Ég rakst á þessa grein á bigjump.is.. vildi bara sína fólki þetta…


Fréttablaðið, Sun. 1. feb. 19:47
Kýldur fimm sinnum í andlitið
Ragnar Hilmarsson lenti í erfiðri reynslu þegar hann, ásamt níu ára syni sínum og vini hans, var á skíðum í Bláfjöllum á miðvikudagskvöld. Ragnar fór með drengina í stólalyftuna og þegar þeir voru á leiðinni upp gerði unglingsstrákur, sem sat tveimur bekkjum fyrir framan Ragnar, sér að leik að standa upp og hoppa í stólnum. Við það hristist togvír stólalyftunnar svo um munaði. Ragnar segir strákana litlu hafa orðið mjög hrædda.

Þegar upp var komið talaði Ragnar við drenginn sem átti sök að máli. \“Ég spurði hvort hann gerði sér grein fyrir að uppátæki hans hefði hrætt strákana og benti honum á að fleiri börn hefðu verið í lyftunni. Drengurinn reif stólpakjaft. Þá benti ég honum á að ég myndi sjá til þess að lyftukortið hans yrði klippt og honum vísað út af skíðasvæðinu.\” Að því búnu sneri Ragnar sér frá honum og settist niður til að festa á sig brettið.

\“Það næsta sem ég veit er að drengurinn er kominn að mér og kýlir mig fimm sinnum í andlitið. Vinir stráksins reyndu að stöðva hann en ég varð svo gáttaður að ég áttaði mig ekki á hvað væri á seyði. Þegar ég stóð svo upp var drengurinn horfinn niður brekkuna. Ég gáði eftir honum þegar niður var komið en sá hann ekki aftur.\” Litlu drengirnir tveir, sem voru með Ragnari, urðu vitni að því þegar hann var kýldur. \“Báðir urðu logandi hræddir en sem betur fer voru þeir fljótir að jafna sig.\”

Ragnar segist aldrei áður hafa lent í svipuðu atviki. \“Ég vann á unglingaheimili hér áður fyrr og hafði umsjón með frekar harðsvíruðum strákum. Atvik eins og átti sér stað í Bláfjöllum henti mig aldrei.\”

Ragnar gagnrýnir að menn á vegum skíðasvæðisins séu ekki á ferð um svæðið til að koma í veg fyrir slæm atvik. Slíkt eftirlit sé undantekningarlaust á skíðasvæðum erlendis.

Pælið í þessu að ráðast bara á manninn !
fáránlegt…