Hnefaleikanefnd ÍSÍ hefur boðist það að fá Íslandsmeistaramótið sýnt á Sýn strax á undan bardaga Oscar de La Hoya þann 5. maí 2007. Er búist við einum stærsta bardaga síðustu missera með viðeigandi áhorfi og er það því frábært tækifæri fyrir hnefaleikana á Íslandi að fá að taka þátt í þeirri markaðssetningu. Mótið sjálft verður 4. maí en sýningin verður kvöldið eftir, 5. maí ásamt viðtölum við keppendur ofl.
Meðfylgjandi er svo fréttatilkynning Keppnisnefndar Hnefaleikanefndar ÍSÍ:
Þann 4. maí 2007 verður Íslandsmeistaramót í hnefaleikum haldið í Ljónagryfjunni, Reykjanesbæ en búist er við að um 10 titlar verði veittir þetta kvöld. Forkeppni mótsins verður haldin helgina áður eða 28. og 29. apríl og þá í húsnæði Hnefaleikafélags Reykjaness, gömlu sundhöllinni í Reykjanesbæ.
Forkeppnin verður milli kl. 20:00 og 22:00 bæði laugardag og sunnudag en húsið opnar hálftíma fyrr og er frítt inn. Á aðalkvöldinu, föstudagskvöldinu 4. maí, opnar húsið kl. 19:30 en keppnin hefst stundvíslega kl. 20:00. Aðgangseyrir inn á aðalkeppnina er kr. 1.000 í forsölu og kr. 1.500 við innganginn, 500 kr. fyrir 12 ára og yngri. Forsala miða verður í afgreiðslu hnefaleikafélaganna fram yfir þriðjudaginn 1. maí.