að ráðast á “skate”vídeósafnið og velja sér einhvern “pro”, sem gæti verið þú en passaðu bara að velja ekki eitthvað 900, dæmi með Tony Hawk, eða “underflip primo slide” með Julio De La Cruz, sem er örugglega ekkert líkur þér hvort sem er. Svo ferðu bara að dæla þessu inn í tölvuna með nýjasta vininum, Mr. Digital. Þetta getur tekið svaka tíma en hugsaðu bara um það, að bráðum verður þú aðalmaðurinn í öllum brettabúllum bæjarins.



Þegar þú ert búinn að ná öllum þessum trikkum inn á, (“sponsaðu” mig vídeóið) þá verður þú að klippa inn í allskonar senur sem að gera þetta svolítið raunverulegt, þ.e. mjög flott. Til dæmis að sparka í ruslatunnur, brjóta brettið sitt, rífa kjaft við Securitas, vera fullur, fara í sleik við stelpur, stinga lögguna af, og svo er bara að klippa inn “trikkin” á réttum stöðum og passa að það sjáist ekki í andlitið á einhverjum “pro” gaur sem allir þekkja. Með Primiere forritinu er hægt að klippa inn andlitsmynd af þér og setja í staðinn þannig að enginn fattar eitt eða neitt. Svo er rosalega gott að hafa eitthvað lummulegt hipp hopp “soundtrack” yfir öllu draslinu svo að þetta verði “cool as hell”.

Næsta skref er bara að búa til nokkur eintök af allri snilldinni og senda með pósti í allar betri brettabúllur í bænum með símanúmeri og bíða eftir að tilboðin fari að streyma inn, og áður en þú veist af er búið að fylla herbergið þitt af hjólabrettum og allskonar drasli sem þig hefur alltaf langað í. Svo er bara að mæta á Ingólfstorg allur uppstrílaður og flottur með allar nýjustu græjurnar. Ef að þessi auma tilraun til að komast á spons virkar ekki, þá er ekkert mál að fá sér bara vinnu við að sitja á rassgatinu og klippa auglýsingar
einhverstaðar í bænum eða vinna við að skrifa svona bull á Internetið eins og ég er að gera akkúrat núna, en maður lærði þó allavega á tölvu………

Ps..þessu var öllu stolið af Netinu