Fólk sem vill banna íþróttina er alltaf fólk sem hefur ekki iðkað hana og hefur engan skilning á henni. Fólk hræðist það sem það skilur ekki og hatar það sem það getur ekki unnið bug á. Annars er það ekki á verksviði Alþingismanna að banna og leyfa íþróttir. Það er í höndum íþróttahreyfingarinnar og Alþingi gerði á sínum tíma lítið úr starfi ÍSÍ með því að banna hnefaleika. Það kaus enginn pólítíkusa á Alþingi til þess að þeir gætu sagt einstaklingum hvað þeir vilja gera með sinn eigin frítíma. Síðast var það hreinn klíkuskapur sem réði ferðinni. Ég hef ekki enn heyrt í lækni sem blandar ekki einhverri siðferðishugvekju við samhengislausa staðreyndaupptalningu sem oftast snýr að atvinnumannahnefaleikum… allt annarri íþrótt. Um leið og vísindamaður kemur með einhverja sleggjudóma hefur hann gert lítið úr sinni eigin getu til þess að leggja nokkuð viturlegt til umræðunnar. Hann hefur þá ekkert meira um málið að segja sem hefur meira vægi en ef ég og þú værum að ræða kjarneðlisfræði, eitthvað sem við vitum ekkert um.
Þessir blessuðu fordómaseggir kostuðu íslensku hnefaleikahreyfinguna 50 ár af framförum og tóku af okkur heilu kynslóðirnar af fyrrverandi iðkendum sem gætu reynst vel í dag við skipulagningu, stjórnendastörf, þjálfun, öryggismál, dómgæslu og annað slíkt. Allt út af einhverjum klíkuskap forsjárhyggjumanna fyrir hálfri öld.